Skoðun

En þori ég, vil ég, get ég?

Jónína Hauksdóttir skrifar

Á þriðjudaginn verða 48 ár síðan 24. október 1975 rann upp. Sá sögulegi dagur þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og um leið krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar höfðu. Konur komu saman víða um landið og stærsti hópurinn safnaðist saman á Lækjartorgi í Reykjavík þar sem ræður voru haldnar og lagið Áfram stelpur var sungið. Lagið sem margar konur og kvár í dag tengja við kvennafrídaginn.

Þvílíkt hugrekki sem skipuleggjendur og þátttakendur sýndu með þá von í brjósti að útrýma kynjamisrétti. Því miður, nú tæpum fimmtíu árum síðar, er sorglegt að þurfa að hryggja svo hugrakkar konur með því að enn er langt í land með að ná launajafnrétti.

Kennarastéttin er ein af þeim stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta. Félagsfólk Kennarasambandsins fær greidd sömu laun fyrir sömu störf. Því miður er það alls ekki alltaf raunin og breytur á borð við kyn, kynvitund, kynhneigð, stöðu, fötlun, trúarbrögð, aldur og uppruna hafa enn áhrif á launasetningu. Þessi staða á ekki að líðast í dag. Því hvet ég eindregið konur og kvár í Kennarasambandi Íslands að taka þátt í Kvennaverkfallinu 2023.

Sýnum stuðning okkar í verki 24. október. Sýnum sama hugrekki og ömmur okkar, mæður, systur og frænkur gerðu 1975. Tökum þátt. Mætum á samstöðufundi. Sýnum að við erum ómissandi fyrir samfélagið okkar. Sýnum í eitt skipti fyrir öll að við samþykkjum ekki launamisrétti.

Sýnum að enn þorum við, getum og viljum.

Höfundur er varaformaður Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×