Erlent

Mynd­band sýnir starfs­mann skóla slá þriggja ára barn í hausinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir starfsmanninn slá þriggja ára drenginn í höfuðið. Starfsmanninum hefur verið vikið úr starfi og lögreglan rannsakar málið.
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir starfsmanninn slá þriggja ára drenginn í höfuðið. Starfsmanninum hefur verið vikið úr starfi og lögreglan rannsakar málið. Facebook

Myndband úr öryggismyndavél úr skóla í Ohio-ríki Bandaríkjanna sýnir það þegar starfsmaður skólans hleypur á eftir þriggja ára barni, slær það í hausinn sem veldur því að barnið fellur til jarðar, en í kjölfarið tekur starfsmaðurinn barnið upp á fótleggjunum.

CNN greinir frá þessu, en í umfjöllun miðilsins kemur fram að barnið sé þriggja ára drengur sem glími við málvanda og sé einhverfur.

Skólinn sem um ræðir heitir Rosa Parks Early Learning Center og er staddur í borginni Dayton. Í yfirlýsingu frá stofnuninni er greint frá því að starfsmaðurinn sem sést á myndbandinu hafi verið vikið frá störfum, annars vilji skólinn ekki tjá sig um einstaka mál.

David Lawrence, talsmaður skólans, hefur einnig sent CNN yfirlýsingu vegna málsins þar sem að fram kemur að það sem sjáist á myndbandinu sé í mikilli andstöðu við þjálfun starfsfólks í skólanum.

Atvikið sem myndbandið sýnir átti sér stað í ágústmánuði, en foreldrar drengsins gagnrýna að það hafi tekið þá þrjár vikur að fá myndbandið afhent. Þá taka þau fram að um hafi verið að ræða annan skóladag drengsins.

Móðir drengsins Neisha Monroe birti myndbandið á Facebook-síðu sinni.

Málið er nú á borði lögreglunnar í Dayton, sem segist skoða hvort mögulegt sé að sækja skólann eða starfsmanninn til saka. Þá skoða foreldrar drengsins jafnframt réttarstöðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×