Erlent

Vonir bundnar við fund Biden og Xi í San Francisco í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden og Xi hittust síðast á fundi G20-ríkjanna í nóvember í fyrra.
Biden og Xi hittust síðast á fundi G20-ríkjanna í nóvember í fyrra. epa/Xinhua/Li Xueren

Bandaríkin og Kína hafa heitið því að vinna saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og segja hlýnun jarðar „eina stærstu áskorun okkar tíma“. Tilkynningin þykir gefa von um þýðu í samskiptum ríkjanna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, munu funda í San Francisco í dag, fyrir árlega ráðstefnu Apec, samráðsvettvang Asíu- og Kyrrahafsríkja í efnahagsmálum. Um er að ræða fyrstu heimsókn Xi til Bandaríkjanna í sex ár og fyrsta fund hans með Biden í ár.

Í yfirlýsingu ríkjanna heita þau árangri á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Dubaí síðar í þessum mánuði. Þá heita þau því einnig að standa við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun undir 2,0 gráðum og freista þess að takmarka hlýnunina við 1,5 gráðu.

Nokkrar vonir eru bundnar við fund leiðtoganna en mikil togstreita hefur verið í samskiptum ríkjanna, ekki síst vegna Taívan og viðskiptadeilna. Biden hefur sagt að markmið fundar hans með Xi verði að bæta samskiptin og koma á eðlilegum boðskiptum, meðal annars milli hermálayfirvalda ríkjanna.

Samkvæmt John Kirby, talsmanni Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, munu forsetarnir einnig ræða átökin milli Ísrael og Hamas og stöðu mála í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×