Handbolti

Topp­liðin mætast í átta liða úr­slitum og Hafnar­fjarðar­slagur karla­megin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukr og FH eigast við í Hafnarfjarðarslag í Powerade-bikar karla í handbolta í febrúar.
Haukr og FH eigast við í Hafnarfjarðarslag í Powerade-bikar karla í handbolta í febrúar. Vísir/Vilhelm

Dregið var í átta liða úrslit karla og kvenna í Powerade-bikarnum í handbolta í dag og óhætt er að segja að spennandi viðureignir séu framundan.

Í bikarkeppni kvenna mætast liðin sem nú verma efstu tvö sæti Olís-deildarinnar, Valur og Haukar, í því sem búast má við að verða hörkuslagur.

Þá eru einnig þrjú lið úr Grill66-deild kvenna enn í keppninni og fá þau öll heimaleiki, enda kveða raglurnar á um það að lið í neðri deild fái heimaleik. 

Topplið Grill66-deildarinnar, Selfoss, tekur á móti KA/Þór, en liðið sló Fram út í 16-liða úrslitum, og Grótta, sem situr í öðru sæti Grill66-deildarinnar, tekur á móti Stjörnunni. Þá tekur HK á móti ÍR, en HK-ingar féllu úr Olís-deildinni á síðasta tímabili, en ÍR-ingar komu sér upp í Olís-deildina á sama tíma.

Átta liða úrslit Powerade-bikars kvenna fara fram dagana 6. og 7. febrúar, en nákvæm tímasetning leikja er þó ekki orðin ljós.

Átta liða úrslit kvenna

Selfoss - KA/Þór

HK - ÍR

Valur - Haukar

Grótta - Stjarnan

Í karlaflokki eru einnig spennandi viðureignir á dagskrá og ber þar líklega hæst að nefna Hafnarfjarðarslag Hauka og FH.

Öll átta liðin sem eftir eru í Powerade-bikar karla leika í Olís-deildinni og því var það drátturinn sem réði því hvaða lið myndu fá heimaleik. 

Auk viðureignar Hauka og FH mætast Stjarnan og KA, Valur og Selfoss og að lokum fara ríkjandi bikarmeistara Aftureldingar til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV.

Átta liða úrslit Powerade-bikars karla fara fram dagana 12. og 13. febrúar, en líkt og í kvennaflokki er nákvæm tímasetning leikja þó ekki orðin ljós.

Átta liða úrslit karla

Stjarnan - KA

ÍBV - Afturelding

Valur - Selfoss

Haukar - FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×