Erlent

Mesta rigning í Hong Kong í 140 ár

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Vegfarandi veður elginn í Hong Kong í morgun.
Vegfarandi veður elginn í Hong Kong í morgun. AP Photo/Louise Delmotte

Gríðarlegar rigningar í Hong Kong og í fleiri borgum í suðurhluta Kína hafa framkallað mikil flóð víða en rigningin er sú mesta sem riðið hefur yfir svæðið í manna minnum.

Í morgun voru götur Hong Kong á floti og þá flæddi inn í stöðvar neðanjarðarlestarkerfis borgarinnar. Skólum og fyrirtækjum hefur verið lokað vegna veðursins en rigningin í borginni er sú mesta í 140 ár.

Björgunarlið er að störfum um alla borg og áttatíu og þrír hafa verið fluttir á sjúkrahús. Rigningin hefur einnig framkallað aurskriður á svæðinu þannig að margir vegir eru lokaðir. Samgöngur í suðurhluta Kína hafa víða farið úr skorðum og hefur hundruðum flugferða verið aflýst vegna vatnselgs á flugvöllum.

Tugir milljóna manna búa á svæðinu sem er eitt hið þéttbýlasta í öllu Kína. Búist er við því að rigningarnar haldi áfram í dag og á morgun hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×