Lífið

„Ranka við mér og átta mig á því að hún er dáin“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigrún og Lárus ásamt dóttur sinni Örnu, nýfæddum syni sínum og regnbogabarninu Val og hundinum Móu.
Sigrún og Lárus ásamt dóttur sinni Örnu, nýfæddum syni sínum og regnbogabarninu Val og hundinum Móu. Sigrún Kristínar Valsdóttir

„Það var náttúru­lega hræði­lega flókið og erfitt að skilja hana eftir á spítalanum en ég er samt svo þakk­lát fyrir þennan tíma,“ segir Sig­rún Kristínar Vals­dóttir, stjórnar­kona í Gleym­mér­ei Styrktar­fé­lagi, en hún og Lárus Örn Láru­son misstu dóttur sína Ylfu Sig­rúnar Lárus­dóttur eftir 38 vikna með­göngu í desember 2021.

Gleym­mér­ei Styrktar­fé­lag býður í dag til ár­legrar minningar­stundar í Safnaðar­heimili Kópa­vogs­kirkju klukkan 15:00. Dagurinn í dag er á heims­vísu til­einkaður missi á með­göngu og barnsmissi.

Þakk­lát fyrir minningar­kassann

„Við áttum von á dóttur. Seinna barninu okkar. Svo missum við hana í fæðingu. Ég var sem­sagt farin af stað og er rosa spennt og set stelpuna mína stóru í pössun til ömmu sinnar um miðja nótt. Þegar ég kem svo upp á spítala kemur í ljós að það er eitt­hvað skrítið í gangi og ég fer í bráða­keisara,“ segir Sig­rún.

„Ég vakna svo eftir keisara og við tók rosa­lega ó­raun­veru­legur tími. Ég ranka við mér og átta mig á því að hún er dáin. En þá var svo ótrúlegt að það var búið að koma inn á sjúkra­stofuna með kassa frá Gleym­mér­ei.“

Sigrún þegar hún gekk með Ylfu.

Sig­rún segir það hafa verið ó­metan­legt að hafa fengið minningar­kassann, sem hafi gert þeim hjónum kleyft að minnast litlu stelpunnar sinnar.

„Sér­stak­lega á þeim tíma sem við náum ekki utan um það hvað var að eiga sér stað. Þarna var mót til að taka fót­spor og handar­mót, skart­gripur, bangsi, minningar­bók og fleira. Þetta var okkur svo dýr­mætt, að stíga inn í sorgina og að ein­hver annar hafi lagt í þá vinnu að hugsa fyrir okkur hvernig væri hægt að minnast lítils barns sem þú fékkst ekki að eiga.“

Sig­rún segir að því miður þekki hún missi vel. Hún hafi misst systur sína fyrir tuttugu árum síðan og pabba sinn fyrir fimm árum. Í þeirri sorg sé auð­veldara að ylja sér við minningar.

„En þetta, að missa barn, það er að syrgja það sem aldrei verður. Þar kemur styrktar­fé­lag eins og Gleym­mér­ei sterkt inn.“

Fengu að hafa Ylfu hjá sér

Sig­rún segir það fé­lagið hafi jafn­framt gefið Land­spítalanum kæli­vöggur. Það hafi reynst for­eldrum líkt og Sig­rúnu og Lárusi ó­metan­legt, enda gera þær for­eldrum kleyft að vera með börnunum sínum.

„Ég fer þarna í bráða­keisara og er vönkuð eftir svæfingu og átti bara of­boðs­lega erfitt með að með­taka stöðuna. Þannig að það lá í raun og veru ekkert á. Við vorum á spítalanum í fjóra daga á meðan ég var að jafna mig eftir keisarann og við gátum verið með Ylfu hjá okkur,“ segir Sig­rún.

Sigrún og Lárus með Val, nýfæddan son sinn. Hann er regnbogabarn en þá nafngift fá börn sem koma í heiminn eftir missi á meðgöngu.Sigrún Kristínar Valsdóttir

„Það var náttúru­lega hræði­lega flókið og erfitt að skilja hana eftir á spítalanum en engu að síður var ég svo þakk­lát fyrir þennan tíma. Að fá ein­hvern veginn að ná andanum.“

Sig­rún segist hafa kynnst starfi styrktar­fé­lagsins í kjöl­farið. Þar hafi hún kynnst góðum vinum sem hafi verið í sömu stöðu. Hún segir minningar­stundina í dag opna öllum.

„Hún er hugsuð bæði fyrir að­stand­endur og syrgj­endur. Það verða tón­listar­at­riði og hug­vekjur. Svo ætlar for­setinn að vera með á­varp. En svo er bara kaffi og ró­leg kyrrðar­stund. Við finnum það hvað það gefur mörgum mikið að geta hist og minnst barnanna sinna saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.