Innlent

Bein út­­sending: Bjarni til svara í fyrir­­­spurna­tíma

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson mun senn láta af embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Hann verður til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma klukkan 10.30.
Bjarni Benediktsson mun senn láta af embætti fjármála- og efnahagsráðherra. Hann verður til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma klukkan 10.30. Vísir/Arnar

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra eru á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan 10:30. Þrír ráðherrar verða þar til svara, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra þar með talinn.

Gera má ráð fyrir hressilegum fyrirspurnartíma enda líklegt að þingmenn muni beina spjótum sínum að Bjarna sem tilkynnti um afsögn sína sem fjármála- og efnahagsráðherra í fyrradag.

Bjarni boðaði til blaðamannafundar á þriðjudagsmorgun vegna álits umboðsmanns Alþingis sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Tilkynnti Bjarni að hann hygðist segja af sér; hann væri ósammála forsendum en virti álit umboðsmanns.

Reiknað er með að boðað verði til ríkisráðsfundar um helgina og hefur verið nefnt að svo kunni að fara að Bjarni taki mögulega við öðru ráðherraembætti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sumir sagt slíkar hugmyndir úr korti.

Aðrir ráðherrar sem verða til svara í fyrirspurnatímanum eru Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

Hægt er að fylgjast með útsendingu úr þinginu í spilaranum að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×