Handbolti

Dómarar bendlaðir við hag­ræðingu úr­slita eru í dómara­hóp á EM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norður-makedónsku dómararnir Gjorgji Nachevski og Slave Nikolov með eftirlitsdómaranum Ramon Gallego.
Norður-makedónsku dómararnir Gjorgji Nachevski og Slave Nikolov með eftirlitsdómaranum Ramon Gallego. Getty/Axel Heimken

Ísland á tvo dómara á Evrópumótinu í handbolta sem fer fram í Þýskalandi í janúar en þeir eru þar í hópi með tveimur umdeildum dómurum.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson verða meðal dómara á mótinu en þeir hafa dæmt saman á þremur síðustu Evrópumótum.

Danski handboltaáhugamaðurinn Rasmus Boysen benti á það að í hópnum væru hins vegar dómarapar sem hefur komið sér í fréttirnar fyrir annað en góða frammistöðu með flautuna.

Meðal átján dómara sem fá þá flottu viðurkenningu að dæma á EM eru nefnilega Norður-Makedóníumennirnir Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski.

Danska sjónvarpsstöðin TV2 fór bak við tjöldin og kannaði það hversu tilbúnir sumir dómarar eða eftirlitsdómarar væru til að liggja mútur fyrir að hagræða úrslitum.

Umræddir Nikolov og Nachevski voru bendlaðir við hagræðingu úrslita í myndinni en þeir hafa lengi verið ofarlega í goggunarröðin evrópskra dómara og dæmdu meðal annars úrslitaleikinn á Evrópumótinu 2020.

Króatíska dómaraparið Matija Gubica og Boris Milosevic, sem hafa margoft verið kosnir þeir bestu í heimi, verða ekki meðal dómara mótsins en þeir hafa átt þar fast sæti í mörg ár. Þeir voru líka bendlaðir við hagræðingu úrslita í umræddri heimildarmynd TV2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×