Erlent

Ung­barn lést vegna of­skammts af fenta­nýli

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Búið er að ákæra eigendur dagheimilisins fyrir fíkniefnabrot og manndráp.
Búið er að ákæra eigendur dagheimilisins fyrir fíkniefnabrot og manndráp. EPA

Eins árs gamall drengur lést eftir að hafa innbyrt fentanýl á dagheimili í Bronx-hverfi í New York borg í síðustu viku.

Drengurinn hafði einungis dvalið á dagheimilinu í eina viku þegar harmleikurinn átti sér stað. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði efnið verið falið undir dýnu í hvíldarherbergi dagheimilisins meðan hann hvíldi sig. 

Þrjú önnur börn á bilinu átta mánaða til tveggja ára voru flutt á sjúkrahús eftir að hafa komist í snertingu við efnið. 

Eigendur dagheimilisins hafa verið ákærðir fyrir fíkniefnabrot og manndráp í tengslum við málið. Við húsleit á dagheimilinu fannst kíló af fentanýli undir dýnunni þar sem börnin höfðu hvílt sig. Að sögn lögreglu nægir það magn til þess að ráða fimmhundruð þúsund manns bana. 

Grunsamleg atburðarás

Grei Mendez, eigandi dagheimilisins, kveðst ekki hafa vitað að efnin væru inni á heimilinu. Upptökur öryggismyndavéla sýna að Mendez hafi ítrekað hringt í eiginmann sinn eftir að hafa komið að börnunum fjórum, áður en hún hringdi á neyðarlínuna. 

Þá sést eiginmaður hennar mæta á staðinn og fjarlægja nokkra fulla poka af dagheimilinu, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum. Hann hefur enn ekki gefið sig fram til lögrgelu og leit að honum stendur nú yfir. 

Þá virðist Mendez hafa eytt um tuttugu þúsund smáskilaboðum úr símanum sínum áður en lögregla lagði hald á hann, að sögn saksóknara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×