Erlent

Jakob Elleman-Jen­sen hættir í stjórn­málum

Atli Ísleifsson skrifar
Jakob Ellemann-Jensen tók við sem formaður Venstre árið 2019 af Lars Lökke Rasmussen, núverandi utanríkisráðherra Danmerkur og fyrrverandi forsætisráðherra.
Jakob Ellemann-Jensen tók við sem formaður Venstre árið 2019 af Lars Lökke Rasmussen, núverandi utanríkisráðherra Danmerkur og fyrrverandi forsætisráðherra. Getty

Jakob Elleman-Jensen, efnahagsmálaráðherra Danmerkur og formaður stjórnarflokksins Venstre, hyggst hætta sem formaður Venstre og segja skilið verið stjórnmálin.

Leiðtogar í Venstre hafa boðað til fréttamannafundar klukkan tíu að dönskum tíma, eða átta að íslenskum tíma, en Ekstrabladet segir frá því að Elleman-Jensen muni þar tilkynna að hann muni hætta sem formaður og í stjórnmálum.

Blaðið segir ennfremur frá því að hrókeringar í ríkisstjórninni, sem munu fylgja afsögninni, verði kynntar síðar í dag.

Jakob Ellemann-Jensen, efnahagsráðherrann Troels Lund Poulsen og Stephanie Lose, varaformaður Venstre, verða viðstödd á blaðamannafundinum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Venstre.

Ellemann-Jensen hefur verið leiðtogi Venstre árið 2019 og varð varnarmálaráðherra þegar Jafnaðarflokkurinn, Venstre og Moderaterne mynduðu saman samsteypustjórn í desember síðastliðinn. Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna, leiðir ríkisstjórnina.

Elleman-Jensen fór í veikindaleyfi frá í febrúar á þessu ári og til ágústmánaðar og var Lund Poulsen þá starfandi varnarmálaráðherra. Nokkuð hefur gustað um Elleman-Jensen síðustu mánuði eftir að hann baðst afsökunar á að hafa veitt þinginu villandi upplýsingar um umdeild vopnakaup danska ríkisins frá ísraelska vopnaframleiðandanum Elbit.

Í lok ágúst var tilkynnt að Elleman-Jensen og Lund Poulsen myndu hafa stólaskipti þannig að Elleman-Jensen varð efnahagsráðherra og Lund Poulsen varnarmálaráðherra.

Jakob Ellemann Jensen er sonur Uffe Elleman-Jensen, sem var formaður Venstre á árunum 1984 til 1998 og utanríkisráðherra Danmerkur á árunum 1982 til 1993.

Uppfært 8:30: Á blaðamannafundinum kom fram að Lund Poulsen muni tímabundið taka við skyldum Elleman-Jensen sem ráðherra, það er skyldum aðstoðarforsætisráðherra og efnahagsmálaráðherra. Þá muni Lund taka tímabundið við skyldum hans sem formaður Venstre.


Tengdar fréttir

Elleman-Jen­sen og Lund Poul­sen hafa stóla­skipti

Jakob Ellemann Jensen, leiðtogi danska stjórnarflokksins Venstre, verður nýr ráðherra efnahagsmála í dönsku ríkisstjórninni og Troels Lund Poulsen, samflokksmaður hans, verður nýr varnarmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×