Enski boltinn

Sancho fór í afmæli til NBA-stjörnu í fríinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho og Aaron Wan-Bissaka voru vel skreyttir í afmæli körfuboltamannsins Johns 
Jadon Sancho og Aaron Wan-Bissaka voru vel skreyttir í afmæli körfuboltamannsins Johns 

Í staðinn fyrir að setja undir sig hausinn og æfa af krafti nýtti Jadon Sancho, leikmaður Manchester United, landsleikjahléið til að fara til New York.

Sancho er ekki í náðinni hjá Erik ten Hag, knattspyrnustjóra United. Hann valdi hann ekki í leikmannahóp liðsins gegn Arsenal um þarsíðustu helgi. Eftir leikinn kvartaði Sancho sáran yfir illri meðferð á samfélagsmiðlum og sagðist vera gerður að blóraböggli.

Framtíð Sanchos er í óvissu og hann var meðal annars orðaður við félög í Sádi-Arabíu áður en félagaskiptaglugganum var lokað þar í landi. Hann fór hins vegar ekki neitt.

Ástæðan sem Ten Hag gaf fyrir fjarveru Sanchos gegn Arsenal var að hann hefði ekki staðið sig nógu vel á æfingum. 

Sancho nýtti tímann í landsleikjahléinu þó ekki til að æfa heldur skellti hann sér til New York og fór í afmæli hjá NBA-stjörnunni John Wall. Með í för var Aaron Wan-Bissaka. Öfugt við Sancho á hann fast sæti í liði United.

Wall varð 33 ára á miðvikudaginn. Hann spilaði síðast með Los Angeles Clippers. Hann lék með Washington Wizards í áratug og var á þeim tíma fimm sinnum valinn til að spila í Stjörnuleiknum.

Sancho á greinilega hauk í horni í Wall en samherjar hans hjá United ku vera orðnir þreyttir á honum. Samkvæmt frétt ESPN hafa liðsfélagar hans litla sem enga samúð með honum í deilunni við Ten Hag.

United tekur á móti Brighton í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. United er í 11. sæti deildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×