Innlent

Sund­laugin lekur

Atli Ísleifsson skrifar
Dúkurinn í laugarkerinu er frá byggingarári hússins 1996. Hann er því kominn til ára sinna.
Dúkurinn í laugarkerinu er frá byggingarári hússins 1996. Hann er því kominn til ára sinna. Ísafjarðarbær

Ljóst er að ráðast þarf í framkvæmdir á laugarkeri sundlaugarinnar á Þingeyri þar sem það lekur. Eftir að grunur kviknaði um leka var ákveðið að stöðva áfyllingu í einn sólarhring og lækkaði vatnsyfirborðið þá um 25 sentimetra. Dúkurinn er talinn ónýtur enda kominn til ára sinna.

Þetta kemur fram í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs þar sem farið er yfir stöðu mála varðandi sundlaugina á Þingeyri.

Þar segir að forstöðukona laugarinnar hafi kallað til pípulagningamenn vegna gruns um leka. Ákveðið var að stöðva þá alla áfyllingu í sundlaugarkerið og leiddu mælingar í ljós að á einum sólarhring lækkaði vatnsyfirborð um 25 sentimetra, sem sé óeðlilega mikið tap á vatni. Var staðan sú að ekki hafðist undan við að halda hita á lauginni.

Talið er að dúkurinn í sundlaugarkeri sé ónýtur.Ísafjarðarbær

Í kjölfarið var ákveðið að láta renna sjálfkrafa niður úr lauginni til þess að sjá hvar og hvort útrennsli myndi stoppa á einhverjum tímapunkti. Í athuguninni tæmdi laugin sig á nokkrum dögum sem hafi bent til að vatnstapið tengist mögulega stútum og lögnum í sundlaugarbotni eða lögnum undir sundlaug.

„Dúkurinn í laugarkerinu er frá byggingarári hússins 1996, þ.e.a.s. dúkurinn er 28 ára gamall. Almennt er gert ráð fyrir að endingartími sé um 20 ár. Dúkurinn er úr sér genginn og tímabært að fara í dúkskipti, dúkurinn er víða sprunginn og slitinn niður að striga,“ segir í minnisblaðinu.

Sviðstjórinn telur ljóst að dúkurinn sé ónýtur og skipta þurfi um hann. Þá þurfi að ráðast í fleiri framkvæmdir eins og að skipta um innrennslisstúta og kanna ástand lagna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×