Fótbolti

Verð­launuðu Giakoumakis frekar en Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi þakkar David Beckham fyrir eftir að hann afhenti honum Gullhnöttinn í vikunni en Messi þótti ekki vera besti nýliðinni í MLS-deildinni.
Lionel Messi þakkar David Beckham fyrir eftir að hann afhenti honum Gullhnöttinn í vikunni en Messi þótti ekki vera besti nýliðinni í MLS-deildinni. AP/Michel Euler

Lionel Messi var ekki kjörinn besti nýliðinn í bandarísku deildinni á þessu tímabili en verðlaun MLS deildarinnar voru afhent í gær.

Grikkinn Giorgos Giakoumakis var kosinn besti nýliðinn en hann skoraði sautján mörk og gaf þrjár stoðsendingar í 27 leikjum fyrir Atlanta United á tímabilinu.

Hinn 28 ára gamli Giakoumakis fékk 45,8 prósent atkvæða frá leikmönnum, starfsmönnum og fjölmiðlamönnum sem kusu en Messi fékk aðeins 27,3 prósent atkvæða. Þriðji var Eduard Löwen hjá St. Louis City með 15,4 prósent.

Verðlaunin eiga að fara til þess leikmanns sem hefur mest áhrif í deildinni og var að spila sitt fyrsta tímabil í MLS.

Giakoumakis gekk til liðs við Atlanta liðið frá skoska liðinu Celtic í febrúar. Hann er þriðji leikmaður Atlanta til að fá þessi verðlaun á eftir þeim Thiago Almada (2022) og Miguel Almirón (2017).

Messi kom til Inter Miami í júlí en lék lítið í deildinni vegna meiðsla. Hann náði bara að spila 372 mínútur í sex leikjum og var með eitt mark og tvær stoðsendingar í þeim. Miami komst heldur ekki í úrslitakeppnina.

Messi fór aftur á móti mikinn í bikarleikjum Miami og endaði með tíu mörk í sjö leikjum í deildarbikarnum þar sem Inter Miami vann sinn fyrsta titil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×