Golf

Bandarísk kona ætlar að keppa við karlana á PGA mótaröðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lexi Thompson þáði boð um að taka þátt í karlamóti og verður sjöunda konan í sögunni sem reynir slíkt.
Lexi Thompson þáði boð um að taka þátt í karlamóti og verður sjöunda konan í sögunni sem reynir slíkt. AP/Bernat Armangue

Bandaríski kylfingurinn Lexi Thompson verður sjöunda konan sem spilar á PGA mótaröðinni í golfi en hún mun keppa á móti í Las Vegas í næstu viku.

Thompson spilar vanalega á LPGA mótaröðinni sem er stærsta mótaröð kvenna. Hún hefur unnið ellefu mót á henni.

Lexi verður fyrsta konan síðan árið 2018 sem fær að taka þátt í móti þar sem bestu karlkylfingarnir eru að spila.

„Það er auðvitað mjög flott tækifæri fyrir mig að fá að spila við karlana. Það er eitt og sér gott en að fá líka tækifæri til að senda ungum stúlkum og ungum drengjum skilaboð um að enginn draumur er of fjarlægur. Ef þú trúir virkilega á eitthvað þá getur þú gert allt sem þig dreymir um,“ sagði Lexi Thompson.

Babe Zaharias varð fyrsta konan til að spila á PGA mótaröðinni en það var árið 1935. Síðan þá hafa þær Shirley Spork, Annika Sörenstam, Suzy Whaley, Michelle Wie West og Brittany Lincicome bæst í hópinn.

Lexi Thompson er 28 ára gömul. Hún hefur unnið eitt risamót á ferlinum en verið í öðru sæti á tveimur til viðbótar. Á nýjasta heimslistanum þá er hún í 25. sæti en hún endaði síðasta ár í sjötta sæti.

Mótið í Las Vegas hefst á fimmtudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×