Lífið

Rocky-leikarinn Burt Young látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Burt Young og Sylvester Stallone árið 2014.
Burt Young og Sylvester Stallone árið 2014. Getty

Bandaríski leikarinn Burt Young, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í stórmyndinni Rocky, er látinn. Hann varð 83 ára gamall.

Í Rocky-myndunum fór Young með hlutverk Paulie, mágs og besta vinar hnefaleikakappans Rocky Balboa sem Sylvester Stallone túlkaði.

Young lagði sjálfur stund á hnefaleika á sínum yngri árum en hann fór með hlutverk Paulie í sex Rocky-myndum, þeirri síðustu árið 2006 sem bar heitið Rocky Balboa.

New York Times segir að dóttir leikarans staðfesti andlátið, en Young lést 8. þessa mánaðar.

Stallone minntist félaga síns á Instagram í gær. „Til míns kæra vinar, Burt Young. Þú varst ótrúlegur maður og listamaður. Ég og heimurinn munu sakna þín mikið. Hvíl í friði,“ skrifar Stallone.

Young var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aukahlutverki í fyrstu Rocky-myndinni sem kom út árið 1976. Myndin vann til Óskarsverðlauna sem besta mynd ársins.

Young birtist einnig í myndum á borð við Chinatown þar sem hann lék á móti Jack Nicholson og í leikstjórn Roman Polanski. Hann kom síðast fram í kvikmyndinni Win Win frá árinu 2011 sem skartaði Paul Giamatti í aðalhlutverki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×