Erlent

Meintur barna­níðingur gómaður eftir svið­setningu á eigin dauð­daga

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mynd af Mississippi-ánni þar sem Melvin Emde var talinn hafa drukknað.
Mynd af Mississippi-ánni þar sem Melvin Emde var talinn hafa drukknað. EPA

Bandarískur maður sem er grunaður um að sviðsetja eigin dauðdaga til að forðast saksókn í barnaníðsmálum var handtekinn á síðastliðinn sunnudag eftir að hafa reynt að flýja frá lögreglu í Georgíuríki Bandaríkjanna.

Maðurinn sem um ræðir heitir Melvin Emde. Hann er sagður hafa verið að aka mótorhjóli þegar lögregla gerði tilraun til að stöðva hann, vegna þess að engin númeraplata var á hjólinu. CNN fjallar um málið.

Hins vegar hafi Emde reynt að flýja frá lögreglunni, en lent í árekstri. Síðan er hann sagður hafa gert tilraun til að hlaupa frá vettvangi, en lögreglan náð honum á endanum. Þá hafi hann gefið upp rangt nafn, og lögreglan ekki komist að því hver hann væri í raun og veru fyrr en eftir rannsókn á fingraförum hann.

Sonur Emde tilkynnti um hvarf hans í byrjun ágústmánaðar. Hann sagði að í kajak-ferð um Mississippi-ánna í Louisianaríki hefði faðir sinn dottið úr báti sínum.

Í kjölfarið hóf lögregla leit að honum með leitarhundi og dróna, en áður enn langt um leið fékk hún fregnir af því að hann væri grunaður um alvarleg brot í öðru ríki. Emde hafði verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, þar á meðal var nauðgunarákæra.

Lögreglu taldi því að ekki væri allt með feldu og grunaði að hann hefði sviðsett eigin dauðdaga, en vildi ekki tilkynna það opinberlega í von um að Emde fengi ekki fregnir af grunsemdunum.

Annað studdi við þessa tilgátu, líkt og að Emde hefði keypt tvo ódýra farsíma daginn áður en hann átti að hafa fallið á ána.

Í tilkynningu frá lögreglunni vestanhafs kemur fram að Emde geti nú búist við því að horfast í augu við málin sem hann hefur verið ákærður fyrir. Þá rannsakar lögreglan nú hvort hann hafi sviðsett eigin dauðdaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×