Skoðun

Lygarinn, ég?

Jón Ármann Steinsson skrifar

Það er óþægilegt að vera kallaður lygari.

Fréttir um meintan kennslastuld ICELANDIA urðu Birni Ragnarssyni forstjóra Kynnisferða tilefni til að koma með eftirfarandi yfirlýsingu um mig: „Kynnis­ferðir hafa aldrei komið fram undir firma­heitinu ICELANDIA hf eða ICELANDIA ehf, heldur að­eins notað það sem vöru­merki til auð­kenningar á starf­semi sinni. Við vísum því öllum að­dróttunum og á­sökunum Jóns Ár­manns til föður­húsanna.“

Ég fór að gúgla og hér eru nokkrar perlur úr fréttatilkynningum ICELANDIA (lesist Kynnisferða). Athugið að Kynnisferðir áttu hvorki skráð firmanafn né skráð vörumerki þegar þessar yfirlýsingar birtust í fjölmiðlum.

Mbl 13.07.2022: „Stjórn­ar­formaður ICELANDIA er Jón Bene­dikts­son, sem hef­ur verið stjórn­ar­formaður Kynn­is­ferða frá ár­inu 2017 og stjórn­ar­maður frá ár­inu 2015.”

Okei, Jón er orðinn stjórnarformaður vörumerkis ofan á önnur stjórnarstörf sem hann hefur gegnt síðan 2017.

Viðskiptablaðið, 17.05.2022: „Kynnisferðir verða ICELANDIA”

Er verið að breyta vörumerkinu Kynnisferðir yfir í vörumerkið ICELANDIA?

Meginefni fréttarinnar er: „Samstæða fyrirtækjanna Reykjavik Excursions/Kynnisferða, Icelandic Mountain Guides, Iceland Rovers, Dive.is auk starfsemi Flybus hefur fengið nafnið Icelandia.“

Hér er bland í poka vörumerkja og firmanafna. Dive.is er hvorki firmanafn né vörumerki. Flybus er vörumerki og hér hefur „starfsemin“ fengið nafnið ICELANDIA. Samstæðan líka.

Nota bene, samstæða fyrirtækja er orðfæri upp úr firmalögum, þ.e móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki, sem stundum var kallað „group“ fyrir hrun. Þeir hugsa stórt þessir - eh, um vörumerkið sem þeir eiga ekki, meina ég. Vörumerkjasamstæða?

Visir.is, 17.05.22: „Fyrirtæki ICELANDIA eiga sér langa sögu í íslenskri ferðaþjónustu en Kynnisferðir (e. Reykjavik Excursions) er eitt elsta ferðaþjónustu fyrirtæki landsins…”

Vúps. Innsláttarvilla? Þarna átti auðvitað að standa „vörumerki ICELANDIA”.

Visir.is, 17.05.22: „ICELANDIA er einnig umboðsaðili Enterprise Rent-a-car bílaleigunnar…” Samkvæmt Birni þá er hér óskráð vörumerki umboðsaðili erlends vörumerkisins.

Veit Enterprise þetta fyrirkomulag og eru þeir bara sáttir?

Visir.is, 17.05.22: „Auk þess er ICELANDIA hluthafi í nokkrum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum eins og Fontana á Laugarvatni, Íslenskum Heilsulindum og Raufarhólshelli.”

Ja hérna, er vörumerkið ICELANDIA nú orðið að hluthafa líka?

Á Linkedin eru 24 starfsmenn ICELANDIA. Varla starfa þeir hjá óskráðu vörumerki? Merkið sem hér er sýnt í mynd var synjað skráningu hjá Hugverkastofu.

Linkedin, 26.09.23: Björn Ragnarsson, Chief Executive Officer. ICELANDIA. Ef Björn vill vera titlaður framkvæmdastjóri vörumerkis á Linkedin þá þarf hann að breyta þessari skráningu.

Hvað er satt og hvað er logið, Björn? Einhvern veginn finnst mér þessi kvæðisbútur eftir Stephan G. Stephansson eiga við hér í lokin:

Örðug verður úrlausn hér,

illa stend að vígi. –

Hálfsannleikur oftast er

óhrekjandi lygi.

Höfundur er eigandi og framkvæmdastjóri ICELANDIA EHF.


Tengdar fréttir

Ferðarisi að laumupúkast undir fölsku nafni

Sunnudag í lok apríl í fyrra krullaði ég tærnar í sandfjöru suður í Króatíu. Síminn hringdi og forstjóri Kynnisferða var á línunni; „Sæll Jón. Viltu selja okkur firmanafnið ICELANDIA?”




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×