Í fangelsi í sextán ár: Á endanum var það ástin sem bjargaði öllu Rakel Sveinsdóttir skrifar 15. október 2023 07:01 Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur tvisvar fengið á sig 12 ára dóm fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning. Í fyrri afplánuninni breyttist ekkert og hann stjórnaði stjórnaði starfseminni sinni úr fangelsinu. Í síðari skipti' breyttist allt því þá hafði hann kynnst Titu. Vísir/Vilhelm „Ég myndi ekki segja að það væri svona mikil klíkumyndun. Að öðru leyti myndi ég svara já; þetta er bara eins og fólk sér þar,“ svarar Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, aðspurður um það hvort upplifunin af því að vera í fangelsi sé eitthvað sambærileg og við sjáum í erlendu sjónvarps- og kvikmyndaefni. Þar sem ótrúlegustu hlutir eru oft í gangi á meðal fanga. Og ýmislegt getur gerst. Sjálfur sat Guðmundur inni í heil sextán ár. Fékk tvisvar sinnum á sig tólf ára dóma fyrir stórfelld fíkniefnasmygl. Fyrst þegar hann var 25 ára og síðan þegar hann var 39 ára. Á endanum var það ástin sem bjargaði. Því þegar Guðmundur var loks frjáls eftir fyrstu átta árin í afplánun, hélt hann áfram sömu iðju og áður. „Starfsemi“ sem hann svo sem hætti aldrei alveg að stjórna á meðan hann sat inni. Alveg eins og við sjáum í bíómyndunum. Í dag fáum við að heyra sögu Guðmundar, sem í dag er starfsmaður Velferðasviði Reykjavíkurborgar, stundar nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands og hefur tekið þátt í alls kyns sjálfboðastarfi, trúnaðarstörfum, verið í starfshópum fyrir ráðuneyti og tekur virkan þátt í pólitík. Ástfanginn og giftur. Áskorun á Vísi fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, bata, sorg, aldurstengd mál og fleira. Í dag lærum við um það hvernig það er að vera í fangelsi á Íslandi og hvað þarf til að fólk nái að snúa við blaðinu eftir að afplánun lýkur. Guðmundur er giftur Titu Ciprian Balea, en þeir giftu sig árið 2014. Guðmundur segir alla tölfræði styðja að betri árangur næst ef fólk fær að afplána í styttri tíma í lokuðu fangelsi og því sé gefið tækifæri. Í hans tilfelli bjargaði ástin honum en helst hefði hann viljað að fyrstu átta árin sem hann sat inni, hefðu skilað því að hann kæmi betri maður út. Þegar kokkarnir reyktu yfir skólamatnum Síðustu árin höfum við oft séð og heyrt til Guðmundar í fjölmiðlum. Enda brennur hann fyrir málefnum fanga og þreytist seint á að tala fyrir breytingum á íslensku fangelsiskerfi. Sem hann segir þrjátíu árum á eftir kerfinu sem víðast þekkist á Norðurlöndum. Sjálfur sat hann meira að segja inni í Danmörku um tíma. Þannig að þessi samanburður er ekki úr lausu lofti gripinn. En hver er saga Guðmundar? Og hvernig leiddist hann út í heim fíkniefna og smygls? En tókst loks að snúa við blaðinu og vill að sem flestir nái að gera slíkt hið sama. Við skulum byrja á byrjuninni... Guðmundur er fæddur í maí árið 1974 og alinn upp í Breiðholtinu til 11 ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan í Árbæinn en Guðmundur endaði þó með að fá að fara aftur á æskuslóðarnar og klára 9.bekkinn eins og þá var efsta stig grunnskóla, í Ölduselsskóla. Æskuminningar Guðmundar eru góðar. Pabbi hans, Þóroddur Ingi Guðmundsson, er atvinnubílstjóri og starfar við það enn. Móðir hans, Valgerður Anna Jóhannesdóttir, lést í fyrra en hún starfaði lengi í verslun ÁTVR sem nú kallast Vínbúðin. Guðmundur er elstur fjögur systkina og það sem stendur uppúr í minningunum er skátastarfið. „Ég var byrjaður að banka uppá hjá skátafélaginu Segli átta níu ára gamall. Endaði með að fá inngöngu mjög snemma og tók auðvitað þátt í því félagsstarfi af krafti,“ segir Guðmundur og hlær: „Var kallaður súper-skáti löngu fyrir fermingu!“ Sem unglingur fór Guðmundur að vinna í verslun í hverfinu og hélt því áfram lengi vel með skóla. „Ég fór í vélskólann sem starfræktur var undir hatti Stýrimannaskólans og auðvitað hljómar það eins og ég hafi verið með óráði í eitt ár því námið átti ekkert við mig,“ segir Guðmundur og er augljóslega nokkuð skemmt af minningunni. „En ég var í nemendaráði og við náðum að breyta ýmsu. Til dæmis því að það mætti ekki reykja í skólanum. Ekki í matsalnum eða neitt.“ Sem Guðmundur segir hafa verið nokkuð erfitt markmið með alla þessa sjómenn sem nemendur, sem reyktu flestir. „Okkur var jafnvel hótað en það voru þó ekki sjómennirnir sem mótmæltu mest heldur kokkarnir í eldhúsinu. Sem fannst út í hött að mega ekki reykja lengur yfir matseldinni,“ segir Guðmundur og skellihlær. Sautján ára gamall var Guðmundur hins vegar kominn í sjálfstæðan rekstur. „Ég var ekki einu sinni kominn með fjárráð en við vorum félagar úr Breiðholtinu sem settum á laggirnar matvælafyrirtæki sem framleiddi hollusturétti eins og baunaborgara og chilibaunarétti. Sem var alls ekki komið í tísku þá. Við vorum líka í samlokugerð og seldum til mötuneyta og fyrirtækja.“ Síðar opnaði Guðmundur veitingastað með öðrum félögum sem einnig voru úr Breiðholtinu. „Geiri Goldfinger keypti hann af okkur og stofnaði Skipperinn þar síðar,“ segir Guðmundur til að útskýra hvar veitingastaðurinn var til húsa. Tímabilið 1995-1997 rak Guðmundur skemmtistaðinn Tunglið sem var afar vinsæll á þessum áratug. Á sama tíma opinberaði Guðmundur samkynhneigð sína. „Ég kom reyndar ekkert formlega út úr skápnum heldur frekar að það opinberaðist bara smátt og smátt og kannski helst á þessum tíma þegar ég var í Tunglinu. Á Íslandi voru ekki margir karlmenn opinberlega samkynhneigðir á þessum tíma. Þeir höfðu svo margir flúið land. Kannski einna helst Páll Óskar og nokkrir aðrir sem voru þekktir hér.“ Guðmundur segir samt Samtökin 78 hafa þá þegar verið farin að vinna gott starf en sjálfur fór hann á fundi í Gula húsið á þeirra vegum í nokkur skipti. „Ég hef lítið sinnt þessari baráttu, kannski líka vegna þess að maður er svo upptekinn í Afstöðu. En mér líst ekkert á blikuna með þetta bakslag sem nú er í samfélaginu, maður verður bara illur og fyrir nokkrum dögum síðan hugsaði ég með mér: Nei nú fer ég bara sjálfur niður í bæ og vef mig inn í regnbogafánann til að leggja málefninu lið.“ Sem betur fer segist Guðmundur aldrei hafa upplifað fordóma eða neina erfiðleika sem slíka vegna samkynhneigðar sinnar. Sem hann áttaði sig á um fimmtán ára gamall. „Fjölskyldan mín tók þessu mjög vel og hefur alltaf stutt mig í öllu. Það er miklu frekar að þau hafi farið í gegnum erfiðleika mín vegna út af því sem gerist síðar í minni sögu. Mörgum árum eftir að ég hóf afplánun komst ég til dæmis að því að bæði mamma og báðar systur mínar höfðu gengið til sálfræðings og alls konar í kjölfar þess hvernig ég var. En á þeim tíma pældi ég ekki einu sinni í því hvernig þeim mögulega liði.“ Guðmundur rak skemmtistaðinn vinsæla Tunglið árið 1995-1997 og á þeim tíma varð það meira opinbert að hann væri samkynhneigður, sem ekki var algengt þá því svo margir samkynhneigðir karlmenn höfðu þá þegar flúið land. Þegar Guðmundur var 25 ára fór hann til Benidorm, rak þar Íslendingabar og þá hófst neyslan. Alkapopp á Tunglinu og stemning á Benidorm Þegar Guðmundur var í rekstrinum á Tunglinu kom hann sjálfur aldrei nálægt neyslu á vímuefnum. Það gerðist ekki fyrr en seinna. „Að reka Tunglið var frábær tími. Við vorum þeir fyrstu til að flytja inn svona alkapoppdrykki, sem er sterkt áfengi blandað í einhvers konar gos. Þetta þótti rosa flott og varð þvílíkt vinsælt. Við byrjuðum með þetta á Tunglinu en fórum síðan að selja þetta víðar.“ Árið 1997 flutti Guðmundur til Benidorm á Spáni. „Allir sem fóru til Spánar á þessum tíma fóru til Benidorm. Þar rak ég Íslendingabar til ársins 1999. Sjálfur hafði ég oft farið með félögum til Benidorm áður en ég flutti út.“ Á Spáni fór Guðmundur að prófa sig áfram með eiturlyf. „Menningin þar er öðruvísi. Margt þar sem þykir meira sjálfsagt og eðlilegt þegar kemur að neyslu efna.“ Varstu þá að reykja marijúana eða jónur eins og kallað er? „Nei nei,“ svarar Guðmundur og hlær. „Ég fór bara í þessi hörðu efni. Kókaín og svona….“ Guðmundur segir að tíminn á Spáni hafi verið eins og eitt samfellt sumarfrí. Enda alltaf fjör á barnum og hjá því fólki sem sótti Benidorm. „Íslendingar leyfa sér oft aðra hluti þegar þeir eru í útlöndum. Að neyta vímuefna er eitt þeirra. Enda er tölfræðin ekkert öðruvísi með eiturlyf en áfengi. Hjá rúmlega 90% fólks gerist ekkert meira en það. En það eru hins vegar þessi 8-10% sem þróa með sér vímuefnavanda og þá fer að versna í því.“ Neyslan var dýr og segir Guðmundur að eflaust hafi það haft sitt að segja að hann sjálfur leiddist út í það að smygla eiturlyfjum til Íslands. Og fjármagna þá um leið sjálfan sig. „Ég var meira og minna í einhverri neyslu þessi þrjú ár sem ég var á Spáni. Það þykir kannski ekki langur tími en hann var þó nógu langur til að ég byrjaði að stunda ólöglegt athæfi.“ Í síðari afplánuninni kláraði Guðmundur stúdentinn í fjarnámi frá Versló en hann er núna í félagsráðgjöf í HÍ. Á mynd má sjá Björgvin bróður Guðmundar, móður þeirra Valgerði, Þóri manninn hennar, Selmu dóttur Björgvins, Titu og fjárnámsstjóra Versló. Þegar allir hinir eru hálfvitar Guðmundur var handtekinn á Íslandi þann 28.desember árið 1999. ,,Á afmælisdegi systur minnar.“ „Guðmundur Ingi var með tíu aðstoðarmenn,“ sagði meðal annars í fyrirsögn DV um aldamótin, en handtaka Guðmundar taldist umfangsmesta e-töflumálið sem upp hafði komið á Íslandi á þessum tíma. Hvernig tilfinning er það að vera handtekinn? Þegar maður er í virkri neyslu heldur maður að maður sé með allt á hreinu. Það eru allir hinir sem eru hálfvitar. Þess vegna hugsar maður ekkert mikið um þessa hluti fyrr en eftir handtöku. Þá tekur hins vegar við tímabil þar sem menn vorkenna sjálfum sér voða mikið og sjá á eftir hlutum. En það tekur menn alveg tíma að átta sig á því hvað hefur gerst. Ég myndi segja að það hafi tekið mig alveg um hálft ár eftir handtöku að átta mig á stöðunni.“ Stundum heyrir maður að eftir að menn hafa verið handteknir, þá hringja þeir grátandi í mömmu sína og eru alveg miður sín. Svona eins og þá komi kjarninn í sjálfinu þeirra fram. Er þetta rétt lýsing? „Já. Það eru allir hræddir við að fara í fangelsi enda erum við öll bara mennsk sama hver við erum. Ég man til dæmis eftir því að stuttu áður en ég var handtekinn var ég að keyra framhjá Litla Hrauni að kvöldlagi. Byggingin er frekar og húsið var lýst upp í myrkrinu með kösturum. Og ég hugsaði með mér: Vá hvað það hlýtur að vera skelfilegt að vera þarna inni. Allt í einu er maður síðan í lögreglubíl að keyra í gegnum þetta hlið.“ Guðmundur segir upplifunina af því að vera handtekinn eða kominn í fangelsi vera eins og eitthvað sem er „óraunverulegt.“ „Í neyslu er maður ekki á jörðinni. Fólk er einfaldlega veikt.“ Guðmundur var settur í einangrun í sex vikur. Í einangrun má fanginn ekki tala við neinn nema fangaverði, ekki hitta neinn og ekki lesa neitt fréttatengt. Hvernig lifir maður það af að vera í einangrun í sex vikur, 25 ára? „Ég hef heyrt margar ljótar sögur af því að menn komi mjög illa út úr slíkri einangrun. En ég held nú að mér hafi tekist að komast ágætlega út úr þessu. Það bjargaði mér svolítið að ég varð rosalega veikur í tvær vikur á meðan einangrunin var. Eftir það fór ég í rútínu sem ég bjó mér til. Svaf á daginn, las á kvöldin og gerði æfingar á næturnar.“ Hvaða bækur lastu? „Það var nú frekar fátæklegt úrvalið á þessum tíma og fæstir að hugsa um það að vera með góðar bækur í fangelsum landsins. Bækurnar sem ég las voru flestar skrifaðar á sögutímum seinni heimstyrjaldarinnar eða gerðust á þeim tíma,“ svarar Guðmundur og brosir. Guðmundur segir alla hrædda við að fara í fangelsi og það sem gerist þar sé mjög líkt því sem fólk sér í bíómyndum eða sjónvarpi, nema þá kannski helst að klíkumyndun er ekki eins algeng. Guðmundur segist skilja þolendur sem vilja ekki að gerendur afpláni aðeins í stuttan tíma í lokuðum fangelsum. Þar beinir hann gagnrýninni hins vegar að dómskerfinu sem ítrekað dæmir menn í mun styttri fangelsisvist fyrir kynferðisbrot, misnotkun á börnum og fleira, á meðan aðrir fá mun lengri dóma fyrir önnur brot. Átta ár sem breyttu engu Guðmundur hlaut tólf ára dóm og sat inni í átta ár. Hann segir þennan tíma því miður ekki hafa breytt neinu. „Ef að hugsunin breytist ekki hjá manni er ekki hægt að gera ráð fyrir að þessi afplánun sé að gera gagn. Í raun er fangelsiskerfið á Íslandi byggt á mörg hundrað ára gömlu úreltu kerfi sem einfaldlega virkar ekki.“ Guðmundur segir fyrirmyndina vera það kerfi sem Norðurlöndin hafa tekið upp. Þar sem afplánun í lokuðu fangelsi er sem styst en langur tími tekinn í að byggja upp fólk og hvetja það til að snúa alveg við blaðinu. En það eru nú ekki allir sáttir við stutta fangelsisvist. Til dæmis þolendur kynferðisbrota. Á það alltaf rétt á sér að menn sitji ekki lengi inni í lokuðu fangelsi? „Ég skil þolendur kynferðisbrota vel enda er dómskerfið á Íslandi svo stórfurðulegt. Menn eru að fá mjög stutta dóma fyrir alvarleg kynferðisbrot eða brot gegn börnum, en síðan mun lengri dóma fyrir önnur brot sem ég þó ætla ekkert að gera lítið úr að séu líka alvarleg,“ segir Guðmundur en bætir við: „Tölfræðin hefur samt sýnt það í öllum brotamálaflokkum að menn eru líklegri til að fremja ekki aftur brot ef þeir sitja styttri tíma í lokuðu fangelsi en lengur í opinni afplánun. Þar sem líka er verið að veita aðstoð, virkja fólk til náms og fleira.“ Guðmundur segir margt hafa breyst til betri vegar frá því að hann hlaut fyrst dóm. „Við í Afstöðu, fangelsisyfirvöld og fleiri sem að þessum málum koma erum sem betur fer öll farin að tala í takt í dag. Það getur vel verið að við séum ekkert alltaf sammála því hvaða leiðir ætti að fara en við erum samt öll að vinna að sama markmiði.“ Sem dæmi nefnir Guðmundur námsleitina sem hann falaðist eftir á sínum tíma. „Þegar ég var í afplánun í seinna skiptið, var ég sendur á Akureyri. Þar samdi ég við prófessor um að leyfa mér að taka nám í lögfræði. En yfirvöld synjuðu því. Ég óskaði líka eftir því að klára stúdentinn en því var hafnað fyrst. Seinna gerði ég það reyndar því frá Kvíabryggju kláraði ég stúdentinn í fjarnámi frá Versló. Sem ég vil þó fyrst og fremst þakka fjárnámsstjóranum í Versló og skólameistaranum sem þá var þar. Síðan byrjaði ég í spænsku í háskóla Íslands, hætti því og er núna í félagsráðgjöf.“ Guðmundur segir að þótt samstarf Afstöðu og fangelsisyfirvalda sé gott í dag, hafi það ekki alltaf verið svo. „Ég fór sjálfur í gegnum nokkur ár þar sem ég var uppfullur af reiði og heift. Þannig var staðan þegar ég var sendur á Akureyri þegar spurðist út að ég ætlaði að bjóða mig fram til formanns Afstöðu. Því með fjarlægðinni sáu menn fyrir sér að ég væri meira úr leik.“ Guðmundur segir allt svona viðhorf hafa breyst hjá yfirvöldum. Og honum líka. Í reiði og heift voru samskiptin mín við yfirvöld ekki heldur góð og oft erfið á köflum. Því reiði og heift skilar á endanum engu. Þ að er líka vont fyrir alla þegar reiði og heift í samfélaginu gerir dómara svo hrædda að nú er það einfaldlega staðreynd að saklausir menn hafa verið sendir í afplánun fyrir kynferðisbrot sem þeir hafa ekki framið. Reiði og heift skilar aldrei góðu.“ Samtökin Afstaða hafa vaxið mjög mikið í umfangi síðustu árin. Þar starfa sem sjálfboðaliðar lögfræðingar, félagsráðgjafar, geðhjúkrunarfræðingur, kennari, hjúkrunarfræðingur og fleiri. „Við erum allt í senn: Stuðningsnet fyrir þá sem hljóta dóm og aðstandendur þeirra. Sem geta verið foreldrar og systkini, jafnvel afar og ömmur.“ Til viðbótar tekur félagið virkan þátt í málefninu innan stjórnsýslu og Alþingis. Til dæmis með því að skila inn umsögnum um lög eða reglugerð sem Alþingi er að vinna að, sitja í starfshóp á vegum ráðuneyta og fleira. „Í dag er ég í starfshópi heilbrigðisráðherra um stefnu stjórnvalda í skaðaminnkun, ég var í nefnd félagsmálaráðherra um bætta stöðu einstaklinga eftir afplánun og í nefnd heilbrigðisráðherra um afglpavæðingu neysluskammta.“ Þá segir Guðmunudr það hafa verið viðrað við sig að koma að starfshópi um heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga sem skipuð yrði af dómsmálaráðherra. Hvað með aðstoð innan fangelsanna fyrir sjálfseflingu og andlega líðan? „Það eru fleiri sálfræðingar og félagsráðgjafar í dag en þegar ég fór fyrst inn. Sem er jákvætt og þessir aðilar eru allir að reyna sitt besta. Samfangar eru hins vegar oft þeir sem eru á endanum bestu sálfræðingarnir. Þess vegna höfum við hjá Afstöðu mótmælt því að ekki sé lengur leyft að vera inni í herbergi hjá öðrum, þar sem hægt er að ræða saman í einrúmi. Við vitum öll hvað varð til þess að það var bannað, en við viljum meina að það komi meira gott úr því að leyfa það þegar stóra myndin er skoðuð.“ Þá segir Guðmundur miklu skipta hvernig samskiptin eru við fjölskyldur og ástvini á meðan fólk er í afplánun. „Ég var svo heppin að vera í mjög góðu sambandi við mína fjölskyldu og náði að efla þau tengsl á meðan á afplánun stóð. Oft er það ekki hægt, sérstaklega þegar neyslan hefur verið mikil og lengi. Sterk fjölskyldutengsl á meðan á afplánun stendur er þó eitt af því sem sannað er að hefur jákvæð áhrif.“ Guðmundur segir margt hafa breyst til betri vegar frá því að hann var fyrst handtekinn árið 1999. Auðvitað séu ekkert endilega allir sammála því hvaða leið skuli fara en almennt séu allir að vinna að sama markmiðinu: fangelsisyfirvöld, Afstaða og fleiri. Margir koma að sjálfboðaliðastarfi Afstöðu en félagið hefur vaxið mikið í umfangi síðustu árin. Ást og bjartsýni Margir kannast við að verða frekar meyrir þegar líður að jólum enda sá tími ársins sem tengsl og samvera fjölskyldna er hvað mest. Eru það jólin sem eru erfiðust? ,,Nei reyndar ekki. Afmælisdagar ástvina og jól eru reyndar ofboðslega erfiðir dagar. Það kvöld sem er samt langerfiðasti tíminn þegar maður er inni er gamlárskvöld,“ segir Guðmundur og vitnar í að margir sem hann þekkir og hafa sjálfir setið inni, segja slíkt hið sama. Guðmundur segir líka mikilvægt að horfa á forvarnir og aðstoð við vímuefnaneytendur. „Ég er ekki með tölfræðina yfir það en tel líklegt að vímuefni og neysla séu í flestum tilfellum einhverjir áhrifavaldar. Menn geta svo sem verið edrú þegar þeir fremja brotin en ef þú ert veikur af neyslu, þá ertu ekki í lagi þótt þú sért edrú stundina sem þú gerir eitthvað af þér,“ segir Guðmundur og nefnir heimilisofbeldi sem dæmi. „Ég myndi segja að í fyrri afplánuninni minni hafi það alveg tekið mig um eitt ár eftir að ég fór inn að ná áttum því fangelsisvistin var mér miklu stærra áfall þá. Í síðara skiptið var ég eldri, þroskaðri og þekkti umhverfið. Ég myndi lýsa þessu þannig að þegar fólk fer í fangelsi, þá tekur fyrst smá tíma að ná áttum en síðan aðlagast fólk ótrúlegustu aðstæðum og þannig er það líka þarna.“ En eftir fyrstu átta árin, var engin löngun til staðar að snúa við blaðinu þannig að þú gætir lifað sem frjáls maður? „Til hvers?“ spyr Guðmundur en útskýrir síðan: Þegar viðhorfið hjá manni breytist ekkert heldur maður áfram að gera það sem maður kann. Á meðan ég var inni breyttist ekkert í minni hugsun og ég sá líka enga ástæðu til þess. Fjölmiðlar höfðu birt af mér myndir, ég var ekki með neina menntun og því hugsaði maður bara: Það er enginn að fara að ráða mig í vinnu eftir þetta.“ En það er samt greinilega allt annað viðhorf hjá þér þegar þú ert dæmdur í seinna skiptið. Þannig að hvað breyttist? „Titu.“ Það sem bjargaði Guðmundi á endanum var að kynnast Titu en sjálfur segist Guðmundur vilja óska þess að einhver hefði gripið hann strax í fyrri afplánuninni, þá 25 ára, til þess að fá hann til að snúa við blaðinu. Sem hvarflaði ekki að honum að gera fyrr en mörgum árum síðar og þá aftur í fangelsi. Þess vegna segist Guðmundur brenna fyrir því að kerfinu á Íslandi verði breytt til samræmis við fangelsiskerfisins á Norðurlöndunum. Guðmundur er giftur Titu Ciprian Balea. Þegar þeir giftu sig árið 2014, var Guðmundur í afplánun í Danmörku. Því þar var hann handtekinn fyrir stórfellt fíkniefnasmygl árið 2012 og hlaut tólf ára dóm árið 2013. „Titu er ástæðan fyrir því að ég er á þeim góða stað sem ég er í dag. Ég væri ekki á þessum stað í lífinu ef ég hefði ekki kynnst honum.“ Og svo sannarlega eru þetta ekki orðin tóm. Ég kynnist Titu þegar ég fer út til Spánar aftur eftir fyrri afplánunina. Ég var heillengi að reyna að bjóða honum út að borða en ekkert gekk. Loks spurði ég: Hvað þarf til að þú samþykkir að fara út með mér? Og þá svaraði Titu: Þú þarft að vera edrú.“ Við það sat og Guðmundur hætti allri neyslu og reyndar öllu ólöglegu öðru líka. „Ég hætti öllu en fljótlega fór ég að hugsa: Bíddu, hvað á ég þá að gera? Því allir þurfa að lifa og framfleyta sér.“ Guðmundur fór því í feluleik. Feluleikurinn gekk út á að halda áfram þeirri iðju sem hann hafði lengi stundað, en fela það fyrir Titu. „Auðvitað var honum farið að gruna þetta undir lokin. En það breytti því ekki að þegar að ég var handtekinn í Danmörku þá fékk hann algjört sjokk.“ Guðmundur er virkur í starfi Samfylkingarinnar og hefur tekið þátt í ýmsum sjálfboðaliða- og félagsstörfum, meðal annars með Rauða krossinum og Frú Ragnheiði. Guðmundur óskar þess að tíminn sé nýttur með sér yngra fólki á meðan það er í afplánun, þannig að það sé líklegra til þess að snúa við blaðinu fyrr en ella. Þess vegna sé brýnt að breyta núverandi kerfi.Vísir/Vilhelm, einkasafn Að einhver grípi þig strax Guðmundur segir að það sé rétt að í fangelsum gildi ákveðinn valdastigi á milli fanga og að ekki séu öll brot litin sömu augu. Sumir lenda í einelti, það er litið niður á suma glæpi og sumir glæpir teljast verri en aðrir. Þetta er fangelsismenningin eins og hún er víðast hvar í heiminum. Það sem við þurfum hins vegar að breyta er kerfið sjálft því það eru fáir að koma betri út eftir vistina eins og kerfið er uppbyggt í dag.“ Mikill þroskamunur var á Guðmundi þegar hann hlaut fyrsta dóminn 25 ára og síðari að verða fertugur. „Þegar ungir menn hefja afplánun er enginn sem kemur og segir: Jæja, hvað viltu nú verða þegar þú ert orðinn stór? Það er því ekkert sem tekur við sem hvatning til að breyta, enginn sem grípur mann. Það er svona það fyrsta sem kemur upp í hugann minn þegar ég rifja það upp að hafa verið 25 ára að hefja fyrstu afplánunina mína.“ Guðmundur segir menn líka oft svo illa haldna þegar þeir koma fyrst í afplánun. Menn koma þarna inn reiðir og oft í áfalli. Jafnvel búnir að missa allt frá sér, sambönd slitna og karlmennskumenningin er samt þannig að það á ekki að vera neitt tilfinningalegt væl. Þótt auðvitað séu allir að drepast úr vanlíðan inn í sér.“ Félagið Afstaða var stofnað árið 2005 og nú líður að því að Guðmundur hafi gegnt formennsku í tíu ár. „Auðvitað sé ég fyrir mér að einhver annar hljóti bráðlega að fara að taka við. En þetta er svo sem ekki málaflokkur sem margir eru æstir í að vera sýnilegir út af,“ segir Guðmundur og kímir. Hjá Velferðasviði Reykjavíkurborgar starfar Guðmundur í málefnum heimilislausra og gistiskýla. Þá er hann í trúnaðarráði Rauða krossins, hefur verið sjálfboðaliði fyrir Frú Ragnheiði og tekur virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar. Meðal annars á flokksþingi Samfylkingarinnar þessa helgi. „Ég sé fyrir mér að vinna að fleiru þessum málum tengt og þess vegna er ég að læra félagsráðgjöfina. Ég bendi til dæmis á að við hjá Afstöðu erum örugglega fólkið sem þekkjum vímuefnaneytendur sem best. Því við erum að tala við fólk í neyslu daglega. Ég ætla klárlega að bjóða mig aftur fram í næstu kosningum og það truflar mig ekkert þótt sumir telji mig einna málaflokkamaður. Því ég er það alls ekki og hef alveg áhuga á að vinna að mörgu öðru. Ég tel líka mikilvægt að á Alþingi sitji þverskurður af þjóðinni og er því ekkert rosalega hrifinn af því hvað það er verið að lögfræðivæða allt stjórnkerfið eins og virðist vera.“ Til lengri framtíðar sjá Guðmundur og Titu fyrir sér að flytjast aftur til Spánar. Í augnablikinu eru það þó málefnin hér. Og þá helst málefni fanga. „Styttri tími í lokuðu fangelsi er að reynast vel erlendis. Og að gefa mönnum tækifæri á meðan þeir eru í afplánun því það er líklegasta leiðin til þess að forða samfélaginu frá því að fólk haldi áfram á sömu braut,“ segir Guðmundur og bætir við: „Ég er sjálfur dæmi um það.“ Fangelsismál Fjölskyldumál Fíkn Fíkniefnabrot Dómstólar Dómsmál Geðheilbrigði Góðu ráðin Helgarviðtal Mest lesið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið Heitir og hýrir flugþjónar í suðrænni stemningu Lífið Katrín og Markus orðin tveggja barna foreldrar Lífið Emilíana Torrini einhleyp Lífið Benedikt og Sunneva Einars selja slotið Lífið Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Fleiri fréttir Kaupmálar 50+: „Mér finnst uppkomin börn oft ansi frek til fjárins“ Framhald: „Málið er að mig langar ekki til að deyja“ Sjá meira
Þar sem ótrúlegustu hlutir eru oft í gangi á meðal fanga. Og ýmislegt getur gerst. Sjálfur sat Guðmundur inni í heil sextán ár. Fékk tvisvar sinnum á sig tólf ára dóma fyrir stórfelld fíkniefnasmygl. Fyrst þegar hann var 25 ára og síðan þegar hann var 39 ára. Á endanum var það ástin sem bjargaði. Því þegar Guðmundur var loks frjáls eftir fyrstu átta árin í afplánun, hélt hann áfram sömu iðju og áður. „Starfsemi“ sem hann svo sem hætti aldrei alveg að stjórna á meðan hann sat inni. Alveg eins og við sjáum í bíómyndunum. Í dag fáum við að heyra sögu Guðmundar, sem í dag er starfsmaður Velferðasviði Reykjavíkurborgar, stundar nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands og hefur tekið þátt í alls kyns sjálfboðastarfi, trúnaðarstörfum, verið í starfshópum fyrir ráðuneyti og tekur virkan þátt í pólitík. Ástfanginn og giftur. Áskorun á Vísi fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, bata, sorg, aldurstengd mál og fleira. Í dag lærum við um það hvernig það er að vera í fangelsi á Íslandi og hvað þarf til að fólk nái að snúa við blaðinu eftir að afplánun lýkur. Guðmundur er giftur Titu Ciprian Balea, en þeir giftu sig árið 2014. Guðmundur segir alla tölfræði styðja að betri árangur næst ef fólk fær að afplána í styttri tíma í lokuðu fangelsi og því sé gefið tækifæri. Í hans tilfelli bjargaði ástin honum en helst hefði hann viljað að fyrstu átta árin sem hann sat inni, hefðu skilað því að hann kæmi betri maður út. Þegar kokkarnir reyktu yfir skólamatnum Síðustu árin höfum við oft séð og heyrt til Guðmundar í fjölmiðlum. Enda brennur hann fyrir málefnum fanga og þreytist seint á að tala fyrir breytingum á íslensku fangelsiskerfi. Sem hann segir þrjátíu árum á eftir kerfinu sem víðast þekkist á Norðurlöndum. Sjálfur sat hann meira að segja inni í Danmörku um tíma. Þannig að þessi samanburður er ekki úr lausu lofti gripinn. En hver er saga Guðmundar? Og hvernig leiddist hann út í heim fíkniefna og smygls? En tókst loks að snúa við blaðinu og vill að sem flestir nái að gera slíkt hið sama. Við skulum byrja á byrjuninni... Guðmundur er fæddur í maí árið 1974 og alinn upp í Breiðholtinu til 11 ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan í Árbæinn en Guðmundur endaði þó með að fá að fara aftur á æskuslóðarnar og klára 9.bekkinn eins og þá var efsta stig grunnskóla, í Ölduselsskóla. Æskuminningar Guðmundar eru góðar. Pabbi hans, Þóroddur Ingi Guðmundsson, er atvinnubílstjóri og starfar við það enn. Móðir hans, Valgerður Anna Jóhannesdóttir, lést í fyrra en hún starfaði lengi í verslun ÁTVR sem nú kallast Vínbúðin. Guðmundur er elstur fjögur systkina og það sem stendur uppúr í minningunum er skátastarfið. „Ég var byrjaður að banka uppá hjá skátafélaginu Segli átta níu ára gamall. Endaði með að fá inngöngu mjög snemma og tók auðvitað þátt í því félagsstarfi af krafti,“ segir Guðmundur og hlær: „Var kallaður súper-skáti löngu fyrir fermingu!“ Sem unglingur fór Guðmundur að vinna í verslun í hverfinu og hélt því áfram lengi vel með skóla. „Ég fór í vélskólann sem starfræktur var undir hatti Stýrimannaskólans og auðvitað hljómar það eins og ég hafi verið með óráði í eitt ár því námið átti ekkert við mig,“ segir Guðmundur og er augljóslega nokkuð skemmt af minningunni. „En ég var í nemendaráði og við náðum að breyta ýmsu. Til dæmis því að það mætti ekki reykja í skólanum. Ekki í matsalnum eða neitt.“ Sem Guðmundur segir hafa verið nokkuð erfitt markmið með alla þessa sjómenn sem nemendur, sem reyktu flestir. „Okkur var jafnvel hótað en það voru þó ekki sjómennirnir sem mótmæltu mest heldur kokkarnir í eldhúsinu. Sem fannst út í hött að mega ekki reykja lengur yfir matseldinni,“ segir Guðmundur og skellihlær. Sautján ára gamall var Guðmundur hins vegar kominn í sjálfstæðan rekstur. „Ég var ekki einu sinni kominn með fjárráð en við vorum félagar úr Breiðholtinu sem settum á laggirnar matvælafyrirtæki sem framleiddi hollusturétti eins og baunaborgara og chilibaunarétti. Sem var alls ekki komið í tísku þá. Við vorum líka í samlokugerð og seldum til mötuneyta og fyrirtækja.“ Síðar opnaði Guðmundur veitingastað með öðrum félögum sem einnig voru úr Breiðholtinu. „Geiri Goldfinger keypti hann af okkur og stofnaði Skipperinn þar síðar,“ segir Guðmundur til að útskýra hvar veitingastaðurinn var til húsa. Tímabilið 1995-1997 rak Guðmundur skemmtistaðinn Tunglið sem var afar vinsæll á þessum áratug. Á sama tíma opinberaði Guðmundur samkynhneigð sína. „Ég kom reyndar ekkert formlega út úr skápnum heldur frekar að það opinberaðist bara smátt og smátt og kannski helst á þessum tíma þegar ég var í Tunglinu. Á Íslandi voru ekki margir karlmenn opinberlega samkynhneigðir á þessum tíma. Þeir höfðu svo margir flúið land. Kannski einna helst Páll Óskar og nokkrir aðrir sem voru þekktir hér.“ Guðmundur segir samt Samtökin 78 hafa þá þegar verið farin að vinna gott starf en sjálfur fór hann á fundi í Gula húsið á þeirra vegum í nokkur skipti. „Ég hef lítið sinnt þessari baráttu, kannski líka vegna þess að maður er svo upptekinn í Afstöðu. En mér líst ekkert á blikuna með þetta bakslag sem nú er í samfélaginu, maður verður bara illur og fyrir nokkrum dögum síðan hugsaði ég með mér: Nei nú fer ég bara sjálfur niður í bæ og vef mig inn í regnbogafánann til að leggja málefninu lið.“ Sem betur fer segist Guðmundur aldrei hafa upplifað fordóma eða neina erfiðleika sem slíka vegna samkynhneigðar sinnar. Sem hann áttaði sig á um fimmtán ára gamall. „Fjölskyldan mín tók þessu mjög vel og hefur alltaf stutt mig í öllu. Það er miklu frekar að þau hafi farið í gegnum erfiðleika mín vegna út af því sem gerist síðar í minni sögu. Mörgum árum eftir að ég hóf afplánun komst ég til dæmis að því að bæði mamma og báðar systur mínar höfðu gengið til sálfræðings og alls konar í kjölfar þess hvernig ég var. En á þeim tíma pældi ég ekki einu sinni í því hvernig þeim mögulega liði.“ Guðmundur rak skemmtistaðinn vinsæla Tunglið árið 1995-1997 og á þeim tíma varð það meira opinbert að hann væri samkynhneigður, sem ekki var algengt þá því svo margir samkynhneigðir karlmenn höfðu þá þegar flúið land. Þegar Guðmundur var 25 ára fór hann til Benidorm, rak þar Íslendingabar og þá hófst neyslan. Alkapopp á Tunglinu og stemning á Benidorm Þegar Guðmundur var í rekstrinum á Tunglinu kom hann sjálfur aldrei nálægt neyslu á vímuefnum. Það gerðist ekki fyrr en seinna. „Að reka Tunglið var frábær tími. Við vorum þeir fyrstu til að flytja inn svona alkapoppdrykki, sem er sterkt áfengi blandað í einhvers konar gos. Þetta þótti rosa flott og varð þvílíkt vinsælt. Við byrjuðum með þetta á Tunglinu en fórum síðan að selja þetta víðar.“ Árið 1997 flutti Guðmundur til Benidorm á Spáni. „Allir sem fóru til Spánar á þessum tíma fóru til Benidorm. Þar rak ég Íslendingabar til ársins 1999. Sjálfur hafði ég oft farið með félögum til Benidorm áður en ég flutti út.“ Á Spáni fór Guðmundur að prófa sig áfram með eiturlyf. „Menningin þar er öðruvísi. Margt þar sem þykir meira sjálfsagt og eðlilegt þegar kemur að neyslu efna.“ Varstu þá að reykja marijúana eða jónur eins og kallað er? „Nei nei,“ svarar Guðmundur og hlær. „Ég fór bara í þessi hörðu efni. Kókaín og svona….“ Guðmundur segir að tíminn á Spáni hafi verið eins og eitt samfellt sumarfrí. Enda alltaf fjör á barnum og hjá því fólki sem sótti Benidorm. „Íslendingar leyfa sér oft aðra hluti þegar þeir eru í útlöndum. Að neyta vímuefna er eitt þeirra. Enda er tölfræðin ekkert öðruvísi með eiturlyf en áfengi. Hjá rúmlega 90% fólks gerist ekkert meira en það. En það eru hins vegar þessi 8-10% sem þróa með sér vímuefnavanda og þá fer að versna í því.“ Neyslan var dýr og segir Guðmundur að eflaust hafi það haft sitt að segja að hann sjálfur leiddist út í það að smygla eiturlyfjum til Íslands. Og fjármagna þá um leið sjálfan sig. „Ég var meira og minna í einhverri neyslu þessi þrjú ár sem ég var á Spáni. Það þykir kannski ekki langur tími en hann var þó nógu langur til að ég byrjaði að stunda ólöglegt athæfi.“ Í síðari afplánuninni kláraði Guðmundur stúdentinn í fjarnámi frá Versló en hann er núna í félagsráðgjöf í HÍ. Á mynd má sjá Björgvin bróður Guðmundar, móður þeirra Valgerði, Þóri manninn hennar, Selmu dóttur Björgvins, Titu og fjárnámsstjóra Versló. Þegar allir hinir eru hálfvitar Guðmundur var handtekinn á Íslandi þann 28.desember árið 1999. ,,Á afmælisdegi systur minnar.“ „Guðmundur Ingi var með tíu aðstoðarmenn,“ sagði meðal annars í fyrirsögn DV um aldamótin, en handtaka Guðmundar taldist umfangsmesta e-töflumálið sem upp hafði komið á Íslandi á þessum tíma. Hvernig tilfinning er það að vera handtekinn? Þegar maður er í virkri neyslu heldur maður að maður sé með allt á hreinu. Það eru allir hinir sem eru hálfvitar. Þess vegna hugsar maður ekkert mikið um þessa hluti fyrr en eftir handtöku. Þá tekur hins vegar við tímabil þar sem menn vorkenna sjálfum sér voða mikið og sjá á eftir hlutum. En það tekur menn alveg tíma að átta sig á því hvað hefur gerst. Ég myndi segja að það hafi tekið mig alveg um hálft ár eftir handtöku að átta mig á stöðunni.“ Stundum heyrir maður að eftir að menn hafa verið handteknir, þá hringja þeir grátandi í mömmu sína og eru alveg miður sín. Svona eins og þá komi kjarninn í sjálfinu þeirra fram. Er þetta rétt lýsing? „Já. Það eru allir hræddir við að fara í fangelsi enda erum við öll bara mennsk sama hver við erum. Ég man til dæmis eftir því að stuttu áður en ég var handtekinn var ég að keyra framhjá Litla Hrauni að kvöldlagi. Byggingin er frekar og húsið var lýst upp í myrkrinu með kösturum. Og ég hugsaði með mér: Vá hvað það hlýtur að vera skelfilegt að vera þarna inni. Allt í einu er maður síðan í lögreglubíl að keyra í gegnum þetta hlið.“ Guðmundur segir upplifunina af því að vera handtekinn eða kominn í fangelsi vera eins og eitthvað sem er „óraunverulegt.“ „Í neyslu er maður ekki á jörðinni. Fólk er einfaldlega veikt.“ Guðmundur var settur í einangrun í sex vikur. Í einangrun má fanginn ekki tala við neinn nema fangaverði, ekki hitta neinn og ekki lesa neitt fréttatengt. Hvernig lifir maður það af að vera í einangrun í sex vikur, 25 ára? „Ég hef heyrt margar ljótar sögur af því að menn komi mjög illa út úr slíkri einangrun. En ég held nú að mér hafi tekist að komast ágætlega út úr þessu. Það bjargaði mér svolítið að ég varð rosalega veikur í tvær vikur á meðan einangrunin var. Eftir það fór ég í rútínu sem ég bjó mér til. Svaf á daginn, las á kvöldin og gerði æfingar á næturnar.“ Hvaða bækur lastu? „Það var nú frekar fátæklegt úrvalið á þessum tíma og fæstir að hugsa um það að vera með góðar bækur í fangelsum landsins. Bækurnar sem ég las voru flestar skrifaðar á sögutímum seinni heimstyrjaldarinnar eða gerðust á þeim tíma,“ svarar Guðmundur og brosir. Guðmundur segir alla hrædda við að fara í fangelsi og það sem gerist þar sé mjög líkt því sem fólk sér í bíómyndum eða sjónvarpi, nema þá kannski helst að klíkumyndun er ekki eins algeng. Guðmundur segist skilja þolendur sem vilja ekki að gerendur afpláni aðeins í stuttan tíma í lokuðum fangelsum. Þar beinir hann gagnrýninni hins vegar að dómskerfinu sem ítrekað dæmir menn í mun styttri fangelsisvist fyrir kynferðisbrot, misnotkun á börnum og fleira, á meðan aðrir fá mun lengri dóma fyrir önnur brot. Átta ár sem breyttu engu Guðmundur hlaut tólf ára dóm og sat inni í átta ár. Hann segir þennan tíma því miður ekki hafa breytt neinu. „Ef að hugsunin breytist ekki hjá manni er ekki hægt að gera ráð fyrir að þessi afplánun sé að gera gagn. Í raun er fangelsiskerfið á Íslandi byggt á mörg hundrað ára gömlu úreltu kerfi sem einfaldlega virkar ekki.“ Guðmundur segir fyrirmyndina vera það kerfi sem Norðurlöndin hafa tekið upp. Þar sem afplánun í lokuðu fangelsi er sem styst en langur tími tekinn í að byggja upp fólk og hvetja það til að snúa alveg við blaðinu. En það eru nú ekki allir sáttir við stutta fangelsisvist. Til dæmis þolendur kynferðisbrota. Á það alltaf rétt á sér að menn sitji ekki lengi inni í lokuðu fangelsi? „Ég skil þolendur kynferðisbrota vel enda er dómskerfið á Íslandi svo stórfurðulegt. Menn eru að fá mjög stutta dóma fyrir alvarleg kynferðisbrot eða brot gegn börnum, en síðan mun lengri dóma fyrir önnur brot sem ég þó ætla ekkert að gera lítið úr að séu líka alvarleg,“ segir Guðmundur en bætir við: „Tölfræðin hefur samt sýnt það í öllum brotamálaflokkum að menn eru líklegri til að fremja ekki aftur brot ef þeir sitja styttri tíma í lokuðu fangelsi en lengur í opinni afplánun. Þar sem líka er verið að veita aðstoð, virkja fólk til náms og fleira.“ Guðmundur segir margt hafa breyst til betri vegar frá því að hann hlaut fyrst dóm. „Við í Afstöðu, fangelsisyfirvöld og fleiri sem að þessum málum koma erum sem betur fer öll farin að tala í takt í dag. Það getur vel verið að við séum ekkert alltaf sammála því hvaða leiðir ætti að fara en við erum samt öll að vinna að sama markmiði.“ Sem dæmi nefnir Guðmundur námsleitina sem hann falaðist eftir á sínum tíma. „Þegar ég var í afplánun í seinna skiptið, var ég sendur á Akureyri. Þar samdi ég við prófessor um að leyfa mér að taka nám í lögfræði. En yfirvöld synjuðu því. Ég óskaði líka eftir því að klára stúdentinn en því var hafnað fyrst. Seinna gerði ég það reyndar því frá Kvíabryggju kláraði ég stúdentinn í fjarnámi frá Versló. Sem ég vil þó fyrst og fremst þakka fjárnámsstjóranum í Versló og skólameistaranum sem þá var þar. Síðan byrjaði ég í spænsku í háskóla Íslands, hætti því og er núna í félagsráðgjöf.“ Guðmundur segir að þótt samstarf Afstöðu og fangelsisyfirvalda sé gott í dag, hafi það ekki alltaf verið svo. „Ég fór sjálfur í gegnum nokkur ár þar sem ég var uppfullur af reiði og heift. Þannig var staðan þegar ég var sendur á Akureyri þegar spurðist út að ég ætlaði að bjóða mig fram til formanns Afstöðu. Því með fjarlægðinni sáu menn fyrir sér að ég væri meira úr leik.“ Guðmundur segir allt svona viðhorf hafa breyst hjá yfirvöldum. Og honum líka. Í reiði og heift voru samskiptin mín við yfirvöld ekki heldur góð og oft erfið á köflum. Því reiði og heift skilar á endanum engu. Þ að er líka vont fyrir alla þegar reiði og heift í samfélaginu gerir dómara svo hrædda að nú er það einfaldlega staðreynd að saklausir menn hafa verið sendir í afplánun fyrir kynferðisbrot sem þeir hafa ekki framið. Reiði og heift skilar aldrei góðu.“ Samtökin Afstaða hafa vaxið mjög mikið í umfangi síðustu árin. Þar starfa sem sjálfboðaliðar lögfræðingar, félagsráðgjafar, geðhjúkrunarfræðingur, kennari, hjúkrunarfræðingur og fleiri. „Við erum allt í senn: Stuðningsnet fyrir þá sem hljóta dóm og aðstandendur þeirra. Sem geta verið foreldrar og systkini, jafnvel afar og ömmur.“ Til viðbótar tekur félagið virkan þátt í málefninu innan stjórnsýslu og Alþingis. Til dæmis með því að skila inn umsögnum um lög eða reglugerð sem Alþingi er að vinna að, sitja í starfshóp á vegum ráðuneyta og fleira. „Í dag er ég í starfshópi heilbrigðisráðherra um stefnu stjórnvalda í skaðaminnkun, ég var í nefnd félagsmálaráðherra um bætta stöðu einstaklinga eftir afplánun og í nefnd heilbrigðisráðherra um afglpavæðingu neysluskammta.“ Þá segir Guðmunudr það hafa verið viðrað við sig að koma að starfshópi um heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga sem skipuð yrði af dómsmálaráðherra. Hvað með aðstoð innan fangelsanna fyrir sjálfseflingu og andlega líðan? „Það eru fleiri sálfræðingar og félagsráðgjafar í dag en þegar ég fór fyrst inn. Sem er jákvætt og þessir aðilar eru allir að reyna sitt besta. Samfangar eru hins vegar oft þeir sem eru á endanum bestu sálfræðingarnir. Þess vegna höfum við hjá Afstöðu mótmælt því að ekki sé lengur leyft að vera inni í herbergi hjá öðrum, þar sem hægt er að ræða saman í einrúmi. Við vitum öll hvað varð til þess að það var bannað, en við viljum meina að það komi meira gott úr því að leyfa það þegar stóra myndin er skoðuð.“ Þá segir Guðmundur miklu skipta hvernig samskiptin eru við fjölskyldur og ástvini á meðan fólk er í afplánun. „Ég var svo heppin að vera í mjög góðu sambandi við mína fjölskyldu og náði að efla þau tengsl á meðan á afplánun stóð. Oft er það ekki hægt, sérstaklega þegar neyslan hefur verið mikil og lengi. Sterk fjölskyldutengsl á meðan á afplánun stendur er þó eitt af því sem sannað er að hefur jákvæð áhrif.“ Guðmundur segir margt hafa breyst til betri vegar frá því að hann var fyrst handtekinn árið 1999. Auðvitað séu ekkert endilega allir sammála því hvaða leið skuli fara en almennt séu allir að vinna að sama markmiðinu: fangelsisyfirvöld, Afstaða og fleiri. Margir koma að sjálfboðaliðastarfi Afstöðu en félagið hefur vaxið mikið í umfangi síðustu árin. Ást og bjartsýni Margir kannast við að verða frekar meyrir þegar líður að jólum enda sá tími ársins sem tengsl og samvera fjölskyldna er hvað mest. Eru það jólin sem eru erfiðust? ,,Nei reyndar ekki. Afmælisdagar ástvina og jól eru reyndar ofboðslega erfiðir dagar. Það kvöld sem er samt langerfiðasti tíminn þegar maður er inni er gamlárskvöld,“ segir Guðmundur og vitnar í að margir sem hann þekkir og hafa sjálfir setið inni, segja slíkt hið sama. Guðmundur segir líka mikilvægt að horfa á forvarnir og aðstoð við vímuefnaneytendur. „Ég er ekki með tölfræðina yfir það en tel líklegt að vímuefni og neysla séu í flestum tilfellum einhverjir áhrifavaldar. Menn geta svo sem verið edrú þegar þeir fremja brotin en ef þú ert veikur af neyslu, þá ertu ekki í lagi þótt þú sért edrú stundina sem þú gerir eitthvað af þér,“ segir Guðmundur og nefnir heimilisofbeldi sem dæmi. „Ég myndi segja að í fyrri afplánuninni minni hafi það alveg tekið mig um eitt ár eftir að ég fór inn að ná áttum því fangelsisvistin var mér miklu stærra áfall þá. Í síðara skiptið var ég eldri, þroskaðri og þekkti umhverfið. Ég myndi lýsa þessu þannig að þegar fólk fer í fangelsi, þá tekur fyrst smá tíma að ná áttum en síðan aðlagast fólk ótrúlegustu aðstæðum og þannig er það líka þarna.“ En eftir fyrstu átta árin, var engin löngun til staðar að snúa við blaðinu þannig að þú gætir lifað sem frjáls maður? „Til hvers?“ spyr Guðmundur en útskýrir síðan: Þegar viðhorfið hjá manni breytist ekkert heldur maður áfram að gera það sem maður kann. Á meðan ég var inni breyttist ekkert í minni hugsun og ég sá líka enga ástæðu til þess. Fjölmiðlar höfðu birt af mér myndir, ég var ekki með neina menntun og því hugsaði maður bara: Það er enginn að fara að ráða mig í vinnu eftir þetta.“ En það er samt greinilega allt annað viðhorf hjá þér þegar þú ert dæmdur í seinna skiptið. Þannig að hvað breyttist? „Titu.“ Það sem bjargaði Guðmundi á endanum var að kynnast Titu en sjálfur segist Guðmundur vilja óska þess að einhver hefði gripið hann strax í fyrri afplánuninni, þá 25 ára, til þess að fá hann til að snúa við blaðinu. Sem hvarflaði ekki að honum að gera fyrr en mörgum árum síðar og þá aftur í fangelsi. Þess vegna segist Guðmundur brenna fyrir því að kerfinu á Íslandi verði breytt til samræmis við fangelsiskerfisins á Norðurlöndunum. Guðmundur er giftur Titu Ciprian Balea. Þegar þeir giftu sig árið 2014, var Guðmundur í afplánun í Danmörku. Því þar var hann handtekinn fyrir stórfellt fíkniefnasmygl árið 2012 og hlaut tólf ára dóm árið 2013. „Titu er ástæðan fyrir því að ég er á þeim góða stað sem ég er í dag. Ég væri ekki á þessum stað í lífinu ef ég hefði ekki kynnst honum.“ Og svo sannarlega eru þetta ekki orðin tóm. Ég kynnist Titu þegar ég fer út til Spánar aftur eftir fyrri afplánunina. Ég var heillengi að reyna að bjóða honum út að borða en ekkert gekk. Loks spurði ég: Hvað þarf til að þú samþykkir að fara út með mér? Og þá svaraði Titu: Þú þarft að vera edrú.“ Við það sat og Guðmundur hætti allri neyslu og reyndar öllu ólöglegu öðru líka. „Ég hætti öllu en fljótlega fór ég að hugsa: Bíddu, hvað á ég þá að gera? Því allir þurfa að lifa og framfleyta sér.“ Guðmundur fór því í feluleik. Feluleikurinn gekk út á að halda áfram þeirri iðju sem hann hafði lengi stundað, en fela það fyrir Titu. „Auðvitað var honum farið að gruna þetta undir lokin. En það breytti því ekki að þegar að ég var handtekinn í Danmörku þá fékk hann algjört sjokk.“ Guðmundur er virkur í starfi Samfylkingarinnar og hefur tekið þátt í ýmsum sjálfboðaliða- og félagsstörfum, meðal annars með Rauða krossinum og Frú Ragnheiði. Guðmundur óskar þess að tíminn sé nýttur með sér yngra fólki á meðan það er í afplánun, þannig að það sé líklegra til þess að snúa við blaðinu fyrr en ella. Þess vegna sé brýnt að breyta núverandi kerfi.Vísir/Vilhelm, einkasafn Að einhver grípi þig strax Guðmundur segir að það sé rétt að í fangelsum gildi ákveðinn valdastigi á milli fanga og að ekki séu öll brot litin sömu augu. Sumir lenda í einelti, það er litið niður á suma glæpi og sumir glæpir teljast verri en aðrir. Þetta er fangelsismenningin eins og hún er víðast hvar í heiminum. Það sem við þurfum hins vegar að breyta er kerfið sjálft því það eru fáir að koma betri út eftir vistina eins og kerfið er uppbyggt í dag.“ Mikill þroskamunur var á Guðmundi þegar hann hlaut fyrsta dóminn 25 ára og síðari að verða fertugur. „Þegar ungir menn hefja afplánun er enginn sem kemur og segir: Jæja, hvað viltu nú verða þegar þú ert orðinn stór? Það er því ekkert sem tekur við sem hvatning til að breyta, enginn sem grípur mann. Það er svona það fyrsta sem kemur upp í hugann minn þegar ég rifja það upp að hafa verið 25 ára að hefja fyrstu afplánunina mína.“ Guðmundur segir menn líka oft svo illa haldna þegar þeir koma fyrst í afplánun. Menn koma þarna inn reiðir og oft í áfalli. Jafnvel búnir að missa allt frá sér, sambönd slitna og karlmennskumenningin er samt þannig að það á ekki að vera neitt tilfinningalegt væl. Þótt auðvitað séu allir að drepast úr vanlíðan inn í sér.“ Félagið Afstaða var stofnað árið 2005 og nú líður að því að Guðmundur hafi gegnt formennsku í tíu ár. „Auðvitað sé ég fyrir mér að einhver annar hljóti bráðlega að fara að taka við. En þetta er svo sem ekki málaflokkur sem margir eru æstir í að vera sýnilegir út af,“ segir Guðmundur og kímir. Hjá Velferðasviði Reykjavíkurborgar starfar Guðmundur í málefnum heimilislausra og gistiskýla. Þá er hann í trúnaðarráði Rauða krossins, hefur verið sjálfboðaliði fyrir Frú Ragnheiði og tekur virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar. Meðal annars á flokksþingi Samfylkingarinnar þessa helgi. „Ég sé fyrir mér að vinna að fleiru þessum málum tengt og þess vegna er ég að læra félagsráðgjöfina. Ég bendi til dæmis á að við hjá Afstöðu erum örugglega fólkið sem þekkjum vímuefnaneytendur sem best. Því við erum að tala við fólk í neyslu daglega. Ég ætla klárlega að bjóða mig aftur fram í næstu kosningum og það truflar mig ekkert þótt sumir telji mig einna málaflokkamaður. Því ég er það alls ekki og hef alveg áhuga á að vinna að mörgu öðru. Ég tel líka mikilvægt að á Alþingi sitji þverskurður af þjóðinni og er því ekkert rosalega hrifinn af því hvað það er verið að lögfræðivæða allt stjórnkerfið eins og virðist vera.“ Til lengri framtíðar sjá Guðmundur og Titu fyrir sér að flytjast aftur til Spánar. Í augnablikinu eru það þó málefnin hér. Og þá helst málefni fanga. „Styttri tími í lokuðu fangelsi er að reynast vel erlendis. Og að gefa mönnum tækifæri á meðan þeir eru í afplánun því það er líklegasta leiðin til þess að forða samfélaginu frá því að fólk haldi áfram á sömu braut,“ segir Guðmundur og bætir við: „Ég er sjálfur dæmi um það.“
Fangelsismál Fjölskyldumál Fíkn Fíkniefnabrot Dómstólar Dómsmál Geðheilbrigði Góðu ráðin Helgarviðtal Mest lesið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Getur líka fengið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki“ Lífið Heitir og hýrir flugþjónar í suðrænni stemningu Lífið Katrín og Markus orðin tveggja barna foreldrar Lífið Emilíana Torrini einhleyp Lífið Benedikt og Sunneva Einars selja slotið Lífið Heitasti plötusnúður í heimi í Melabúðinni Lífið „Á erfitt með að gera mér í hugarlund eitthvað rómantískara“ Makamál Bannað að hlæja: Stressið allsráðandi í upphafi kvöldsins Lífið Fleiri fréttir Kaupmálar 50+: „Mér finnst uppkomin börn oft ansi frek til fjárins“ Framhald: „Málið er að mig langar ekki til að deyja“ Sjá meira