Enski boltinn

Klopp sendi njósnara til að fylgjast með Osimhen

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Osimhen er einn eftirsóttasti framherji heims.
Victor Osimhen er einn eftirsóttasti framherji heims. getty/Cesare Purini

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sendi njósnara til að fylgjast með nígeríska framherjanum Victor Osimhen í landsleikjum.

Nígería mætti Sádi-Arabíu og Mósambik í vináttulandsleikjum á Algarve í Portúgal á dögunum. Osimhen fór meiddur af velli í 2-2 jafntefli gegn Sádi-Arabíu og spilaði ekki gegn Mósambik.

Osimhen leikur með Napoli og átti stóran þátt í því að liðið varð ítalskur meistari á síðasta tímabili. Hann skoraði 31 mark í öllum keppnum og var markakóngur ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Framtíð Nígeríumannsins hjá Napoli er hins vegar í óvissu. Samband hans og stjórans Rudis Garcia er ekki gott og þá vakti mikla athygli þegar gert var grín að Osimhen á TikTok aðgangi Napoli.

Hinn 24 ára Osimhen, sem hefur skorað sex mörk á tímabilinu, hefur verið orðaður við Arsenal og Chelsea og nú virðist Liverpool vera komið inn í myndina. Þá er mikill áhugi á Osimhen frá Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×