Tíska og hönnun

Ís­lensk fyrir­sæta á­berandi á tísku­pöllum Mílanó

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Alísa Helga var glæsileg á sýningu tískurisans Luisa Spagnoli á dögunum á tískuvikunni í Mílanó.
Alísa Helga var glæsileg á sýningu tískurisans Luisa Spagnoli á dögunum á tískuvikunni í Mílanó. Alena Zakirova/Getty Images

Íslenska fyrirsætan Alísa Helga Svansdóttir hefur verið að gera það gott í tískuheiminum en hún er búsett á Ítalíu um þessar mundir. Hún hefur verið áberandi á tískuvikunni í Mílanó sem kláraðist í gær en blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að heyra nánar frá.

Alísa, sem er á skrá hjá íslensku módelskrifstofunni Ey Agency, tók meðal annars þátt í sýningum tískurisanna Luisa Spagnoli og Philipp Plein og segir hún þetta hafa verið mikið ævintýri. Síðustu vikur séu þó búnar að vera mjög viðburðaríkar og lítið hafi verið um svefn. 

Alísa klæddist bleikum kjól og gylltu, fyrirferðarmiklu skarti eftir Luisu Spagnoli.Rosdiana Ciaravolo/Getty Images

Mikil keyrsla í kringum tískuvikuna

„Við kærastinn minn erum búin að sofa í fjóra tíma á næturnar og höfum ekkert náð að vera heima. Við vöknum klukkan átta á morgnana, hoppum í sturtu, grípum okkur kaffi og erum svo á hlaupum yfir daginn.

Tískuvikan virkar þannig að þú þarft að vera í Mílanó í mánuð og í tvær vikur ertu að fara í prufur. Við erum búin að vera að fara í fimm til sex prufur á dag og þær geta verið hvar sem er um Mílanó. Þannig að við erum búin að ferðast um alla borg með alls konar ferðamáta. 

Þessar tvær vikur eru alltaf extra klikkaðar því þú hefur ekki tíma fyrir neitt nema prufurnar. Svo kemurðu heim seint á kvöldin. Stuttu síðar færðu að vita hvort þú fékkst verkefnið eða ekki, svo hittirðu fólkið sem vinnur fyrir tískumerkin.“

Alísa Helga segir að ef þú kemst svo áfram í næstu prufur hafir þú gjarnan eina til tvær mínútur til að sanna þig fyrir verkefnið. Þú gengur fram og til baka, sýnir persónuleika þinn, það eru teknar myndir af þér og fleira.

„Svo færðu kannski símtal að þú fáir að koma til baka. Þá er mátun og það er líklegt að þú fáir verkefnið en maður veit aldrei. Það getur allt gerst. Ef þeim finnst fötin ekki passa við þig þá geturðu kannski misst verkefnið og kærastinn minn hefur til dæmis lent í því. Það getur líka bara velt á því í hvernig gír kúnninn er.“

Alltaf gaman að ganga tískupallinn

Hún segir sýningartímabilið alltaf skemmtilegt en líka stressandi.

„Þú vilt ekki valda neinum vonbrigðum. Áður en þú ferð á sviðið er hjartað alveg á fullu en um leið og þú ert byrjuð þá slakarðu án efa á. Það er allavega þannig hjá mér. Ég reyni að hugsa ekki um neitt nema ef ég er til dæmis í síðum kjól þá reyni ég auðvitað að vera meðvituð um að stíga ekki á kjólinn og detta ekki,“ segir Alísa Helga og hlær.

„Það er alltaf góð reynsla að ganga tískupallinn og það er að mínu mati skemmtilegast við starfið. Orkan og fólkið, þú kynntist svo mikið af fólki og æsifréttamenn (e. paparazzi) bíða fyrir utan til að taka myndir. Manni líður eins og stjörnu og þú færð mikið af athygli, fylgjendafjöldinn eykst á Instagram og þú ert að byggja upp þitt nafn innan tískuheimsins.“

Fór með eina ferðatösku og ætlaði að vera í mánuð úti

Lífið umturnaðist í byrjun árs hjá Alísu Helgu. Hún var byrjuð í lyfjafræði við Háskóla Íslands og hefði ekki getað ímyndað sér hvernig árið ætti eftir að þróast.

„Ég flutti til Mílanó núna í byrjun febrúar, nítján ára gömul. Ég ætlaði aldrei að flytja og ætlaði bara að vera í einn til tvo mánuði. Svo kynntist ég Manu, kærastanum mínum, og við fórum að búa saman eiginlega strax. 

Ég var bara með eina ferðatösku og ekkert annað. 

Það er auðvitað búið að vera smá erfitt að vera ekki heima og ég sakna mömmu og pabba mjög mikið, ég er svo mikil mömmu og pabba stelpa. Þannig að það er búið að vera smá skrýtið að vera ein og ég þurfti að læra að gera allt sjálf, ég borga íbúðina sjálf og uppihald.“

Stórglæsileg í bleikum galakjól frá Luisu Spagnoli. Alena Zakirova/Getty Images

Hún hefur þó verið fljót að aðlagast umhverfinu.

„Núna er ég farin að skilja og tala ítölsku og tala spænsku við Manu því hann er frá Argentínu. Það var auðvitað erfitt að flytja í burtu frá Íslandi en það voru svo mörg góð tækifæri hér í Mílanó sem ég gat ekki misst af. Ég er ennþá í háskólanum heima og hef þurft að gera allt á netinu þannig að síðustu mánuðir hafa einkennst af miklum breytingum.“

Eitt já og hundrað nei

Hún segir að þó að lífið sé mikið ævintýri sé auðvitað líka erfitt að vera úti.

„Þú ert mikið í prufum og oft geturðu fengið nei og það er náttúrulega ekki jafn skemmtilegt. Á bak við eitt já eru oft svona hundrað nei,“ segir Alísa Helga og hlær.

„Þetta er líka alltaf háð því hvað kúnninn vill og hverju er verið að leitast eftir hverju sinni.“

Alísa Helga fyrir Philipp Plein. Pietro D'Aprano/Getty Images

Hún segir þetta þó hafa gengið mjög vel hjá sér og mörg spennandi verkefni komið í kjölfarið á því að vera úti. Hún er á skrá hjá Ey Agency hérna heima og segir Andreu og Tinnu sem reka það vera ómetanlegur stuðningur, sem og Irena sem rekur Eskimo Worldwide.

„Án þeirra væri ég 100% ekki að gera þetta núna því ég er búin að fá svo mikinn stuðning frá þeim og þær eru svona mömmur númer tvö. Ég er svo þakklát fyrir þær og þær sögðu við mig að ég ætti að kýla á það að fara til Mílanó.“

Alísa Helga nýtur lífsins og ævintýranna í Mílanó og segist vera búin að kynnast mikið af nýju og áhugaverðu fólki.

„Núna þekki ég þokkalega marga hérna, þetta er pínulítil borg og allir þekkjast frekar vel innbyrðis. Þetta hefur 100% líka verið erfitt en allt í allt er ég ánægð með þessa ákvörðun hjá mér að flytja út,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.