Fótbolti

Spánverjar fyrstir til að leggja Skota | Norðmenn völtuðu yfir Kýpverja

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spánverjar unnu mikilvægan sigur í kvöld.
Spánverjar unnu mikilvægan sigur í kvöld. Florencia Tan Jun/Getty Images

Spánnverjar urðu í kvöld fyrsta þjóðin til að leggja Skota í undankeppni EM 2024 er liðið vann 2-0 sigur í A-riðli. Á sama tíma gerðu Norðmenn góða ferð til Kýpur í sama riðli og unnu 4-0 útisigur.

Skotar voru með fullt hús stiga eftir fimm leiki fyrir leik kvöldsins og höfðu meðal annars unnið Spánverja í riðlinum í mars á þessu ári. Spánverjar hafa hins vegar verið á góðu skriði eftir atpið gegn Skotum og liðið hafði unnið fjóra leiki í röð fyrir leik kvöldsins.

Scott McTominay hélt að hann hefði verið að koma Skotum í forystu er hann setti boltann í netið á 60. mínútu í leik kvöldsins, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Alvaro Morata kom Spánverjum svo í forystu með marki á 74. mínútu áður en varamaðurinn Oihan Sancet innsiglaði sigur liðsins rúmum tíu mínútum síðar. Niðurstaðan því 2-0 sigur Spánverja sem nú eru með 12 stig eftir fimm leiki í öðru sæti A-riðils, þremur stigum á eftir Skotum sem hafa leikið einum leik meira.

Á sama tíma unnu Norðmenn öruggan 4-0 útisigur gegn Kýpur í sama riðli. Alexander Sorloth kom norska liðinu yfir í fyrri hálfleik áður en tvö mörk frá Erling Haaland og eitt frá Fredrik Aursnes gerðu út um leikinn í síðari hálfleik.

Norðmenn sitja því í þriðja sæti riðilsins með tíu stig, en Kýpverjar reka lestina án stiga.

Úrslit kvöldsins

A-riðill

Kýpur 0-4 Noregur

Spánn 2-0 Skotland

D-riðill

Lettland 2-0 Armenía

Króatía 0-1 Tyrkland

E-riðill

Albanía 3-0 Tékkland

Færeyjar 0-2 Pólland

I-riðill

Andorra 0-3 Kósovó

Belarús 0-0 Rúmenía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×