Erlent

Vell­auðugur þing­maður frá Min­nesota býður sig fram gegn Biden

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dean Phillips virðist ekki munu áorka meiru en að skapa sér óvinsældir með framboðinu, ef marka má fyrstu viðbrögð.
Dean Phillips virðist ekki munu áorka meiru en að skapa sér óvinsældir með framboðinu, ef marka má fyrstu viðbrögð. AP/Alex Brandon

Dean Phillips, þingmaður frá Minnesota, hefur ákveðið að bjóða sig fram gegn Joe Biden í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Phillips segir Biden hafa staðið sig frábærlega en það sé tímabært að horfa til framtíðar.

Orðrómur hefur verið á kreiki síðustu vikur um mögulegt framboð Phillips en hann tilkynnti formlega um það í viðtali við CBS. Vefsíðan dean24.com fór í loftið í gær en þar er aðeins falast eftir framlögum og engar upplýsingar að finna um stefnu Phillips eða hugmyndir.

Phillips, sem hefur verið tvisvar verið endurkjörinn, er þó langt frá því að vera á flæðiskeri staddur fjárhagslega en hann er metinn á 77 milljónir dollara og meðal efnuðustu þingmanna Bandaríkjaþings.

„Þessar kosningar snúast um framtíðina,“ sagði Phillips við CBS en kosningaslagorð hans verður „Make America Affordable Again“, sem er skírskotun til hárrar verðbólgu og verðlags.

Hann sagðist ekki myndu sitja aðgerðalaus hjá frammi fyrir neyðarástandi en var hvorki gagnrýninn á Biden né gaf hann upp hvort og hvaða hugmyndafræðilegi munur væri á milli þeirra tveggja. Hann virtist í raun aðeins setja varnagla við aldur Biden og sagði tíma fyrir nýja kynslóð að fá tækifæri til að leiða Bandaríkin.

Stjórnmálaskýrendur segja erfitt að sjá fyrir sér hvaða hag Phillips sér í því að bjóða sig fram; hann sé örugglega að fara að tapa fyrir Biden og jafnvel þótt hann kunni að verða betur þekktur fyrir vikið sé allt eins líklegt að hann muni á sama tíma afla sér verulegra óvinsælda meðal Demókrata.

Kjörnir fulltrúar í bæði Minnesota og á landsvísu hafa þegar lýst yfir óánægju með framboðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×