Skoðun

Það sem þú þarft ekki að vita

Helga Sigrún Harðardóttir skrifar

Flestir úr hópi almennings hafa litla vitneskju um og lítinn áhuga á stöðlum. Það er allt í lagi. Það er ekki endilega nauðsynlegt en mögulega áhugavert og jafnvel gagnlegt að vita, að staðlar tryggja öryggi okkar og auðvelda líf okkar á hverjum degi. Þeirra vegna er heimilið að mestu hættulaus griðastaður, þeirra vegna virka fjarskipti og stafræn kerfi og með þeim er öryggi og virkni raftækja, lækningatækja, persónuhlífa, leikfanga og annarra hluta tryggð. Þökk sé aðild að EES samningnum.

Við vitum að staðlar virka ef við vitum ekki af þeim. Þá bara gengur allt smurt. Við vitum hins vegar mjög vel ef þeir virka ekki eða eru ekki til staðar. Eins og þegar okkur vantar millistykki á hleðslutæki í útlöndum.

Viltu lægra verð og meiri gæði? Dæmi eru um að krafa sé gerð um notkun staðlaðra, og eftir atvikum vottaðra stjórnunarkerfa sem auka gagnsæi, bæta meðferð á opinberu fé og jafnvel draga úr spillingu (spillingu sem sem dregur úr gæðum, kemur í veg fyrir samkeppni og hækkar vöruverð).

Viltu eiga val? Í bígerð eru stöðluð flokkunarkerfi sem auðvelda neytendum að velja matvörur og fatnað út frá umhverfisáhrifum við framleiðslu þeirra. Þetta gæti verið sambærilegt kerfi og orkunýtingarflokkun raftækja sem við þekkjum svo vel.

Viltu samanburðarhæfar upplýsingar? Mælingar og meðferð upplýsinga á sviði loftslagsmála verða að vera staðlaðar til að neytendur hafi raunhæfan möguleika á samanburði milli valkosta og til að vinna gegn grænþvotti.

Viltu að tækin þín virki og séu örugg? Staðlaðar kröfur um virkni og öryggi neytendavara sem markaðssettar eru í Evrópu eru staðreynd í evrópsku regluverki sem tekið er upp hér, til að ekki sé verið að selja okkur hættulegt drasl.

Alþjóðlegi staðladagurinn er í dag, 14. október. Til hamingju með að njóta staðlaðs öryggis, gæða og virkni. Jafnvel þó þú hafir ekki hugmynd um það.

Höfundur er framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×