„Hann virtist ekkert muna hvers konar skrímsli hann gat verið“ Rakel Sveinsdóttir skrifar 22. október 2023 08:01 Saga Völu Sigríðar Guðmundsdóttur Yates söngkonu lýsir því vel hversu flóknar tilfinningar það eru að vinna úr þegar barn elst upp við alkóhólisma, andlegt ofbeldi og vanlíðan sem foreldri nær ekki að vinna sig út úr. Meðvirkni, óöryggi og að eiga erfitt með að treysta eru dæmi um tilfinningar sem tekur áratugi að reyna að vinna úr. Vísir/Vilhelm „Æskuminningarnar eru eiginlega tvískiptar. Annars vegar góðar minningar um pabba. En hins vegar erfiðleikarnir. Þegar pabbi var í brjálæðiskasti að öskra á mömmu og segja svo hræðilega ljóta hluti við hana að ég get eiginlega ekki endurtekið þá upphátt,“ segir Vala Sigríður Guðmundsdóttir Yates. „En ég man líka eftir mörgu skemmtilegu, þar sem kærleikurinn ríkti. Til dæmis fannst mér mjög gaman að fara í tjaldútilegur með mömmu og pabba.“ Það eru ótrúlegar afleiðingar af því þegar börn alast upp við drykkju, vanlíðan foreldra eða einhverja tegund af ofbeldi. Saga Völu er gott dæmi um það. Því þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu og einlæga sjálfskoðun á því hvernig hún getur bætt sjálfan sig og sitt líf, er hún meðvituð um að falla reglulega í meðvirkni og ótta um höfnun. „Satt best að segja treysti ég mér ekki til að fara í samband núna. Því ég virðist vera svo fljót að fara strax í það að hugsa: Hvernig get ég látið honum líða sem best? Hvernig vill hann að ég sé? Hvað vill hann að ég segi?“ segir Vala og bætir við: „Svona eins og óttinn um höfnun kikki strax inn. Þessi tilfinning sem fær mann til að hunsa jafnvel sitt eigið innsæi því að maður er svo upptekin af því að missa ekki frá sér þann sem maður elskar.“ Áskorun á Vísi fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, bata, sorg, aldurstengd mál og fleira. Í dag lærum við um það hvaða afleiðingar það getur haft á börn að alast upp hjá drykkfelldu foreldri sem ekki nær að vinna sig út úr vanlíðan og veikindum. Þegar pabbi las Andrésarblöðin Vala er eldhress í tali og skemmtileg. Söngkona og söngkennari með meiru. Er um þessar mundir að gefa út sína fyrstu plötu. Meira um það síðar. Því við kynnumst Völu í gegnum söguna hennar: Alveg frá a-ö. Vala fæddist árið 1983 á Kingston sjúkrahúsinu í London. Faðir hennar hét Guðmundur Arason og var líffræðingur, en móðir hennar er Anna Hólmfríður Yates, skjalaþýðandi. Vala er elst systkina og þótt móðir hennar sé til helminga ensk, fæddist Vala í London vegna þess að þá var pabbi hennar í doktorsnámi. Vala var því enn bara ungabarn þegar fjölskyldan fluttist aftur heim til Íslands, þar sem hún kom sér fyrst fyrir á Hringbrautinni í vesturbænum. „Þaðan á ég ekkert nema góðar minningar,“ segir Vala. Bræður Völu eru tveimur árum yngri en hún, tvíburarnir Ari Hlynur Guðmundsson Yates og Rögnvaldur Guðmundsson. „Við fengum ekki Yates nafnið þegar við vorum lítil. Ég bætti því við hjá mér fyrir nokkrum árum og síðan Ari en Rögnvaldur hefur ekki gert það,“ segir Vala til útskýringar. Fjölskyldan flutti í Vogahverfið þar sem skólaganga Völu var. Fyrst í grunnskólanum og síðar í MS. „Við bjuggum fyrst í Nökkvavoginum og síðar í Karfavoginum. Ég áttaði mig á því hjá sálfræðingi fyrir einhverjum árum síðan að minningarnar mínar úr Nökkvavoginum eru í rauninni góðar. Og kannski fyrst eftir að við fluttum í Karfavoginn. En þar fara erfiðleikarnir samt að verða mjög áþreifanlegir og hafa áhrif á allt því að pabbi var auðvitað alkóhólisti.“ En byrjum á góðu minningunum. Hverjar eru þær helstar? „Minningar í uppáhaldi eru til dæmis þegar pabbi var að lesa fyrir okkur Andrés Önd blöðin. Sem amma og afi áttu heilu bílförmin af og hann og bræður hans höfðu alist upp við. Andrésarblöðin voru á dönsku en pabbi þýddi þau jafnóðum og hann las,“ segir Vala og ekki laust við að glampi sjáist í augunum. Til viðbótar við tjaldútilegur segir Vala pabba sinn hafa verið mikið náttúrubarn sem hafði gaman af því að fara í fjallgöngur. „Ég viðurkenni reyndar að þær minningar eru ekkert í uppáhaldi. Ég fílaði ekkert þessar göngur og fór aðeins tilneydd,“ segir Vala og hlær. Faðir Völu tók sitt eigið líf árið 2014. Vala segist sannfærð um að ákvörðunina hafi hann tekið löngu fyrr. Á nýrri plötu Völu, Towards my dream, syngur hún um föður sinn en textann samdi hún nokkru áður en hann dó. Vala gerði sér grein fyrir því síðar að í raun hefði hún séð dauða hans fyrir.Vísir/Vilhelm Hræðileg orð fyrir barn að heyra Sumt í upprifjun Völu tekur tilfinningalega á. Sem eflaust mörg börn alkóhólista samsvara sig við. Því öll börn elska foreldra sína. Eiginlega sama hvað. Sumt sem pabbi sagði við mömmu get ég hreinlega ekki gleymt. Því fyrir börn geta sum orð verið í senn óskiljanleg en svo sjónræn. Eina nóttina rumskaði ég við einhver læti og áttaði mig á að pabbi var að öskra á mömmu. Það var fyrsta áfallið. Síðan voru það orðin sem hann sagði. Eitthvað á þá leið að helst myndi hún vilja að hann rifi út úr sér hjartað og myndi skella því á borðið…. Hvers konar setning er það fyrir barn að skilja? Auðvitað algjörlega hræðileg.“ Vala segir svo skrýtið að oft hafi það verið eins og pabbi hennar væru tveir algjörlega aðskildir karakterar. „Annars vegar þessi frábæri pabbi. Það eru til myndir þar sem maður er með pabba og hann er ekkert nema kærleikurinn. Hins vegar er það fulli pabbinn. Sem kom meira að segja inn til okkar krakkanna þegar hann var blindfullur. Röflandi um að honum liði svo illa. Hann væri svo ömurlegur. Uppfullur af sjálfsvorkunn.“ Árin liðu. Erfiðleikarnir heima voru viðvarandi. Eins og mörg börn alkóhólista þekkja. Ekkert breyttist. „Dósahljóðið var komið á sálina á manni. Og triggerar mig enn. Þegar maður var inni í herbergi og heyrði síðan þetta blessaða hljóð: Blizz……“ Daginn eftir var síðan alltaf látið eins og ekkert hefði í skorist. „Ég er sannfærð um að pabba tókst einhvern veginn að muna ekki þessa hluti. Afneitunin var svo mikil að hann í alvörunni mundi þá ekki. Þegar ég var orðinn unglingur og farinn að svara honum meira, var svarið hans hvað mamma væri að troða í hausinn á mér. Hann virtist ekkert muna hvers konar skrímsli hann gat verið.“ Vala rifjar sérstaklega upp eina páska. „Mér fannst páskarnir rosalega skemmtilegur tími. Einu sinni vorum við öll þarna, amma og afi líka. Pabbi fór að drekka með þeim afleiðingum að hann eyðilagði páskana. Hann talaði við mig eftir páska og þegar ég sagði við hann að páskarnir hefðu verið ónýtir út af honum, varð hann rosalega hissa,“ segir Vala og bætir við: „Síðan sagði hann: Ekki veit ég nú hvað hún mamma þín var að segja við þig núna.“ Vala lýsir föður sínum eins og tveimur aðskildum karakterum. Annars vegar þessi frábæri pabbi, sem var skemmtilegur og ekkert nema kærleikurinn. Hins vegar blindfulli pabbinn sem sagði svo ljót orð að hún fær sig ekki til að endurtaka þau upphátt. Þunglyndi Völu eftir skilnaðinn Eitt af stærri áföllum Völu var samt þegar pabbi hennar tók öskurkastið á hana sjálfa. „Reiðin kom þegar ég var unglingur. Ég held ég hafi verið 16 ára þegar þetta gerðist. Þá var hann að öskra á mömmu og ég fékk svo mikið nóg og sagði honum að hætta að segja þessa ljótu hluti við mömmu. Þeir væru ekki sannir,“ segir Vala og bætir við: „Þá sneri hann sér við og að mér. Ég gleymi þessu aldrei því að auðvitað var hann miklu stærri en ég. Og síðan fór hann að öskra á mig! Svona ljót orð. Ég fékk algjört áfall. Fór inn til mín og hágrét. Ég var í svo miklu sjokki að ég komst ekki einu sinni í skólann daginn eftir.“ Í þetta sinn kom pabbi hennar reyndar og baðst afsökunar. Var mjög leiður og sagðist vera með mikið samviskubit. „Ég hlustaði á hann frosinn í framan. Svaraði honum ekki. Hann tók utan um mig en ég faðmaði hann ekki til baka.“ Vala þráði ekkert heitar en að mamma sín og pabbi myndu skilja. Ég í orðsins fyllstu merkingu þráði að þau myndu skilja. Að við myndum komast út úr þessu. Eftir þetta atvik sagði ég við mömmu að ef hún myndi ekki skilja við hann, þá myndi ég reyna að flytja sem fyrst í burtu. Ég gæti þetta ekki meira.“ Nokkrum mánuðum síðar skildu foreldrar Völu. „Ég var í skýjunum. Talaði mikið um það við vinkonur mínar hvað ég hlakkaði til að flytja. Ætlaði að fá stærra herbergi og alls kyns atriði sem ég sá í hillingum. Mér fannst þetta hreinlega dásamleg tilhugsun. Loksins voru þau að skilja!“ Vala var byrjuð í MS þegar þetta var. „Ég hef alltaf verið góður námsmaður. En fljótlega eftir skilnaðinn fór að halla undan fæti. Ég skildi ekkert í þessu. Var rosalega oft veik og komst ekki í skólann. Ein jólin voru einkunnirnar mínar nánast allar 5. Það var ákveðið wake up call fyrir mig. Því þótt ég væri búin að vera áhugalaus og mæta illa fékk ég sjokk að sjá þessar fimmur. Það vissi ég að ég vildi ekki.“ En Vala skildi samt ekki hvað amaði að henni. „Ég var engan veginn að átta mig á því að ég væri þunglynd. Fyrr en ég fór til námsráðgjafa því að ég vissi að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum. Ég lýsti fyrir henni hvernig aðstæðurnar heima væru. Að sem betur fer væru mamma og pabbi nú skilin. Ég væri því ekki að skilja hvers vegna mér liði oft svo illa.“ En námsráðgjafinn opnaði augu Völu. ,,Ég gleymi aldrei hvað hún sagði. Því hún útskýrði fyrir mér að allar breytingar geta verið áfall. Sama hversu góðar þessar breytingar eru. Það væri eðlilegt að mér liði illa yfir því að foreldrar mínir væru skilin og ég komin á nýtt heimili,“ segir Vala og bætir við: „Því að auðvitað vill barnið í manni að mamma og pabbi séu saman og að allir séu ánægðir og góðir. Sem var ekki. Ég saknaði pabba míns. Ég saknaði gamla heimilisins míns. Ég þráði skilnað og bað mömmu um að skilja við pabba. En var samt að takast á við svo flóknar tilfinningar. Syrgja það sem var. Og varð hreinlega þunglynd.“ Minningarnar frá fyrstu æviárunum eru góðar. En það tók Völu mörg ár með aðstoð sálfræðinga að fara að muna eftir þeim minningum því alltaf þegar hún hugsaði til æskunnar, komu upp minningar um erfiðleikana heima fyrir. Þar sem pabbi hennar var alltaf fullur, andlega ofbeldið var mikið og jafnvel hátíðar eins og páskar einfaldlega eyðilögðust sökum drykkju. Sögð of hress til að vera þunglynd Vala fór til sálfræðings í kjölfarið sem mamma hennar greiddi. Þetta er um aldamótin og umræðan langt frá því að vera orðin jafn mikil og hún er í dag um andlega líðan fólks. Ég frétti til dæmis að ein vinkona mín hefði sagt: Ég trúi því ekki að Vala sé þunglynd. Hún er alltaf svo hress í skólanum. En auðvitað áttaði hún sig ekki á því að auðvitað var ég alltaf hress í skólanum. Því ef ég gat ekki verið hress í skólanum, þá einfaldlega fór ég ekki í skólann.“ Mynstur sem margir þekkja sem glímt hafa við þunglyndi: Þegar fólk brosir í gegnum tárin og felur það vel fyrir öðrum, hversu mikil vanlíðanin er hið innra. Eftir stúdent fór Vala til Englands í söngnám og leið mjög vel. Bjó í fyrstu hjá vinkonu móður sinnar en síðan afa. „Mér fannst gaman að kynnast þessum ensku rótum betur. Amma var komin með Alzheimer og á stofnun en ég kynntist afa vel á þessum tíma og heimsótti ömmu oft þetta ár.“ Þegar heim var komið, hóf Vala söngnám í Söngskólanum í Reykjavík. „Eflaust hefði ég frekar átt að fara í FÍH því þetta nám var klassík en ég hef alltaf haft meiri áhuga á popptónlist,“ segir Vala og kímir. Ástin bankaði upp á eins og gengur og gerist hjá ungu fólki. „Það voru alls kyns atriði ekki í lagi í því sambandi. Rauð flögg eins og sagt yrði í dag. Ofbeldissamband og ekkert annað,“ segir Vala. „Þarna er ég ekkert að skilja hvað meðvirknin var í rauninni sterk í mér sjálfri. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem ég áttaði mig á því.“ Hvernig ofbeldi var í þessu sambandi? „Afbrýðisemi kannski mest. Byrjaði saklaust. Skilaboð sem ég fékk frá strák í hljómsveit sem spurði hvort ég vildi gera með honum tónlist og ég svaraði að ég væri til í að skoða það. Kærastinn minn sá skilaboðin og í stað þess að umræðan yrði um hvað hann hefði verið að gera í mínum skilaboðum, þá fór ég að reyna að ná úr honum fýlunni og lofa öllu fögru. Og varð rosalega þakklát þegar hann sagðist þá ætla að „gefa mér annan séns.““ Vala nefnir fjölmörg dæmi til viðbótar á sömu nótum. Þar sem hennar eigin hegðun og hugsanir snerust allar um að hafa kærastan góðan og ekki gera neitt sem mögulega fengi hann til að brjálast af afbrýðisemi eða búa til einhverja togstreitu á milli þeirra. Sambandið varði í tvö og hálft ár en fljótlega eftir að því lauk fór Vala til London í söngnám. „Ég ákvað að flytja út vegna þess að ég hafði misst röddina, gat talað en ekki sungið. Í London fékk ég hjálp sálfræðings sem starfar mikið með söngvurum. Þessi sálfræðingur útskýrði fyrir mér að þótt ég upplifði sambandsslitin af hinu góða, væri það áfall að takast á við“ segir Vala og bendir á hvernig svarið góða frá námsráðgjafanum á sínum tíma var aftur að sanna sig: Breytingum fylgja oft áfall, þótt breytingarnar séu í reynd góðar. Vala fór loks að geta sungið og naut þess að vera í einkatímum hjá virtum söngkennara. Síðan kom að því að sækja um óperunám. „Ég vildi ekki verða óperukona. Ég vissi það innst inni. En eftir allt þetta nám þá fannst mér ég þurfa sækja um þetta nám. Maður þurfti líka að borga gjöld fyrir umsóknir og prufur og ég vildi ekki tapa þeim pening. Ég sótti um í fjórum skólum en sem betur fer komst ég hvergi inn,“ segir Vala og brosir í kampinn. Fljótlega hélt Vala því aftur heim til Íslands. Þá 27 ára. Árið 2015 eignaðist Vala dótturina Sólrósu en árið 2019 skildi hún við barnsföður sinn. Vala viðurkennir að hún væri svo sem til í að fara í samband en treysti sér ekki til þess. Svo lítið þurfi til að triggera tilfinningar og hegðun sem tengjast meðvirkni og ótta við höfnun. Óttinn um að missa pabba Vala segir að þótt hún hafi búið ein þegar hún fór erlendis, hafi hún aldrei flutt að heiman frá mömmu sinni þegar hún var á Íslandi. Þær mæðgurnar voru alltaf nánar en það sama var ekki uppi á teningnum með föður hennar. „Hann leit illa út. Var alltaf þvoglumæltur. Með svona sjúklingalúkk. Drykkjan var stanslaus og varla að maður gæti sagt að maður væri í einhverju sambandi við hann. Enda leið mér alltaf illa þegar ég var búin að tala við hann.“ Þó kom að því að pabbi hennar fór í einhvers konar meðferð. Sem hann þó talaði ekki um sem meðferð heldur „hvíldarinnlögn.“ „Þegar hann var þar hringdi hann einu sinni í mig. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum. Því hann var ekkert þvoglumæltur, var edrú með alveg skýra rödd. Mér fannst ég heyra í pabba mínum aftur frá því að ég var lítil,“ segir Vala og brosir. Því miður fór þó svo að þegar Guðmundur fékk vikufrí í þessari meðferð, féll hann og drykkjan hélt áfram. „Ég vann heilmikið í mér á þessum tíma og það var hjá sálfræðingi sem ég áttaði mig á því að ég átti líka fullt af góðum minningum með pabba. En þær eru þá minningar frá því að ég var mjög lítil. Mér fannst gott að átta mig á þessu því að það var erfitt að hugsa alltaf bara um erfiðleikana, drykkjuna eða ljótu orðin hans.“ Vala segir að svo undarlega sem það hljómi hafi það reyndar verið þannig að þegar hún bjó erlendis, styrktist samband þeirra feðgina oft til muna. „Þá skrifuðumst við á í tölvupósti og opnuðum oft á eitthvað sem við hefðum ekki talað um nema þannig. En mér þótti mjög vænt um það.“ Á Íslandi fór Vala í Listaháskólann sem henni fannst frábært. Tvö sumur starfaði hún á veitingastöðum. „Ég var alltaf með í maganum. Yfirmaðurinn á veitingastaðnum var rosalegur alki og andlega ofbeldið sem hann beitti á starfsfólkið í samræmi við það. Óttastjórnun og allt þetta sem einkennir eitraða vinnustaðamenningu. Sem betur fer, að ég hélt, fékk ég starf á öðrum veitingastað í sama húsi. En þar tók við það sama: Eigandinn þar var líka brjálaður alki, beitti sínu starfsfólki ömurlegu ofbeldi og það bitnaði á öllum sem þar voru.“ Sem betur fer, fékk Vala síðan frábært starf á tjaldaleigu hjá yndislegum hjónum. Þar leið henni ekkert smá vel. Fyrir utan það að vera endalaust í magaveseni. „Það sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir er að börn sem alast upp við einhvers konar ofbeldi þróa með sér svo mikið óöryggi og ótta innra með sér. Barninu finnst það aldrei vera öruggt og þótt maður fullorðnist, þá býr þetta enn þá innra með manni og það þarf lítið til að triggera þessar tilfinningar. Eftir á tala ég alltaf um þetta magavesen sem taugaáfall. Því það var eins og maginn á mér gerði bara uppreisn, meltingin var í algjöru ólagi og ég var alveg hætt að ráða við þetta.“ Áður en maginn gerði endanlega uppreisn hafði Vala þróað með sér kerfi sem fæstir myndu telja hollt. „Til að forðast að verða illt í maganum sleppti ég því að borða til dæmis einn dag. Síðan var maginn orðinn svo slæmur að oft sleppti ég því að borða í marga daga en drakk bara vatn með sítrónu,“ segir Vala. Svo táknrænt sem það er, lagaðist þetta ekki fyrr en Vala fór í ristilhreinsun. „Sko ég þurfti að fara þrisvar,“ segir Vala til útskýringar á því hversu slæmt þetta var. „Þarna vil ég meina að taugakerfið á mér hafi bara verið að brotna og þess vegna tala ég um magavesenið sem taugaáfall. Þetta óöryggi í mér var svo rosalega rótgróið og hreinsunin tók svo rosalega á að ég var eiginlega í móki á eftir.“ Í eitt skiptið liggur Vala heima hjá sér að jafna sig eftir ristilhreinsun. „Ég er í einhvers konar móki þegar að ég fæ svona sýn og finn gífurlegan ótta um að pabbi myndi vilja taka líf sitt og finn að ég vildi bjarga honum. En ég sá þarna að ég gat ekki bjargað honum. Ég sá að ég var í rúst sjálf og gæti ekki gert neitt fyrir neinn, nema heila sjálfa mig fyrst. Þannig að ég gerði samkomulag við sjálfa mig um að ég þyrfti að sleppa tökunum á því hvort pabbi myndi lifa eða deyja. Ég þyrfti að setja eigin heilsu í fyrsta sæti.“ Vala verður nokkuð hugsi eftir þessi orð og segir síðan: „Veistu, ég held ég hafi vitað það fyrirfram hvað var að fara að gerast.“ Tárin renna niður kinnar Völu þegar hún rifjar upp andlát föður síns. Þegar bróðir hennar vakti hana upp og sagði henni að pabbi þeirra væri dáinn. Í fyrstu var ekki vitað hvað hefði gerst en síðan fannst miði. Það var erfitt að geta ekki kvatt. Kistan þurfti að vera lokuð.Vísir/Vilhelm Sjálfsvíg pabba Eitt sinn var Vala heima hjá mömmu sinni að tala við pabba sinn í síma. Allt í einu segir pabbi hennar við hana: „Veistu Vala, ég elska þig.“ Sem svo sannarlega stakk Völu í hjartastað. „Ég fór fram og sagði við mömmu: Mamma, ég var að tala við pabba og mér fannst það eiginlega bara gott samtal.“ Seinna meir hefur hún túlkað þetta samtal öðruvísi. „Hann tók sitt eigið líf ekki fyrr en nokkru seinna, en ég er sannfærð um að þá var hann löngu búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera.“ Hvernig fékkstu að vita að pabbi þinn væri dáinn? Þögn. Barn getur ekki svarað þessari spurningu án yfirþyrmandi tilfinninga. Spurningin er einfaldlega of sár. Svarið of sárt. Skiptir þá engu máli hvað barnið er orðið gamalt. Eða hverjar aðstæður voru. Tárin renna niður kinnar og Völu brestur röddin. Síðan segir hún. Bróðir minn kom inn í herbergi, vakti mig og sagði: Pabbi er dáinn.“ Þögnin sem tekur við er eins og að upplifa það enn á ný að fá þessar fréttir. Síðan segir Vala: „Og það var svo skrýtið að fyrsta hugsunin sem kom til mín var hvort þetta hefði verið sjálfsvíg. Mér finnst því eins og ég hafi vitað þetta en á þessari stundu lá það ekkert fyrir. Hann hefði til dæmis alveg getað hafa dáið úr hjartaáfalli.“ Næstu klukkustundir fóru í að reyna að meðtaka fréttirnar, halda utan um hvort annað og styðja. „Það var bróðir pabba sem kom að honum því að þeir bjuggu bræðurnir saman í húsi afa og ömmu, það var búið að breyta því þannig að þeir gátu búið þar svolítið sér.“ Í fyrstu var ekki vitað hvað hefði gerst. „En síðan fannst miði.“ Vala á ekki auðvelt með að tala um þessa stund og segist enn fá sting í hjartað að hugsa til þess sem bróðir föður hennar gekk í gegnum. Þá var erfitt að enginn gat kvatt hann. „Kistan þurfti að vera lokuð. Því hann var svo illa útleikinn.“ Vala einbeitir sér nú að því að kynna nýju plötuna sína og leggja áherslu á aðra uppbyggilega hluti. Hún segist viss um að mörg börn alkóhólista þrái það eitt að fá foreldri sitt aftur til baka úr drykkjunni, sama hvað hafi gengið á. Og alltaf séu þau í von um að foreldrið hætti að drekka einn daginn. Það hafi verið hugsunin hennar í laginu Sing you back to life.Vísir/Vilhelm „Sing you back to life“ Guðmundur var fæddur árið 1954 og tók sitt eigið líf þann 9.apríl árið 2014, þá aðeins sextugur að aldri. Guðmundur lauk BS-prófi í líffræði árið 1979 frá Háskóla Íslands, stundaði framhaldsnám í lífeðlisfræði við Bedford College í London og varði doktorsritgerð við Lundúnarháskólann. Lengst af starfaði Guðmundur við Rannsóknarstofu í ónæmisfræði við Landspítalann við sérfræðistörf og rannsóknir á sjálfsónæmissjúkdómum. Þá var Guðmundur um tíma stundarkennari við Háskóla Íslands. Saga Guðmundar sýnir hvernig fíknisjúkdómar, andlegt ofbeldi, vanlíðan og sjálfsvíg fer ekki í manngreinarálit: Menntun eða velgengni í starfi segir ekkert til um það hvað mögulega gerist í einkalífi fólks eða innan veggja heimilisins. Að sama skapi er saga Völu lýsing á því hvernig lífið getur þróast hjá börnum foreldra sem eiga við vanda að stríða og ná ekki að vinna sig út úr því. „Það var með aðstoð sálfræðings sem ég vann á þessu með óöryggið sem hafði alltaf fylgt mér frá því að ég var barn. Þetta hefur skipt mig mjög miklu máli því að eitt af því sem ég hef þurft að læra er að treysta.“ Árið 2015 eignaðist Vala dótturina Sólrós með fyrrum sambýlismanni sínum. Þau skildu árið 2019. „Um tíma fór hann að reykja gras og þá fór að halla undan fæti. Maður sá þessi sömu einkenni andlegs ofbeldis hjá honum, þessar karakterbreytingar og í hversu dimman dal hann fór. En hann er búinn að vinna mikið í sínum málum síðan það var,“ segir Vala. Vala segist ekki hafa upplifað mikla reiði gagnvart föður sínum fyrir að hafa tekið sitt eigið líf. „Frekar að ég hafi verið svekkt því við vorum byrjuð að laga tenginguna á milli okkar en náðum ekki að klára það.“ Þessa dagana er Vala að gefa út sína fyrstu plötu: Towards my dreams. Vala segir plötuna snúast um að láta drauma sína rætast. „Að hætta að leyfa neikvæðum hugsunum og óöryggi að draga úr manni kjarkinn og trúna á sjálfan sig, til að láta verða af því sem maður þráir að gera.“ Vala segir lögin samin út frá ýmsu sem hún hefur upplifað. „Þar á meðal tvö lög um pabba. Eitt ástarlag, tvö lög um dóttur mína og eitt út frá sambandslitunum. En það eru líka lög um að hlusta á innsæið, láta drauma sína rætast og að öðlast þroska og sjálfást og sjá heiminn með björtum augum, fullan af möguleikum.“ Vala segir suma textana að mörgu leyti sorglega en um leið sé í öllum áföllum og sorg líka hægt að finna ákveðna fegurð. Með það sé hún að vinna. Eitt lag stendur uppúr á plötunni að sögn Völu. Það er lagið ,,Sing you back to life.“ Textann segist Vala hafa fengið til sín tilbúinn eftir hugleiðsluna, þegar hún sannfærðist um að pabbi hennar vildi deyja. Vala skrifaði niður textann, ákvað að semja við hann lag og sá síðan fyrir sér að syngja lagið fyrir pabba sinn. „Mér þótti ekki líklegt að þetta myndi bjarga lífi hans, en ég hugsaði að þó það væri ólíklegt, þá væri það alltaf þess virði að reyna. Ég vildi sýna honum hvernig mér leið. Að ég sæi sársaukann hans. Og að ég vildi ekkert meira en að hjálpa honum að komast ,,aftur til lífsins“ en textinn I wish I could sing you back to life var þá myndlíking,“ segir Vala og bætir við: Því mér fannst í rauninni eins og hann væri ekki lifandi lengur. Hann var einhvern veginn löngu búinn að tékka sig út. Ég vildi leyfa honum að sjá og heyra hvernig ég sæi þetta og að það myndi snerta hann nógu mikið til að hann vildi lifna aftur við. Fara í meðferð. Koma aftur til baka til mín sem pabbi minn en ekki þessi skuggi sem hann var orðinn.“ Nokkrum vikum síðar tók pabbi Völu sitt eigið líf og Vala gleymdi textanum. Um ári eftir andlátið, fann hún textann. „Þá fékk ég sjokk, textinn var svo óhugnalega bókstaflegur. Myndlíkingin mín hafði ræst.“ Vala segist telja mörg börn alkóhólista vera á þessum stað. Að elska foreldra sína svo mikið að þau langi mest að fá þau aftur úr drykkjunni eða neyslunni eða hverju öðru sem er að skemma svona mikið fyrir. Í texta Völu segir: And now that you’re weak, not still strong It is time for me to help you along Together we can carry away your sadness, your fear and your pain Together we can carry away your sadness, your fear and your pain I wish that I could sing for you I wish that I could sing to you I wish that I could sing you back to life Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir getur hringt í Pieta-samtökin. Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is. Geðheilbrigði Áfengi og tóbak Fíkn Fjölskyldumál Tónlistarnám Tónlist Tengdar fréttir Í fangelsi í sextán ár: Á endanum var það ástin sem bjargaði öllu „Ég myndi ekki segja að það væri svona mikil klíkumyndun. Að öðru leyti myndi ég svara já; þetta er bara eins og fólk sér þar,“ svarar Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, aðspurður um það hvort upplifunin af því að vera í fangelsi sé eitthvað sambærileg og við sjáum í erlendu sjónvarps- og kvikmyndaefni. 15. október 2023 07:01 „Ég var lengi bakari en skellti mér síðan í öryrkjann“ „Í tæpt ár fór ég þrisvar sinnum í viku í 4,5 klukkustundir í senn í nýrnavélina. Sem dældi blóðinu úr mér í gervinýra, sem síðan dældi blóðinu aftur inn í líkamann minn. Síðan var maður slappur á eftir,“ segir Gunnar Þór Guðmundsson nýrnaþegi. 24. september 2023 08:00 „Ef ekki væri fyrir ofbeldið væri þetta dásamlegasti maður sem ég þekki“ „„Ég ætti nú líklega ekki að vera hér, ég er örugglega að taka frá tíma sem myndi nýtast betur annarri konu,“ eru oft fyrstu setningarnar sem við heyrum konur segja þegar þær koma í viðtölin til okkar,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. 17. september 2023 08:00 Öll batterí búin: „Ég ákvað að gera þetta á fimmtudegi þegar Friðrik væri farinn til vinnu“ Hún er rétt rúmlega fimmtug og hefur nú þegar afrekað ótrúlega margt. Byrjaði með manninum sínum aðeins 16 ára, menntaði sig sem leikskólakennari og elskaði það starf, en rak hinn geysivinsæla veitingastað Friðrik V um árabil með eiginmanninum. 2. júlí 2023 08:00 Áfallasaga: Ofbeldi af verstu gerð, sonarmissir og dóttirin lamast „Já mig grunar að þetta hafi verið viljaverk. Afbrýðisemin var svo mikil að hann hafði oft sagt við mig að hann gæti ekki hugsað sér að einhver annar fengi mig eða að einhver annar karlmaður fengi að ala upp son hans,“ segir María Kristín Þorleifsdóttir þegar hún minnist bílslyssins 9. október 1997 þar sem tveggja og hálfs árs sonur hennar og barnsfaðir létu lífið og sjálf slasaðist hún mjög alvarlega. 11. júní 2023 08:01 Mest lesið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Skýringar á jólastressinu margvíslegar Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“ Sjá meira
„En ég man líka eftir mörgu skemmtilegu, þar sem kærleikurinn ríkti. Til dæmis fannst mér mjög gaman að fara í tjaldútilegur með mömmu og pabba.“ Það eru ótrúlegar afleiðingar af því þegar börn alast upp við drykkju, vanlíðan foreldra eða einhverja tegund af ofbeldi. Saga Völu er gott dæmi um það. Því þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu og einlæga sjálfskoðun á því hvernig hún getur bætt sjálfan sig og sitt líf, er hún meðvituð um að falla reglulega í meðvirkni og ótta um höfnun. „Satt best að segja treysti ég mér ekki til að fara í samband núna. Því ég virðist vera svo fljót að fara strax í það að hugsa: Hvernig get ég látið honum líða sem best? Hvernig vill hann að ég sé? Hvað vill hann að ég segi?“ segir Vala og bætir við: „Svona eins og óttinn um höfnun kikki strax inn. Þessi tilfinning sem fær mann til að hunsa jafnvel sitt eigið innsæi því að maður er svo upptekin af því að missa ekki frá sér þann sem maður elskar.“ Áskorun á Vísi fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, bata, sorg, aldurstengd mál og fleira. Í dag lærum við um það hvaða afleiðingar það getur haft á börn að alast upp hjá drykkfelldu foreldri sem ekki nær að vinna sig út úr vanlíðan og veikindum. Þegar pabbi las Andrésarblöðin Vala er eldhress í tali og skemmtileg. Söngkona og söngkennari með meiru. Er um þessar mundir að gefa út sína fyrstu plötu. Meira um það síðar. Því við kynnumst Völu í gegnum söguna hennar: Alveg frá a-ö. Vala fæddist árið 1983 á Kingston sjúkrahúsinu í London. Faðir hennar hét Guðmundur Arason og var líffræðingur, en móðir hennar er Anna Hólmfríður Yates, skjalaþýðandi. Vala er elst systkina og þótt móðir hennar sé til helminga ensk, fæddist Vala í London vegna þess að þá var pabbi hennar í doktorsnámi. Vala var því enn bara ungabarn þegar fjölskyldan fluttist aftur heim til Íslands, þar sem hún kom sér fyrst fyrir á Hringbrautinni í vesturbænum. „Þaðan á ég ekkert nema góðar minningar,“ segir Vala. Bræður Völu eru tveimur árum yngri en hún, tvíburarnir Ari Hlynur Guðmundsson Yates og Rögnvaldur Guðmundsson. „Við fengum ekki Yates nafnið þegar við vorum lítil. Ég bætti því við hjá mér fyrir nokkrum árum og síðan Ari en Rögnvaldur hefur ekki gert það,“ segir Vala til útskýringar. Fjölskyldan flutti í Vogahverfið þar sem skólaganga Völu var. Fyrst í grunnskólanum og síðar í MS. „Við bjuggum fyrst í Nökkvavoginum og síðar í Karfavoginum. Ég áttaði mig á því hjá sálfræðingi fyrir einhverjum árum síðan að minningarnar mínar úr Nökkvavoginum eru í rauninni góðar. Og kannski fyrst eftir að við fluttum í Karfavoginn. En þar fara erfiðleikarnir samt að verða mjög áþreifanlegir og hafa áhrif á allt því að pabbi var auðvitað alkóhólisti.“ En byrjum á góðu minningunum. Hverjar eru þær helstar? „Minningar í uppáhaldi eru til dæmis þegar pabbi var að lesa fyrir okkur Andrés Önd blöðin. Sem amma og afi áttu heilu bílförmin af og hann og bræður hans höfðu alist upp við. Andrésarblöðin voru á dönsku en pabbi þýddi þau jafnóðum og hann las,“ segir Vala og ekki laust við að glampi sjáist í augunum. Til viðbótar við tjaldútilegur segir Vala pabba sinn hafa verið mikið náttúrubarn sem hafði gaman af því að fara í fjallgöngur. „Ég viðurkenni reyndar að þær minningar eru ekkert í uppáhaldi. Ég fílaði ekkert þessar göngur og fór aðeins tilneydd,“ segir Vala og hlær. Faðir Völu tók sitt eigið líf árið 2014. Vala segist sannfærð um að ákvörðunina hafi hann tekið löngu fyrr. Á nýrri plötu Völu, Towards my dream, syngur hún um föður sinn en textann samdi hún nokkru áður en hann dó. Vala gerði sér grein fyrir því síðar að í raun hefði hún séð dauða hans fyrir.Vísir/Vilhelm Hræðileg orð fyrir barn að heyra Sumt í upprifjun Völu tekur tilfinningalega á. Sem eflaust mörg börn alkóhólista samsvara sig við. Því öll börn elska foreldra sína. Eiginlega sama hvað. Sumt sem pabbi sagði við mömmu get ég hreinlega ekki gleymt. Því fyrir börn geta sum orð verið í senn óskiljanleg en svo sjónræn. Eina nóttina rumskaði ég við einhver læti og áttaði mig á að pabbi var að öskra á mömmu. Það var fyrsta áfallið. Síðan voru það orðin sem hann sagði. Eitthvað á þá leið að helst myndi hún vilja að hann rifi út úr sér hjartað og myndi skella því á borðið…. Hvers konar setning er það fyrir barn að skilja? Auðvitað algjörlega hræðileg.“ Vala segir svo skrýtið að oft hafi það verið eins og pabbi hennar væru tveir algjörlega aðskildir karakterar. „Annars vegar þessi frábæri pabbi. Það eru til myndir þar sem maður er með pabba og hann er ekkert nema kærleikurinn. Hins vegar er það fulli pabbinn. Sem kom meira að segja inn til okkar krakkanna þegar hann var blindfullur. Röflandi um að honum liði svo illa. Hann væri svo ömurlegur. Uppfullur af sjálfsvorkunn.“ Árin liðu. Erfiðleikarnir heima voru viðvarandi. Eins og mörg börn alkóhólista þekkja. Ekkert breyttist. „Dósahljóðið var komið á sálina á manni. Og triggerar mig enn. Þegar maður var inni í herbergi og heyrði síðan þetta blessaða hljóð: Blizz……“ Daginn eftir var síðan alltaf látið eins og ekkert hefði í skorist. „Ég er sannfærð um að pabba tókst einhvern veginn að muna ekki þessa hluti. Afneitunin var svo mikil að hann í alvörunni mundi þá ekki. Þegar ég var orðinn unglingur og farinn að svara honum meira, var svarið hans hvað mamma væri að troða í hausinn á mér. Hann virtist ekkert muna hvers konar skrímsli hann gat verið.“ Vala rifjar sérstaklega upp eina páska. „Mér fannst páskarnir rosalega skemmtilegur tími. Einu sinni vorum við öll þarna, amma og afi líka. Pabbi fór að drekka með þeim afleiðingum að hann eyðilagði páskana. Hann talaði við mig eftir páska og þegar ég sagði við hann að páskarnir hefðu verið ónýtir út af honum, varð hann rosalega hissa,“ segir Vala og bætir við: „Síðan sagði hann: Ekki veit ég nú hvað hún mamma þín var að segja við þig núna.“ Vala lýsir föður sínum eins og tveimur aðskildum karakterum. Annars vegar þessi frábæri pabbi, sem var skemmtilegur og ekkert nema kærleikurinn. Hins vegar blindfulli pabbinn sem sagði svo ljót orð að hún fær sig ekki til að endurtaka þau upphátt. Þunglyndi Völu eftir skilnaðinn Eitt af stærri áföllum Völu var samt þegar pabbi hennar tók öskurkastið á hana sjálfa. „Reiðin kom þegar ég var unglingur. Ég held ég hafi verið 16 ára þegar þetta gerðist. Þá var hann að öskra á mömmu og ég fékk svo mikið nóg og sagði honum að hætta að segja þessa ljótu hluti við mömmu. Þeir væru ekki sannir,“ segir Vala og bætir við: „Þá sneri hann sér við og að mér. Ég gleymi þessu aldrei því að auðvitað var hann miklu stærri en ég. Og síðan fór hann að öskra á mig! Svona ljót orð. Ég fékk algjört áfall. Fór inn til mín og hágrét. Ég var í svo miklu sjokki að ég komst ekki einu sinni í skólann daginn eftir.“ Í þetta sinn kom pabbi hennar reyndar og baðst afsökunar. Var mjög leiður og sagðist vera með mikið samviskubit. „Ég hlustaði á hann frosinn í framan. Svaraði honum ekki. Hann tók utan um mig en ég faðmaði hann ekki til baka.“ Vala þráði ekkert heitar en að mamma sín og pabbi myndu skilja. Ég í orðsins fyllstu merkingu þráði að þau myndu skilja. Að við myndum komast út úr þessu. Eftir þetta atvik sagði ég við mömmu að ef hún myndi ekki skilja við hann, þá myndi ég reyna að flytja sem fyrst í burtu. Ég gæti þetta ekki meira.“ Nokkrum mánuðum síðar skildu foreldrar Völu. „Ég var í skýjunum. Talaði mikið um það við vinkonur mínar hvað ég hlakkaði til að flytja. Ætlaði að fá stærra herbergi og alls kyns atriði sem ég sá í hillingum. Mér fannst þetta hreinlega dásamleg tilhugsun. Loksins voru þau að skilja!“ Vala var byrjuð í MS þegar þetta var. „Ég hef alltaf verið góður námsmaður. En fljótlega eftir skilnaðinn fór að halla undan fæti. Ég skildi ekkert í þessu. Var rosalega oft veik og komst ekki í skólann. Ein jólin voru einkunnirnar mínar nánast allar 5. Það var ákveðið wake up call fyrir mig. Því þótt ég væri búin að vera áhugalaus og mæta illa fékk ég sjokk að sjá þessar fimmur. Það vissi ég að ég vildi ekki.“ En Vala skildi samt ekki hvað amaði að henni. „Ég var engan veginn að átta mig á því að ég væri þunglynd. Fyrr en ég fór til námsráðgjafa því að ég vissi að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum. Ég lýsti fyrir henni hvernig aðstæðurnar heima væru. Að sem betur fer væru mamma og pabbi nú skilin. Ég væri því ekki að skilja hvers vegna mér liði oft svo illa.“ En námsráðgjafinn opnaði augu Völu. ,,Ég gleymi aldrei hvað hún sagði. Því hún útskýrði fyrir mér að allar breytingar geta verið áfall. Sama hversu góðar þessar breytingar eru. Það væri eðlilegt að mér liði illa yfir því að foreldrar mínir væru skilin og ég komin á nýtt heimili,“ segir Vala og bætir við: „Því að auðvitað vill barnið í manni að mamma og pabbi séu saman og að allir séu ánægðir og góðir. Sem var ekki. Ég saknaði pabba míns. Ég saknaði gamla heimilisins míns. Ég þráði skilnað og bað mömmu um að skilja við pabba. En var samt að takast á við svo flóknar tilfinningar. Syrgja það sem var. Og varð hreinlega þunglynd.“ Minningarnar frá fyrstu æviárunum eru góðar. En það tók Völu mörg ár með aðstoð sálfræðinga að fara að muna eftir þeim minningum því alltaf þegar hún hugsaði til æskunnar, komu upp minningar um erfiðleikana heima fyrir. Þar sem pabbi hennar var alltaf fullur, andlega ofbeldið var mikið og jafnvel hátíðar eins og páskar einfaldlega eyðilögðust sökum drykkju. Sögð of hress til að vera þunglynd Vala fór til sálfræðings í kjölfarið sem mamma hennar greiddi. Þetta er um aldamótin og umræðan langt frá því að vera orðin jafn mikil og hún er í dag um andlega líðan fólks. Ég frétti til dæmis að ein vinkona mín hefði sagt: Ég trúi því ekki að Vala sé þunglynd. Hún er alltaf svo hress í skólanum. En auðvitað áttaði hún sig ekki á því að auðvitað var ég alltaf hress í skólanum. Því ef ég gat ekki verið hress í skólanum, þá einfaldlega fór ég ekki í skólann.“ Mynstur sem margir þekkja sem glímt hafa við þunglyndi: Þegar fólk brosir í gegnum tárin og felur það vel fyrir öðrum, hversu mikil vanlíðanin er hið innra. Eftir stúdent fór Vala til Englands í söngnám og leið mjög vel. Bjó í fyrstu hjá vinkonu móður sinnar en síðan afa. „Mér fannst gaman að kynnast þessum ensku rótum betur. Amma var komin með Alzheimer og á stofnun en ég kynntist afa vel á þessum tíma og heimsótti ömmu oft þetta ár.“ Þegar heim var komið, hóf Vala söngnám í Söngskólanum í Reykjavík. „Eflaust hefði ég frekar átt að fara í FÍH því þetta nám var klassík en ég hef alltaf haft meiri áhuga á popptónlist,“ segir Vala og kímir. Ástin bankaði upp á eins og gengur og gerist hjá ungu fólki. „Það voru alls kyns atriði ekki í lagi í því sambandi. Rauð flögg eins og sagt yrði í dag. Ofbeldissamband og ekkert annað,“ segir Vala. „Þarna er ég ekkert að skilja hvað meðvirknin var í rauninni sterk í mér sjálfri. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem ég áttaði mig á því.“ Hvernig ofbeldi var í þessu sambandi? „Afbrýðisemi kannski mest. Byrjaði saklaust. Skilaboð sem ég fékk frá strák í hljómsveit sem spurði hvort ég vildi gera með honum tónlist og ég svaraði að ég væri til í að skoða það. Kærastinn minn sá skilaboðin og í stað þess að umræðan yrði um hvað hann hefði verið að gera í mínum skilaboðum, þá fór ég að reyna að ná úr honum fýlunni og lofa öllu fögru. Og varð rosalega þakklát þegar hann sagðist þá ætla að „gefa mér annan séns.““ Vala nefnir fjölmörg dæmi til viðbótar á sömu nótum. Þar sem hennar eigin hegðun og hugsanir snerust allar um að hafa kærastan góðan og ekki gera neitt sem mögulega fengi hann til að brjálast af afbrýðisemi eða búa til einhverja togstreitu á milli þeirra. Sambandið varði í tvö og hálft ár en fljótlega eftir að því lauk fór Vala til London í söngnám. „Ég ákvað að flytja út vegna þess að ég hafði misst röddina, gat talað en ekki sungið. Í London fékk ég hjálp sálfræðings sem starfar mikið með söngvurum. Þessi sálfræðingur útskýrði fyrir mér að þótt ég upplifði sambandsslitin af hinu góða, væri það áfall að takast á við“ segir Vala og bendir á hvernig svarið góða frá námsráðgjafanum á sínum tíma var aftur að sanna sig: Breytingum fylgja oft áfall, þótt breytingarnar séu í reynd góðar. Vala fór loks að geta sungið og naut þess að vera í einkatímum hjá virtum söngkennara. Síðan kom að því að sækja um óperunám. „Ég vildi ekki verða óperukona. Ég vissi það innst inni. En eftir allt þetta nám þá fannst mér ég þurfa sækja um þetta nám. Maður þurfti líka að borga gjöld fyrir umsóknir og prufur og ég vildi ekki tapa þeim pening. Ég sótti um í fjórum skólum en sem betur fer komst ég hvergi inn,“ segir Vala og brosir í kampinn. Fljótlega hélt Vala því aftur heim til Íslands. Þá 27 ára. Árið 2015 eignaðist Vala dótturina Sólrósu en árið 2019 skildi hún við barnsföður sinn. Vala viðurkennir að hún væri svo sem til í að fara í samband en treysti sér ekki til þess. Svo lítið þurfi til að triggera tilfinningar og hegðun sem tengjast meðvirkni og ótta við höfnun. Óttinn um að missa pabba Vala segir að þótt hún hafi búið ein þegar hún fór erlendis, hafi hún aldrei flutt að heiman frá mömmu sinni þegar hún var á Íslandi. Þær mæðgurnar voru alltaf nánar en það sama var ekki uppi á teningnum með föður hennar. „Hann leit illa út. Var alltaf þvoglumæltur. Með svona sjúklingalúkk. Drykkjan var stanslaus og varla að maður gæti sagt að maður væri í einhverju sambandi við hann. Enda leið mér alltaf illa þegar ég var búin að tala við hann.“ Þó kom að því að pabbi hennar fór í einhvers konar meðferð. Sem hann þó talaði ekki um sem meðferð heldur „hvíldarinnlögn.“ „Þegar hann var þar hringdi hann einu sinni í mig. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum. Því hann var ekkert þvoglumæltur, var edrú með alveg skýra rödd. Mér fannst ég heyra í pabba mínum aftur frá því að ég var lítil,“ segir Vala og brosir. Því miður fór þó svo að þegar Guðmundur fékk vikufrí í þessari meðferð, féll hann og drykkjan hélt áfram. „Ég vann heilmikið í mér á þessum tíma og það var hjá sálfræðingi sem ég áttaði mig á því að ég átti líka fullt af góðum minningum með pabba. En þær eru þá minningar frá því að ég var mjög lítil. Mér fannst gott að átta mig á þessu því að það var erfitt að hugsa alltaf bara um erfiðleikana, drykkjuna eða ljótu orðin hans.“ Vala segir að svo undarlega sem það hljómi hafi það reyndar verið þannig að þegar hún bjó erlendis, styrktist samband þeirra feðgina oft til muna. „Þá skrifuðumst við á í tölvupósti og opnuðum oft á eitthvað sem við hefðum ekki talað um nema þannig. En mér þótti mjög vænt um það.“ Á Íslandi fór Vala í Listaháskólann sem henni fannst frábært. Tvö sumur starfaði hún á veitingastöðum. „Ég var alltaf með í maganum. Yfirmaðurinn á veitingastaðnum var rosalegur alki og andlega ofbeldið sem hann beitti á starfsfólkið í samræmi við það. Óttastjórnun og allt þetta sem einkennir eitraða vinnustaðamenningu. Sem betur fer, að ég hélt, fékk ég starf á öðrum veitingastað í sama húsi. En þar tók við það sama: Eigandinn þar var líka brjálaður alki, beitti sínu starfsfólki ömurlegu ofbeldi og það bitnaði á öllum sem þar voru.“ Sem betur fer, fékk Vala síðan frábært starf á tjaldaleigu hjá yndislegum hjónum. Þar leið henni ekkert smá vel. Fyrir utan það að vera endalaust í magaveseni. „Það sem fólk gerir sér oft ekki grein fyrir er að börn sem alast upp við einhvers konar ofbeldi þróa með sér svo mikið óöryggi og ótta innra með sér. Barninu finnst það aldrei vera öruggt og þótt maður fullorðnist, þá býr þetta enn þá innra með manni og það þarf lítið til að triggera þessar tilfinningar. Eftir á tala ég alltaf um þetta magavesen sem taugaáfall. Því það var eins og maginn á mér gerði bara uppreisn, meltingin var í algjöru ólagi og ég var alveg hætt að ráða við þetta.“ Áður en maginn gerði endanlega uppreisn hafði Vala þróað með sér kerfi sem fæstir myndu telja hollt. „Til að forðast að verða illt í maganum sleppti ég því að borða til dæmis einn dag. Síðan var maginn orðinn svo slæmur að oft sleppti ég því að borða í marga daga en drakk bara vatn með sítrónu,“ segir Vala. Svo táknrænt sem það er, lagaðist þetta ekki fyrr en Vala fór í ristilhreinsun. „Sko ég þurfti að fara þrisvar,“ segir Vala til útskýringar á því hversu slæmt þetta var. „Þarna vil ég meina að taugakerfið á mér hafi bara verið að brotna og þess vegna tala ég um magavesenið sem taugaáfall. Þetta óöryggi í mér var svo rosalega rótgróið og hreinsunin tók svo rosalega á að ég var eiginlega í móki á eftir.“ Í eitt skiptið liggur Vala heima hjá sér að jafna sig eftir ristilhreinsun. „Ég er í einhvers konar móki þegar að ég fæ svona sýn og finn gífurlegan ótta um að pabbi myndi vilja taka líf sitt og finn að ég vildi bjarga honum. En ég sá þarna að ég gat ekki bjargað honum. Ég sá að ég var í rúst sjálf og gæti ekki gert neitt fyrir neinn, nema heila sjálfa mig fyrst. Þannig að ég gerði samkomulag við sjálfa mig um að ég þyrfti að sleppa tökunum á því hvort pabbi myndi lifa eða deyja. Ég þyrfti að setja eigin heilsu í fyrsta sæti.“ Vala verður nokkuð hugsi eftir þessi orð og segir síðan: „Veistu, ég held ég hafi vitað það fyrirfram hvað var að fara að gerast.“ Tárin renna niður kinnar Völu þegar hún rifjar upp andlát föður síns. Þegar bróðir hennar vakti hana upp og sagði henni að pabbi þeirra væri dáinn. Í fyrstu var ekki vitað hvað hefði gerst en síðan fannst miði. Það var erfitt að geta ekki kvatt. Kistan þurfti að vera lokuð.Vísir/Vilhelm Sjálfsvíg pabba Eitt sinn var Vala heima hjá mömmu sinni að tala við pabba sinn í síma. Allt í einu segir pabbi hennar við hana: „Veistu Vala, ég elska þig.“ Sem svo sannarlega stakk Völu í hjartastað. „Ég fór fram og sagði við mömmu: Mamma, ég var að tala við pabba og mér fannst það eiginlega bara gott samtal.“ Seinna meir hefur hún túlkað þetta samtal öðruvísi. „Hann tók sitt eigið líf ekki fyrr en nokkru seinna, en ég er sannfærð um að þá var hann löngu búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera.“ Hvernig fékkstu að vita að pabbi þinn væri dáinn? Þögn. Barn getur ekki svarað þessari spurningu án yfirþyrmandi tilfinninga. Spurningin er einfaldlega of sár. Svarið of sárt. Skiptir þá engu máli hvað barnið er orðið gamalt. Eða hverjar aðstæður voru. Tárin renna niður kinnar og Völu brestur röddin. Síðan segir hún. Bróðir minn kom inn í herbergi, vakti mig og sagði: Pabbi er dáinn.“ Þögnin sem tekur við er eins og að upplifa það enn á ný að fá þessar fréttir. Síðan segir Vala: „Og það var svo skrýtið að fyrsta hugsunin sem kom til mín var hvort þetta hefði verið sjálfsvíg. Mér finnst því eins og ég hafi vitað þetta en á þessari stundu lá það ekkert fyrir. Hann hefði til dæmis alveg getað hafa dáið úr hjartaáfalli.“ Næstu klukkustundir fóru í að reyna að meðtaka fréttirnar, halda utan um hvort annað og styðja. „Það var bróðir pabba sem kom að honum því að þeir bjuggu bræðurnir saman í húsi afa og ömmu, það var búið að breyta því þannig að þeir gátu búið þar svolítið sér.“ Í fyrstu var ekki vitað hvað hefði gerst. „En síðan fannst miði.“ Vala á ekki auðvelt með að tala um þessa stund og segist enn fá sting í hjartað að hugsa til þess sem bróðir föður hennar gekk í gegnum. Þá var erfitt að enginn gat kvatt hann. „Kistan þurfti að vera lokuð. Því hann var svo illa útleikinn.“ Vala einbeitir sér nú að því að kynna nýju plötuna sína og leggja áherslu á aðra uppbyggilega hluti. Hún segist viss um að mörg börn alkóhólista þrái það eitt að fá foreldri sitt aftur til baka úr drykkjunni, sama hvað hafi gengið á. Og alltaf séu þau í von um að foreldrið hætti að drekka einn daginn. Það hafi verið hugsunin hennar í laginu Sing you back to life.Vísir/Vilhelm „Sing you back to life“ Guðmundur var fæddur árið 1954 og tók sitt eigið líf þann 9.apríl árið 2014, þá aðeins sextugur að aldri. Guðmundur lauk BS-prófi í líffræði árið 1979 frá Háskóla Íslands, stundaði framhaldsnám í lífeðlisfræði við Bedford College í London og varði doktorsritgerð við Lundúnarháskólann. Lengst af starfaði Guðmundur við Rannsóknarstofu í ónæmisfræði við Landspítalann við sérfræðistörf og rannsóknir á sjálfsónæmissjúkdómum. Þá var Guðmundur um tíma stundarkennari við Háskóla Íslands. Saga Guðmundar sýnir hvernig fíknisjúkdómar, andlegt ofbeldi, vanlíðan og sjálfsvíg fer ekki í manngreinarálit: Menntun eða velgengni í starfi segir ekkert til um það hvað mögulega gerist í einkalífi fólks eða innan veggja heimilisins. Að sama skapi er saga Völu lýsing á því hvernig lífið getur þróast hjá börnum foreldra sem eiga við vanda að stríða og ná ekki að vinna sig út úr því. „Það var með aðstoð sálfræðings sem ég vann á þessu með óöryggið sem hafði alltaf fylgt mér frá því að ég var barn. Þetta hefur skipt mig mjög miklu máli því að eitt af því sem ég hef þurft að læra er að treysta.“ Árið 2015 eignaðist Vala dótturina Sólrós með fyrrum sambýlismanni sínum. Þau skildu árið 2019. „Um tíma fór hann að reykja gras og þá fór að halla undan fæti. Maður sá þessi sömu einkenni andlegs ofbeldis hjá honum, þessar karakterbreytingar og í hversu dimman dal hann fór. En hann er búinn að vinna mikið í sínum málum síðan það var,“ segir Vala. Vala segist ekki hafa upplifað mikla reiði gagnvart föður sínum fyrir að hafa tekið sitt eigið líf. „Frekar að ég hafi verið svekkt því við vorum byrjuð að laga tenginguna á milli okkar en náðum ekki að klára það.“ Þessa dagana er Vala að gefa út sína fyrstu plötu: Towards my dreams. Vala segir plötuna snúast um að láta drauma sína rætast. „Að hætta að leyfa neikvæðum hugsunum og óöryggi að draga úr manni kjarkinn og trúna á sjálfan sig, til að láta verða af því sem maður þráir að gera.“ Vala segir lögin samin út frá ýmsu sem hún hefur upplifað. „Þar á meðal tvö lög um pabba. Eitt ástarlag, tvö lög um dóttur mína og eitt út frá sambandslitunum. En það eru líka lög um að hlusta á innsæið, láta drauma sína rætast og að öðlast þroska og sjálfást og sjá heiminn með björtum augum, fullan af möguleikum.“ Vala segir suma textana að mörgu leyti sorglega en um leið sé í öllum áföllum og sorg líka hægt að finna ákveðna fegurð. Með það sé hún að vinna. Eitt lag stendur uppúr á plötunni að sögn Völu. Það er lagið ,,Sing you back to life.“ Textann segist Vala hafa fengið til sín tilbúinn eftir hugleiðsluna, þegar hún sannfærðist um að pabbi hennar vildi deyja. Vala skrifaði niður textann, ákvað að semja við hann lag og sá síðan fyrir sér að syngja lagið fyrir pabba sinn. „Mér þótti ekki líklegt að þetta myndi bjarga lífi hans, en ég hugsaði að þó það væri ólíklegt, þá væri það alltaf þess virði að reyna. Ég vildi sýna honum hvernig mér leið. Að ég sæi sársaukann hans. Og að ég vildi ekkert meira en að hjálpa honum að komast ,,aftur til lífsins“ en textinn I wish I could sing you back to life var þá myndlíking,“ segir Vala og bætir við: Því mér fannst í rauninni eins og hann væri ekki lifandi lengur. Hann var einhvern veginn löngu búinn að tékka sig út. Ég vildi leyfa honum að sjá og heyra hvernig ég sæi þetta og að það myndi snerta hann nógu mikið til að hann vildi lifna aftur við. Fara í meðferð. Koma aftur til baka til mín sem pabbi minn en ekki þessi skuggi sem hann var orðinn.“ Nokkrum vikum síðar tók pabbi Völu sitt eigið líf og Vala gleymdi textanum. Um ári eftir andlátið, fann hún textann. „Þá fékk ég sjokk, textinn var svo óhugnalega bókstaflegur. Myndlíkingin mín hafði ræst.“ Vala segist telja mörg börn alkóhólista vera á þessum stað. Að elska foreldra sína svo mikið að þau langi mest að fá þau aftur úr drykkjunni eða neyslunni eða hverju öðru sem er að skemma svona mikið fyrir. Í texta Völu segir: And now that you’re weak, not still strong It is time for me to help you along Together we can carry away your sadness, your fear and your pain Together we can carry away your sadness, your fear and your pain I wish that I could sing for you I wish that I could sing to you I wish that I could sing you back to life Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólk með sjálfsvígshugsanir getur hringt í Pieta-samtökin. Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pieta.is.
Geðheilbrigði Áfengi og tóbak Fíkn Fjölskyldumál Tónlistarnám Tónlist Tengdar fréttir Í fangelsi í sextán ár: Á endanum var það ástin sem bjargaði öllu „Ég myndi ekki segja að það væri svona mikil klíkumyndun. Að öðru leyti myndi ég svara já; þetta er bara eins og fólk sér þar,“ svarar Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, aðspurður um það hvort upplifunin af því að vera í fangelsi sé eitthvað sambærileg og við sjáum í erlendu sjónvarps- og kvikmyndaefni. 15. október 2023 07:01 „Ég var lengi bakari en skellti mér síðan í öryrkjann“ „Í tæpt ár fór ég þrisvar sinnum í viku í 4,5 klukkustundir í senn í nýrnavélina. Sem dældi blóðinu úr mér í gervinýra, sem síðan dældi blóðinu aftur inn í líkamann minn. Síðan var maður slappur á eftir,“ segir Gunnar Þór Guðmundsson nýrnaþegi. 24. september 2023 08:00 „Ef ekki væri fyrir ofbeldið væri þetta dásamlegasti maður sem ég þekki“ „„Ég ætti nú líklega ekki að vera hér, ég er örugglega að taka frá tíma sem myndi nýtast betur annarri konu,“ eru oft fyrstu setningarnar sem við heyrum konur segja þegar þær koma í viðtölin til okkar,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. 17. september 2023 08:00 Öll batterí búin: „Ég ákvað að gera þetta á fimmtudegi þegar Friðrik væri farinn til vinnu“ Hún er rétt rúmlega fimmtug og hefur nú þegar afrekað ótrúlega margt. Byrjaði með manninum sínum aðeins 16 ára, menntaði sig sem leikskólakennari og elskaði það starf, en rak hinn geysivinsæla veitingastað Friðrik V um árabil með eiginmanninum. 2. júlí 2023 08:00 Áfallasaga: Ofbeldi af verstu gerð, sonarmissir og dóttirin lamast „Já mig grunar að þetta hafi verið viljaverk. Afbrýðisemin var svo mikil að hann hafði oft sagt við mig að hann gæti ekki hugsað sér að einhver annar fengi mig eða að einhver annar karlmaður fengi að ala upp son hans,“ segir María Kristín Þorleifsdóttir þegar hún minnist bílslyssins 9. október 1997 þar sem tveggja og hálfs árs sonur hennar og barnsfaðir létu lífið og sjálf slasaðist hún mjög alvarlega. 11. júní 2023 08:01 Mest lesið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fleiri fréttir Skýringar á jólastressinu margvíslegar Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“ Sjá meira
Í fangelsi í sextán ár: Á endanum var það ástin sem bjargaði öllu „Ég myndi ekki segja að það væri svona mikil klíkumyndun. Að öðru leyti myndi ég svara já; þetta er bara eins og fólk sér þar,“ svarar Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, aðspurður um það hvort upplifunin af því að vera í fangelsi sé eitthvað sambærileg og við sjáum í erlendu sjónvarps- og kvikmyndaefni. 15. október 2023 07:01
„Ég var lengi bakari en skellti mér síðan í öryrkjann“ „Í tæpt ár fór ég þrisvar sinnum í viku í 4,5 klukkustundir í senn í nýrnavélina. Sem dældi blóðinu úr mér í gervinýra, sem síðan dældi blóðinu aftur inn í líkamann minn. Síðan var maður slappur á eftir,“ segir Gunnar Þór Guðmundsson nýrnaþegi. 24. september 2023 08:00
„Ef ekki væri fyrir ofbeldið væri þetta dásamlegasti maður sem ég þekki“ „„Ég ætti nú líklega ekki að vera hér, ég er örugglega að taka frá tíma sem myndi nýtast betur annarri konu,“ eru oft fyrstu setningarnar sem við heyrum konur segja þegar þær koma í viðtölin til okkar,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. 17. september 2023 08:00
Öll batterí búin: „Ég ákvað að gera þetta á fimmtudegi þegar Friðrik væri farinn til vinnu“ Hún er rétt rúmlega fimmtug og hefur nú þegar afrekað ótrúlega margt. Byrjaði með manninum sínum aðeins 16 ára, menntaði sig sem leikskólakennari og elskaði það starf, en rak hinn geysivinsæla veitingastað Friðrik V um árabil með eiginmanninum. 2. júlí 2023 08:00
Áfallasaga: Ofbeldi af verstu gerð, sonarmissir og dóttirin lamast „Já mig grunar að þetta hafi verið viljaverk. Afbrýðisemin var svo mikil að hann hafði oft sagt við mig að hann gæti ekki hugsað sér að einhver annar fengi mig eða að einhver annar karlmaður fengi að ala upp son hans,“ segir María Kristín Þorleifsdóttir þegar hún minnist bílslyssins 9. október 1997 þar sem tveggja og hálfs árs sonur hennar og barnsfaðir létu lífið og sjálf slasaðist hún mjög alvarlega. 11. júní 2023 08:01