Innherji

Guð­mundur Fer­tram og risa­sala á Kerecis hlutu við­skipta­verð­laun Þjóð­mála

Ritstjórn Innherja skrifar
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, var valinn viðskiptamaður ársins 2023 á hátíðarkvöldi Þjóðmála síðasta fimmtudag.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, var valinn viðskiptamaður ársins 2023 á hátíðarkvöldi Þjóðmála síðasta fimmtudag. Kristinn Magnússon

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, var útnefndur viðskiptamaður ársins 2023 á Hátíðarkvöldi Þjóðmála síðastliðinn fimmtudag auk þess sem risasala á fyrirtækinu til alþjóðlega heilbrigðisrisans Coloplast fyrir jafnvirði um 180 milljarða króna var valin viðskipti ársins. Þá hlaut Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar, sérstök heiðursverðlaun Þjóðmála fyrir ævilangt framlag sitt til uppbyggingar íslensks atvinnulífs.

Guðmundur Fertram er maðurinn á bakvið ævintýralegan vöxt Kerecis sem færði íslenskum fjárfestum gríðarlega ávöxtun við sölu á félaginu fyrr í sumar. 

Í rökstuðningi fyrir valinu var meðal annars nefnt að persónueiginleikar Guðmundar Fertrams, og sú gæfa hans að velja með sér gott fólk til starfa, hafi reynst grunnurinn að því að búa til fyrirtæki utan um þá hugmynd að hægt væri að gera yfir milljón króna verðmæti úr einu þorskroði – fiskafurð sem áður var talin einskis virði og fleygt.

Hjónin Fanney K. Hermannsdóttir og Guðmundur Fertram Sigurjónsson taka á móti verðlaununum sem þeir Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, og Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi Þjóðmála, veittu Guðmundi Fertram sem viðskiptamaður ársins 2023.Kristinn Magnússon

Guðmundur Fertram hefur sýnt fádæma elju og útsjónarsemi við að byggja upp líftæknifyrirtæki, nánast úr engu, sem á skömmum tíma er komið í forystu á sínum markaði á heimsvísu. Hann hafði til að bera framsýni við sölu á Kerecis, í einni stærstu yfirtöku Íslandssögunnar, sem er líkleg til að efla og stækka félagið enn frekar á alþjóðamörkuðum.

Viðskiptaverðlaunin voru veitt á Hátíðarkvöldi Þjóðmála, sem heldur úti samnefndum hlaðvarpsþætti um viðskipti og stjórnmál, og fór fram fimmtudaginn 16. nóvember, degi íslenskrar tungu, í Sjálfstæðissalnum (áður Nasa) á Iceland Parliament hótelinu við Austurvöll. Var þetta í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, var heiðursgestur og flutti ræðu.

Það var jafnframt samdóma álit dómnefndar Þjóðmála að útnefna söluna á Kerecis til Coloplast fyrir 1,3 milljarða Bandaríkjadala, allt greitt í reiðufé, sem viðskipti ársins 2023 – en þau setja ný viðmið í íslenskri viðskiptasögu.

Viðskipti ársins var sala á Kerecis til Coloplast fyrir samtals allt að 180 milljarða króna. Ásamt þeim Guðmundi Fertram og eiginkonu hans Fanneyju K. Hermannsdóttur veittu þeir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stjórnarmaður í Kerecis, og Andri Sveinsson, fjárfestir og stjórnarformaður Kerecis, verðlaununum mótttöku.  Kristinn Magnússon

Það hefur verið ævintýri að fylgjast með hröðum vexti Kerecis, sprotafyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til Ísafjarðar, allt frá stofnun félagsins fyrir rétt rúmum áratug. Stundum gaf samt á bátinn og útlitið var á köflum ekki gott. Um tíma voru skrifstofur félagsins færðar heim í stofu, starfsemin skorin við trog og stofnendurnir þurftu að auka við sig í annarri vinnu til að standa undir launakostnaði annarra starfsmanna.

Það reyndist rétt ákvörðun. Fáeinum árum síðar var Kerecis var farið að velta árlega um tuttugu milljörðum og með mörg hundruð starfsmenn í vinnu – og fyrr í sumar kom Coloplast og keypti fyrirtækið í heilu lagi á verðmiða sem er sjaldséður í íslensku viðskiptalífi. Margföldun á hlutafjárvirði Kerecis skilar fjölmennum hópi íslenskra fjárfesta, stofnenda og starfsmönnum félagsins fáheyrðum ágóða sem mun vafalaust eiga eftir að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs og frekari nýsköpunar hér á landi til lengri tíma litið, sagði meðal annars í rökstuðningu fyrir valinu.

Á Hátíðarkvöldi Þjóðmála voru sömuleiðis veitt sérstök heiðursverðlaun og hlaut Jón Sigurðsson, sem gegndi forstjórastarfi Össurar á árunum 1996 til 2022, þá viðurkenningu fyrir framlag til sitt til atvinnulífs á Íslandi og uppbyggingar á alþjóðlega stoðtækjafyrirtækinu. Með því hefur styrkum stoðum verið skotið undir framþróun í íslensku vísinda- og uppfinningastarfi auk þess sem vöxtur Össurar skapaði fordæmi fyrir önnur íslensk fyrirtæki sem vilja ná árangri á alþjóðavísu.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar í rúmlega aldarfjórðung, fékk sérstök heiðursverðlaun Þjóðmála fyrir framlag sitt til íslensks atvinnulífs og voru þau veitt af Áslaugu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.Kristinn Magnússon

Þegar Jón tók við stjórn fyrirtækisins voru starfsmenn þess 40 talsins og veltan nam 400 milljónum króna á ársgrundvelli. Össuri óx þó fiskur um hrygg og hefur um langt árabil verið vísað til fyrirtækisins sem eins helsta óskabarns þjóðarinnar. Á þeim rúmlega aldarfjórðung árum sem Jón leiddi fyrirtækið tók það yfir liðlega 60 fyrirtæki og er í dag með yfir 4.000 starfsmenn sem dreifðir eru um heim allan.

Jón hefur ekki setið auðum höndum frá því að hann lét af starfi forstjóra og er meðal annars stjórnarformaður HPP Solutions og sænska fyrirtækisins Vitrolife.

Ásamt heiðursviðurkenningarskjali var hlaut Jón málverk eftir listmálarann Sigurð Sævar Magnúsarson sem getið hefur sér gott orð á sýningum hér heima og erlendis á síðustu árum. Málverkið er hluti af svokallaðri dýraseríu listamannsins sem notið hefur mikilla vinsælda.

Þá voru hjónin Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann, stofnendur og eigendur Friðheima, útnefnt sem kaupmenn ársins 2023. Fjölskyldan hefur allt frá því að hún keypti Friðheima um miðjan tíunda áratug síðustu aldar byggt upp matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu sem er núna í fremstu röð.

Hjónin Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann, stofnendur og eigendur Friðheima, voru útnefnd sem kaupmenn ársins 2023.Kristinn Magnússon

Í rökstuðningi fyrir valinu var bent á að aðferð þeirra við að tvinna saman sjálfbærni á grundvelli orkunýtingar hefur vakið athygli vítt og breitt um heiminn. Þegar kórónuveirufaraldurinn lagðist yfir heimsbyggðina ákváðu fjölskyldan að blása til sóknar og tvöfaldaði framleiðslugetu tómatræktunarinnar og enn er eftirspurnin eftir vörum þeirra langt umfram framboðið.

Þau létu ekki þar við sitja. Nýttu gamalt gróðurhús til þess að reisa nýjan veitingastað og vínstofu þar sem tekið er á móti gestum og gangandi. Það var fyrr á þessu ári og hafa viðburðir með íslensku tónlistarfólki meðal annars notið mikilla vinsælda og uppselt er á alla viðburði sem efnt er til á þessum magnaða stað.

Á Hátíðarkvöldi Þjóðmála voru einnig veitt sérstök samfélagsverðlaun og var það Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi sjávarútvegsfyrirtækisins Brim, sem hlaut þau.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi sjávarútvegsfyrirtækisins Brim, hlaut samfélagsverðlaun Þjóðmála.Kristinn Magnússon

Hann fékk samfélagsverðlaun Þjóðmála meðal annars fyrir að hafa þótt sýna kjark og þor til að standa gegn – og hafa að lokum sigur – ólöglegum ofsóknum eftirlitsstofnana, með fulltingi ráðherra, ásamt því að vera óþreytandi talsmaður aukins gagnsæis í sjávarútvegi og stuðla að upplýsandi umræðu um atvinnugreinina.

Þá hefur Brim einnig um árabil stutt myndarlega við ýmsa samfélagslega starfsemi í þeim tilgangi að efla einkum menningu, menntun og íþróttir, sagði í rökstuðningi fyrir útnefningunni.

Að lokum var það mat dómnefndar Þjóðmála að velja augnþróunarlyfjafyrirtækið Oculis sem bjartasta vonin árið 2023.

Þeir Einar Stefánsson og Páll Ragnar Jóhannesson, framkvæmdastjóri stefnumótunar Oculis, tóku á móti verðlaununum sem fyrirtækið Oculis hlaut sem bjartasta vonin árið 2023.Kristinn Magnússon

Það var fyrir tveimur áratugum sem tveir íslenskir prófessorar í læknis- og lyfjafræði, Einar Stefánsson og Þorsteinn Loftsson, stofnuðu Oculis byggt á uppfinningu þeirra.

Á þeim tíma sem er liðinn hefur fyrirtækið, fjármagnað af bæði íslenskum og erlendum fjárfestum, þróað byltingarkennda tækni við meðhöndlun alvarlegra augnsjúkdóma. Það hefur nú þegar náð eftirtektarverðum árangri og sýnt hefur verið fram á virkni augndropanna félagsins fyrir sjónhimnubjúg af völdum sykursýki í klínískum rannsóknum.

Aðstandendur Hátiðarkvölds Þjóðmála þeir Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi Þjóðmála, og samstarfsfélagar hans Hörður Ægisson og Stefán Einar Stefánsson. 

Vel heppnuð skráning Oculis á Nasdaq-markaðinn í Bandaríkjunum fyrr á árinu, sem verðmat félagið á liðlega fimmtíu milljarða króna, undirstrikaði trú fjárfesta á félaginu. Nú styttist óðum í að fyrsta lyf félagsins komist á markað beggja vegna Atlantshafsins þar sem væntingar eru um að félagið muni fljótt ná tugprósenta markaðshlutdeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×