Fótbolti

Vaxandi meiðslalisti setji fullkomna byrjun City í hættu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bernardo Silva fór meiddur af velli í gær og Guardiola hefur áhyggjur af stöðu mála.
Bernardo Silva fór meiddur af velli í gær og Guardiola hefur áhyggjur af stöðu mála. Marc Atkins/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur áhyggjur af því að liðið gæti lent í vandræðum á komandi vikum vegna fjölda meiðsla.

Englands- og Evrópumeistarar Manchester City unnu sinn sjöunda leik í röð á tímabilinu er liðið tók á móti Rauðu stjörnunni frá Serbíu í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi. Sigurinn kostaði þó sitt þar sem miðjumaðurinn Bernardo Silva þurfti að fara meiddur af velli.

City var aðeins með sex útileikmenn á varamannabekk sínum í gær og Silva er nú kominn á meiðslalistann með þeim Kevin de Bruyne, Jack Grealish, Mateo Kovacic og John Stones, en Guardiola telur að Silva verði frá í nokkrar vikur.

„Við erum í vandræðum, en ég ætla ekki að segja: „Við erum að glíma við mikil meiðsli, svona er þetta bara,““ sagði Guardiola eftir sigur City í gær.

„En við munum keyra á þetta með þá leikmenn sem eru klárir. Svo lengi sem við erum með rétt hugarfar ættum við að vera í fínum málum.“

Lærisveinar Guardiola eiga strangt prógram fyrir höndum, en liðið leikur fimm leiki á næstu átján dögum. Þar á meðal mætir liðið Newcastle í enska deildarbikarnum, RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.

„Það eru margir mikilvægir leikmenn meiddir og að halda lengi út þannig væri erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×