Lífið

Segir erfitt að átta sig á hvað Bruce Willis geri sér grein fyrir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Emma og Bruce Willis á góðri stundu.
Emma og Bruce Willis á góðri stundu. VCG/Getty

Emma Heming Willis, frum­kvöðull, fyrir­sæta og eigin­kona Bruce Willis, Hollywood leikara, segir erfitt að vita hvort að hann geri sér grein fyrir því að hann sé heila­bilaður. Viðtal við Emmu má horfa á neðst í fréttinni.

Þetta er í fyrsta skipti sem Emma tjáir sig um veikindi hans opin­ber­lega. Fjöl­skylda hans greindi frá því í febrúar fyrr á árinu að hann væri með fram­heila­bilun. Áður til­kynnti leikarinn í mars í fyrra að hann væri hættur að leika þar sem hann væri með mál­stol.

„Ég er að kynnast því á eigin skinni hvað heila­bilun er erfið. Hún er erfið fyrir mann­eskjuna sem greinist með hana, en hún er líka erfið fyrir fjöl­skylduna, þetta er fjöl­skyldu­sjúk­dómur,“ segir Emma sem ræddi veikindi eigin­mannsins í sjón­varps­þættinum Today á NBC sjón­varps­stöðinni.

Emma og Bruce giftu sig árið 2009. Emma segir að fjöl­skyldan reyni að vera opin­ská með sjúk­dóminn, bæði innan heimilisins og utan þess. Þau eiga saman tvær ungar dætur og þá átti Bruce fyrir þrjár upp­komnar dætur með Demi Moor­e, leik­konu.

„Það var okkur mjög mikil­vægt að ræða þetta við dætur okkar, af því að ég vil ekki að það fylgi þessu nein skömm,“ segir Emma. Hún segir eigin­mann sinn hamingju­saman þrátt fyrir allt.

„Hann er gjöf sem heldur á­fram að gefa. Ást­ríkur. Þolin­móður. Sterkur. Það er svo mikið sem hann kennir mér og allri fjöl­skyldunni. Mér finnst ekki þægi­legt að vera hér, þetta er ekki minn þæginda­hringur. Þetta er krafturinn sem ég hef frá Bruce.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×