Sport

Alfreð: Andstæðingurinn var ekki mættur til þess að spila fótbolta

Andri Már Eggertsson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði eitt mark í kvöld
Alfreð Finnbogason skoraði eitt mark í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Ísland vann sannfærandi 4-0 sigur gegn Liechtenstein. Alfreð Finnbogason, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, skoraði eitt mark og var ánægður með sigurinn.

„Það var smá húllumhæ þar sem Gylfi [Þór Sigurðsson] náði að koma til baka og skora tvö mörk. Þetta eru skrítnir leikir þegar að mótherjinn er ekki kominn til þess að spila fótbolta. Við gerðum það sem búist var við af okkur og fengum þrjú stig og erum sáttir,“ sagði Alfreð Finnbogason ánægður með sigurinn.

Alfreð var spurður út í stöðuna á liðinu og ungu landsliðsmennina.

„Mér finnst hún á mjög fínum stað. Við erum að fá eldri leikmenn til baka og það er meira jafnvægi á reynslu og ungum heldur en fyrir 2-3 árum þar sem ungu strákunum var hent strax í djúpu laugina.“

„Ég held að við séum að fá kjarna í kringum þá og það er þjálfarans að búa til réttu blönduna. Mér finnst við vera með miklu meiri breidd núna og mér líst gríðarlega vel á framhaldið.“

Klippa: Alfreð Finnboga eftir leik

Alfreð hélt áfram að tala um ungu landsliðsmennina og hlakkar til framhaldsins

„Þeir eru léttari og liprari. Við vorum með góða fótboltamenn upp á okkar besta en vorum líka með góða blöndu af leikmönnum sem gerðu allt til þess að vinna. Við vorum með hávaxið lið á þeim tíma en núna erum við með öðruvísi leikmenn og spilum öðruvísi. Ég er mjög spenntur fyrir blöndunni í liðinu og að fá að vera í hlutverki í þessu liði er mjög spennandi,“ sagði Alfreð Finnbogason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×