Rafíþróttir

Meistararnir sáu aldrei til sólar og eru enn án stiga

Snorri Már Vagnsson skrifar
þóratlantic

Ríkjandi meistarar Atlantic máttu þola stórt tap er liðið mætti Þór í þriðju umferð Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO í kvöld.

Leikurinn fór fram á Overpass og var þar með fyrsti leikurinn þar á tímabilinu. Þórsarar tóku hnífalotu leiksins og völdu að byrja í vörn. Í skammbyssulotu fyrri hálfleiks áttu Þórsarar fína endurtöku á A-svæði Overpass og tóku fyrstu lotuna. Þórsarar voru heldur betur í gír í byrjun leiks og tóku fyrstu fjórar lotur leiksins. Eftir mistök hjá Allee, leikmanni Þórsara, náði Atlantic að vinna sína fyrstu lotu og koma miklum efnahagsskaða á Þórsara.

Þórsarar létu það þó ekki á sig fá, enda virtist allt í leiknum falla Þórsurum í hag. Lotu eftir lotu gerðu Þórsarar allt rétt þrátt fyrir að Atlantic væri að komast inn á sprengjusvæði og náðu að planta henni margsinnis. Þórsarar tóku leikinn alveg í eigin hendur og sigruðu hvorki meira né minna átta lotur í röð, staðan þá orðin 12-1. Atlantic var heldur betur fjarri góðu gamni í fyrri hálfleik, þó svo að Overpass sé almennt talið hentugra til að spila vörn á heldur en sókn.

Staðan í hálfleik: 13-2

Atlantic þurfti heldur betur að byrja seinni hálfleik vel til að eiga séns á að taka eitthvað úr leiknum. Hugo, leikmaður Atlantic sá til þess þegar honum tókst að fella Þórsara á sprengjusvæði B og aftengja sprengjuna. Þrátt fyrir að taka skammbyssulotu seinni hálfleiks náðu þeir aldrei tánum þar sem Þórsarar höfðu hælana og einstaklega sannfærandi sigur Þórsara var þar með í höfn.

Lokatölur: 16-3

Þórsarar eru því komnir með sinn annan sigur á tímabilinu en Stórmeistarar í Atlantic eru enn á botni deildarinnar, án stiga.






×