Körfubolti

Yfir­lýsing varðandi Okeke: „Gífur­lega þakk­lát góðum við­brögðum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
David Okeke var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eftir að hann hneig til jarðar í leik með Haukum gegn Tindastóli í gær.
David Okeke var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eftir að hann hneig til jarðar í leik með Haukum gegn Tindastóli í gær. Vísir/Anton

Körfuknattleiksdeild Hauka sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem félagið fer yfir atvik sem átti sér stað í leik liðsins gegn Tindastóli í Subway-deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar leikmaður þeirra, David Okeke, hneig niður þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta.

David Okeke fór í hjartastopp í öðrum leikhluta leiksins. Hann féll til jarðar og mátti sjá að bjargráður hans gaf honum stuð. Hann komst til meðvitundar stuttu seinna og reisti sig við.

Þá fékk David aftur stuð frá bjargráðnum og mátti sjá á svip hans að hann fann vel fyrir því.

David settist aftur á varamannabekk liðs síns, en lítið var eftir að fjórðungnum og eftir leikhlé var hann ekki sjáanlegur á bekknum. Okeke hafði verið fluttur á sjúkrahús.

Fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur

Eins og áður segir sendu Haukar frá sér yfirlýsingu fyrr í dag þar sem farið er yfir atvikið. Þar kemur meðal annars fram að Okeke hafi verið fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Hann hafi svo verið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann er kominn undir læknishendur sérfræðinga.

„Í gærkvöldi í leik Tindastóls og Hauka hneig David Okeke, leikmaður mfl. karla, niður í miðjum leik og þurfti á læknisaðstoð að halda í kjölfarið. Var farið með hann á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar og rannsókna og gisti hann þar í nótt. Í morgun var farið með hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur og er hann kominn undir læknishendur sérfræðinga á Landspítalanum,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá vilja Haukar einnig þakka öllum þeim sem staddir voru í Síkinu fyrir góð viðbrögð. Sjálfboðaliðar og starfsmenn hússins hafi stokkið til og læknir, sem var meðal áhorfenda, aðstoðaði Okeke.

„Það fór um marga þegar hann hneig niður og viljum við þakka góð viðbrögð á Sauðárkróki meðal sjálfboðaliða og starfsmanna í húsinu. Læknir sem var í húsinu meðal áhorfenda hjálpaði okkar manni og við erum við gífurlega þakklát góðum viðbrögðum.

Nú bíðum eftir frekari fréttum af hans heilsu og vonum að hann nái fyrri styrk,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×