Erlent

Borgar­stjóranum mögu­lega meinað að sækja við­burði í Buchenwald

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jörg Prophet er umdeildur en virðist eiga góða möguleika á því að verða næsti borgarstjóri Nordhausen.
Jörg Prophet er umdeildur en virðist eiga góða möguleika á því að verða næsti borgarstjóri Nordhausen. AfD Nordhausen

Svo getur farið að borgarstjóranum í Nordhausen í ríkinu Thuringia í Þýskalandi verði bannað að sækja atburði til minningar um helförina sem haldnar verða í Buchenwald og Mittelbau-Dora.

Jörg Prophet, frambjóðandi Annars valkosts fyrir Þýskaland, á góða möguleika á því að verða næsti borgarstjóri Nordhausen en hann hefur vakið mikla athygli og gagnrýni fyrir grein sem birtist árið 2020, á afmæli sprengjuárása bandamanna á borgina undir lok seinni heimstyrjaldarinnar.

Sagði Prophet meðal annars að sigurvegarinn í stríðnu hefðu verið á sama siðferðilega plani og nasistarnir og að bandamenn hefðu aðeins frelsað Mittelbau-Dora til að komast yfir hernaðarleyndarmál á staðnum.

Kallaði Prophet eftir endalokum „sektarkenndarkúltúr“ í Þýskalandi en um er að ræða hugtak sem stuðningsmenn Annars valkosts hafa notað um nútímanálgun Þjóðverja við helförina.

Jens-Christian Wagner, framkvæmdastjóri Buchenwald og Mittelbau-Dora stofnunarinnar, segir sigur Prophet myndu þýða algjöran viðsnúning frá þeirri hefð Þjóðverja að halda minningunni um helförina á lofti.

„Ef Prophet væri þegar borgarstjóri Nordhausen hefði hann þurft að segja af sér á grundvelli þessara ummæla einna,“, sagði Wagner á blaðamannafundi í gær. Hann sagði að Prophet væri velkomið að heimsækja búðirnar en yrði meinuð þátttaka í viðburðum í virðingarskyni við þá sem létust þar.

Öryggisyfirvöld í Þýskalandi hafa flokkað Annan valkost í Thuringia sem öfgahóp. 

Um 20.000 gyðingar og pólitískir fangar létust í Mittelbau-Dora, undirbúðum Buchenwald, sem voru starfræktar frá ágúst 1943 til apríl 1945. Myndir úr búðunum voru meðal þeirra fyrstu sem fóru um heimin og sýndu fram á hroðaverk nasista.

Annar valkostur nýtur 32 prósenta fylgi í Thuringia samkvæmt skoðanakönnunum. 

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×