Innlent

„Ótrúlegur aumingjaskapur að þora ekki í fyrirspurnir við ráðherra“

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Þeim finnst auðveldara að fullyrða eitthvað þar sem þeim er ekki svarað,“ segir Hildur Sverrisdóttir um stjórnarandstöðuna.
„Þeim finnst auðveldara að fullyrða eitthvað þar sem þeim er ekki svarað,“ segir Hildur Sverrisdóttir um stjórnarandstöðuna. Vísir/Vilhelm

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sakar stjórnarandstöðuna um ráðaleysi og aumingjaskap fyrir að spyrja Bjarna Benediktsson einskis í kjölfar afsagnar hans sem fjármála- og efnahagsráðherra.

Klukkan 10:30 í dag voru á dagskrá Alþingis óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Stjórnarandstöðuþingmenn ákváðu þó að spyrja Bjarna ekki, og sumir þeirra héldu því fram að það væri vegna þess að hann væri ekki ráðherra lengur.

„Það er ótrúlegur aumingjaskapur að þora ekki í fyrirspurnir við ráðherra um þetta mál sem þau tjá sig talsvert um á öðrum vettvangi,“ segir Hildur um ákvörðun stjórnarandstöðunnar.

Hún segir liggja fyrir að stjórnarandstaðan þori ekki að ræða álit umboðsmanns Alþingis sem er ástæða þess að Bjarni segir af sér, jafnvel þó hann segist ósammála forsendum þess.

„Ég held að það sýni ráðaleysi varðandi þetta mál. Þeim finnst auðveldara að fullyrða eitthvað þar sem þeim er ekki svarað heldur en að taka samtalið við ráðherra.“

Hló yfir hugmynd um eigin ráðuneyti

Aðspurð um hvort hún væri sjálf á leið í ráðherrastól brast Hildur við með því að skella upp úr.

„Nei alls ekki. Ég átti ekki von á þessari spurningu,“ svaraði hún hlægjandi

Hildur fundaði í dag með forystufólki stjórnarflokkanna um komandi þingvetur. Hún segist ekki vita hvort Bjarni Benediktsson muni fara í annan ráðherrastól, eða hætta alfarið sem ráðherra. Hún voni þó að hann haldi áfram.


Tengdar fréttir

Bjarni segir hrókeringar lítið ræddar: „Með stærri at­burðum í mínu lífi“

Bjarni Bene­dikts­son, frá­farandi fjár­mála­ráð­herra og for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir að for­svars­menn ríkis­stjórnar­flokkanna noti til­efnið nú til að ræða stöðuna á kjör­tíma­bilinu og hvað sé fram­undan í sam­starfinu. Lítið hafi verið rætt um ráðu­neyta­skipan. Hann segir at­burði síðustu daga með þeim stærri í sínu lífi.

Nær­­mynd af Bene­dikt Sveins­­syni: Óvæntur ör­laga­valdur í pólitísku lífi sonarins

Bjarni Benediktsson tilkynnti um afsögn sína sem fjármála- og efnahagsráðherra í gær. Ástæðan varðaði kaup föður hans á hlut í Íslandsbanka, en það er ekki í fyrsta skipti sem faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, hefur áhrif á pólitískan feril sonarins. Benedikt hefur verið áberandi í íslensku samfélagi í áratugi. Hann hefur meðal annars verið kallaður „Stjórnarformaður Íslands“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×