Erlent

Par og hundur urðu grá­birni að bráð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Í þjóðgarðinum búa um sextíu grábirnir.
Í þjóðgarðinum búa um sextíu grábirnir. EPA

Grábjörn drap kanadískt par og hund þeirra þegar þau gengu um Banff-þjóðgarðinn í Klettafjöllum í Kanada á föstudagskvöld.

Í tilkynningu frá Parks Canada, ríkisstofnun sem hefur eftirlit með þjóðgörðunum í landinu, segir að melding hafi borist úr GPS-tæki í eigu parsins á föstudagskvöld sem gaf til kynna að bjarnarárás gæti hafa orðið, sem reyndist síðan rétt. 

Björgunaraðilar þurftu að nálgast staðinn fótgangandi þar sem ekki var hægt að fljúga þyrlu að svæðinu vegna veðurs. Aðfaranótt laugardags fannst parið látið og hundurinn dauður en hjá þeim var björninn, sem sýndi ógnandi hegðun. Birninum var lógað í kjölfarið. 

Í frétt Reuters segir að algengara sé að koma auga á birni á þessum tíma árs, þegar þeir standa í ströngu við að afla sér fæðu áður en þeir leggjast í vetrardvala. 

Lokað verður fyrir umferð um svæðið þar sem árásin varð meðan á rannsókn stendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×