Innlent

Reikna með á­fram­haldandi skjálfta­virkni á Reykja­nesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjálftanna hefur orðið vel vart nærri Kleifarvatni. Þessi mynd er tekin á þeim slóðum.
Skjálftanna hefur orðið vel vart nærri Kleifarvatni. Þessi mynd er tekin á þeim slóðum. vísir/Vilhelm

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands segja áfram mega búast við jarðskjálftum á Reykjanesskaganum vegna spennubreytinga vegna þenslu á töluverðu týpi undir Fagradalsfjalli.

Fundar var vegna málsins eftir hádegi í dag og í framhaldinu birt tilkynning á vef Veðurstofunnar. Þar segir að tæplega fjögur þúsund skjálftar hafi mælst á Reykjanesskaganum frá því skjálftahrinan hófst á þriðjudag. Fjórtán yfir þrír að stærð. 

Mesta virknin hefur verið frá Stóra-Skógsfelli í norðaustri að Eldvörpum. Skjálftarnir eru á tveggja til sex kílómetra dýpi. Stærsti skjálftinn mældist í gær og var 4,5 að stærð. GPS mælingar benda sem fyrr til áframhaldandi þenslu á töluverðu dýpi undir Fagradalsfjalli. Vísindafólk Veðurstofunnar telur að skjálftarnir séu gikkskjálftar , það er að segja afleiðing spennubreytinga vegna þenslu við Fagradalsfjall. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á meðan á þenslunni stendur. 

Aflögunarmælingar sýna engar breytingar í tengslum við jarðskjálftahrinuna við Svartsengi og Grindavík. GPS mælingar á stöðinni FEFC, austan við Festarfjall, sýna færslu til suðausturs. Þessar mælingar gætu bent til að nýtt kvikuinnskot sé að myndast syðst í ganginum við Fagradalsfjall. 

Starfsfólk Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið og túlka nýjustu gögn þegar þau berast. Beðið er eftir gervitunglagögnum sem ættu að gefa heildstæðari mynd af aflögun á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×