Fótbolti

Kane kemur nafna sínum til varnar og segir hann hafa verið gerðan að blóraböggli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane hlustar ekki á gagnrýnina sem Harry Maguire hefur mátt þola.
Harry Kane hlustar ekki á gagnrýnina sem Harry Maguire hefur mátt þola. Lewis Storey/Getty Images

Harry Kane, leikmaður Bayern München og fyrirliði enska landsliðsins, hefur komið samherja sínum hjá enska landsliðinu, Harry Maguire, til varnar eftir þá gagnrýni sem sá síðarnefndi hefur mátt þola undanfarnar vikur.

Bayern München tekur á móti Manchester United í A-riðli Meistaradeildarinnar annað kvöld, en Maguire verður ekki með United vegna meiðsla.

Maguire hefur þurft að hlusta á háværa gagnrýni undanfarnar vikur fyrir frammistöðu sína með Manchester United og enska landsliðinu og ekki lækkuðu raddirnar þegar hann skoraði sjálfsmark í 3-1 sigri Englands gegn Skotum í síðustu viku.

Liðsfélagi hans í enski landsliðinu, Harry Kane, hefur þó engan áhuga á að hlusta á þessa gagnrýni og segir Maguire vera einn af bestu varnarmönnum Englands.

„Það er búið að gera hann að blóraböggli. Hann er góður vinur minn, frábær náungi og leikmaður sem leggur virkilega hart að sér,“ sagði Harry Kane um nafna sinn Maguire á blaðamannafundi í dag.

„Hann er búinn að vera einn af betri varnarmönnum Englands undanfarin ár og jafnvel í sögunni,“ hélt Kane áfram. „Þetta er orðið hluti af leiknum núna, að talað sé niður til þín á samfélagsmiðlum. En ég þekki hann og ég veit að það eina sem hann vill gera er að leggja meira á sig, bæta sig og halda einbeitingunni.“

Leikur Bayern München og Manchester United hefst klukkan 19:00 annað kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×