Marta Rós er með doktorsgráðu og MSc gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands, með hluta námsins við Norska vísinda- og tækniháskólann (NTNU) á sviði orku- og umhverfisverkfræði.
Hún hefur víðtæka reynslu innan orkumála á Íslandi með áherslu á jarðvarmavirkjanir, sjálfbæra auðlindanýtingu, bætta orkunýtni, stjórnsýslu og stefnumótun.
Áður en hún hóf störf hjá Baseload gegndi hún stjórnunarstörfum hjá Orkustofnun og Orku náttúrunnar, auk sjálfbærniráðgjöf hjá Verkís verkfræðistofu. Hún sinnir jafnframt stundarkennslu og tekur þátt í rannsóknarstarfi við Háskóla Íslands.
„Ísland gegnir lykilhlutverki í þróun jarðhitanýtingar á heimsvísu,“ segir Marta Rós. „Baseload Power á Íslandi hefur þá sérstöðu að vinna að minni og meðalstórum jarðhitaverkefnum sem hafa það markmið að framleiða raforku og heitt vatn úr sjóðandi lághitaauðlindum á hagkvæman máta, nærsamfélögum til heilla. Slík verkefni eru jafnframt raunhæf víða um heim.
Á alþjóðavettvangi starfar Baseload samstæðan að því að hraða þróun jarðhitanýtingar og vinnur nú að verkefnum í Japan, Bandaríkjunum og Taívan ásamt Íslandi. Ég er afar spennt að vinna með framúrskarandi fagfólki, bæði hérlendis sem erlendis, og byggja upp íslensk verkefni sem og koma okkar reynslu og þekkingu á sviði jarðhitanýtingar enn frekar í not erlendis.“
Fyrirtækið Varmaorka kom upp tveimur litlum virkjunum sem nýta umframvarma úr borholum hitaveitna til framleiðslu á raforku og vinnur að stærri virkjun á Efri-Reykjum í Bláskógabyggð.
Alþjóðlega fyrirtækið Baseload Power tók starfsemina yfir, fylgir eftir verkefnunum og kannar ný tækifæri hér á landi og erlendis.
Virkjunin í Kópsvatni getur afkastað 1.200 kW og sú í Reykholti 300 kW.
Baseload Power er eitt þeirra fyrirtækja sem Breakthrough Energy, fyrirtæki Bills Gates stofnanda Microsoft, hefur lagt fjármagn í til að reyna að minnka umhverfisvanda heimsins.