Erlent

Ók inn á sendiskrif­stofu Kína og var skotinn til bana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nokkur viðbúnaður var á vettvangi eftir að atvikið átti sér stað.
Nokkur viðbúnaður var á vettvangi eftir að atvikið átti sér stað. AP/Bay Area News Group/Jane Tyska

Lögregla í San Francisco í Bandaríkjunum hefur skotið mann til bana sem ók bifreið sinni inn á sendiskrifstofu Kína í borginni. Lögregla var kölluð til eftir að atvikið átti sér stað og var maðurinn skotinn þegar hún mætti á vettvang.

Á myndskeiði má sjá bláa Hondu í anddyri byggingarinnar og fólk að flýja.

Í yfirlýsingu frá sendinefnd Kína er atvikið fordæmt og talað um „árás“. Maðurinn og bifreiðin hafi ógnað öryggi bæði starfsmanna og annarra. Málið verði rannsakað og seku látnir sæta ábyrgð.

Utanríkisráðuneyti Kína hefur sakað einstaklinginn sem skotinn var til bana um að hafa haft í hyggju að meiða fólk. Formleg kvörtun hefur verið send yfirvöldum í Bandaríkjunum og hluta skrifstofunnar lokað.

Að sögn lögreglu sást bifreiðin í anddyrinu þegar lögreglumenn bar að garði. Þeir fóru inn og fundu þar fyrir hinn grunaða. Skotið var á manninn og hann úrskurðaður látinn á spítala skömmu síðar.

Rannsókn málsins stendur yfir en lögregla hefur lítið viljað tjá sig. Engar fregnir hafa borist af slysum eða meiðslum hjá þeim sem voru inni í sendiráðinu þegar atvikið átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×