Fyrsti sigur Milan hleypir drauðariðlinum í upp­nám

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Oliver Giroud fagnar með samherjum sínum.
Oliver Giroud fagnar með samherjum sínum. Marco Luzzani/Getty Images

AC Milan tók á móti París Saint-Germain í F-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Riðillinn hefur verið kallaður dauðariðillinn og eftir 2-1 sigur AC Milan má segja að hann standi undir nafni.

Fyrr í dag hafði Borussia Dortmund unnið 2-0 sigur á Newcastle sem gerði það að verkum að Dortmund fór á toppinn með sjö stig á meðan Newcastle var áfram með fjögur stig. Það þýddi að með sigri gæti Milan blandað sér í baráttuna um sæti í 16-liða úrslitum þrátt fyrir að vera aðeins með tvö stig eftir fyrstu tvo leikina.

Hvað leik kvöldsins varðar þá var ljóst að ítalski markvörðurinn Gianluigi Donnarumma var á leiðinni í einkar erfiðan leik en hann hóf ferilinn hjá AC Milan. 

Í aðdraganda leiksins var ljóst að stuðningsfólk Milan ætlaði sér að láta málaliðann „Dollarumma“ heyra það fyrir að skipta Mílanó út fyrir París.

Leikurinn á San Siro-leikvanginum var hin besta skemmtun en hann byrjaði hreint út sagt frábærlega. Strax á 9. mínútu komust gestirnir frá París yfir þegar Milan Škriniar skoraði af stuttu færi eftir að Marquinhos flikkaði hornspyrnu Vitinha í áttina að Slóvakanum. 

Forysta gestanna entist aðeins í þrjár mínútur en þá jafnaði Rafael Leão með frábæru marki. Portúgalinn sýndi hversu mikill íþróttamaður hann er þegar hann kom boltanum einhvern veginn í netið eftir að Donnarumma varði frá Oliver Giroud.

Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið urmul færa. Það voru aðeins fimm mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Giroud skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf Theo Hernandez. Staðan orðin 2-1 og þótt bæði lið hafi fengið mjög góð færi þá tókst hvorugu liðinu að skora og lokatölur á San Siro því 2-1 AC Milan í vil.

Staðan í riðlinum er þannig að Dortmund er með 7 stig, PSG er með 6 stig, AC Milan er með 5 stig og Newcastle er á botninum með 4 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira