Innlent

Á­kærður fyrir tvær hnífaárásir í Skeifunni á ný­árs­nótt

Jón Þór Stefánsson skrifar
Meint árás átti sér stað í Skeifunni nýársnótt 2022.
Meint árás átti sér stað í Skeifunni nýársnótt 2022. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps sem átti sér stað innandyra í húsnæði í Skeifunni á nýársnótt 2022. Þá er hann ákærður fyrir aðra árás sama kvöld.

Manninum er gefið að sök að hafa ítrekað lagt til annars manns með hnífi í búk og útlimi.

Í ákæru er gert grein fyrir áverkum brotaþola, sem hlaut sár á brjóstholi sem náði inn að millirifjavöðvum, sár hægra megin á kvið sem fór inn í kviðarhol og fjögurra sentímetra langt skurðsár á úlnlið, auk frekari áverka. Brotaþolinn krefst fjögurra milljóna króna í miskabætur.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir aðra hnífaárás á sama stað og sama kvöld, en þar er hann ekki ákærður fyrir tilraun til manndráps heldur sérstaklega hættulega líkamsárás.

Þar er honum einnig gefið að sök að hafa ítrekað lagt að öðrum manni með hnífi, aftur í búk og útlimi. Fyrir vikið hafi hinn brotaþolinn hlotið sár á brjósti, vinstra megin við kvið, og á upphandlegg sínum, auk frekari áverka.

Sá brotaþoli vill fá þrjár og hálfa milljón í miskabætur. Héraðssaksóknari rekur málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×