Erlent

Segir Bret­land orðið ó­þekkjan­legt á al­þjóða­vett­vangi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands.
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. EPA-EFE/JAVIER ETXEZARRETA / PEUE /

Leo Vara­dkar, for­sætis­ráð­herra Ír­lands, segir að hann hafi á­hyggjur af því að hvernig Bret­land ein­angri sig á al­þjóða­vett­vangi, að því er fram kemur á vef Guar­dian.

Vara­dkar segir bresk stjórn­völd hafa gerst sek um ein­angrunar­hyggju með út­göngu sinni úr Evrópu­sam­bandinu, lækkun fram­laga til þróunar­mála og vegna hug­mynda stjórn­valda þar í landi um að segja skilið við mann­réttinda­sátta­mála Evrópu til að stemma stigu við komu flótta­fólks yfir Erma­sund.

Vara­dkar hitti í gær Rishi Sunak, for­sætis­ráð­herra Bret­lands á fundi í Granada á Spáni þar sem leið­togar 47 Evrópu­ríkja hittast á nýjum vett­vangi Evrópu­landa sem stofnaður var eftir inn­rás Rússa í Úkraínu.

Þar var hann sér­stak­lega spurður hvað sér finnist um hug­myndir Suella Bra­ver­man, innan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, um að stjórn­völd segi skilið við skuld­bindingar sínar gagn­vart mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu. Hún segist ekki viss um hvort hann þjóni til­gangi sínum á tímum líkt og nú þar sem ó­lög­legir inn­flytj­endur flykkist til Bret­lands, yfir Erma­sund, að hennar sögn.

„Ég þarf að vera hrein­skilinn. Það vekur hjá mér ugg að sjá Bret­land ein­angra sig frá heiminum - hvort sem það er þegar það lækkar fram­lög sín til þróunar­mála, eða hvort það er þegar það er þegar það yfir­gefur Evrópu­sam­bandið og núna þetta tal um að segja skilið við mann­réttinda­sátt­málann. Þetta er ekki það Bret­land sem ég þekki,“ segir írski for­sætis­ráð­herrann.

Vara­dkar sagði í gær í aðdraganda fundarins að hann hyggðist ræða þessi mál við breska starfsbróður sinn. Sunak fundaði einnig með Giorgiu Meloni, for­sætis­ráð­herra Ítalíu.

„Bret­land sem ég elska og dáist að er land Magna Carta, stjórnar­skrár­varinna réttinda, landið sem átti upp­tökin að þing­bundnu lýð­ræði og landið sem að­stoðaði við gerð evrópska mann­réttinda­sátt­málans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×