Lífið

Jimmy Fall­on biðst af­sökunar: „Mér líður svo illa“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Margir fyrrverandi starfsmanna þáttarins The Tonight Show segjast hafa hætt í vinnunni vegna geðheilsu sinnar. Aðrir segjast hafa verið reknir.
Margir fyrrverandi starfsmanna þáttarins The Tonight Show segjast hafa hætt í vinnunni vegna geðheilsu sinnar. Aðrir segjast hafa verið reknir. Getty/Mazur

Þáttastjórnandinn Jimmy Fallon hefur beðið núverandi og fyrrverandi starfsmenn sína afsökunar á því að hafa stuðlað að „baneitraðri“ vinnustaðamenningu á setti í þáttunum The Tonight Show. Honum segist líða gríðarlega illa.

Starfsmennirnir lýstu því í viðtali við tímaritið Rolling Stone að það hafi aldrei verið hægt að treysta á í hvernig skapi Jimmy Fallon yrði í vinnunni. Hann léti skap sitt gjarnan bitna á starfsfólki og hafi ítrekað gert lítið úr því. Andrúmsloftið á vinnustaðnum, setti þáttarins, hafi haft alvarleg áhrif á geðheilbrigði þeirra.

Vegna vinnustaðamenningarinnar töluðu starfsmenn gjarnan sín á milli um „góða Jimmy daga“ og „slæma Jimmy daga,“ eftir því hvernig skapi þáttastjórnandinn var í. Á slæmum degi á Fallon til dæmis að hafa skammað starfsmann fyrir framan grínistann Jerry Seinfeld, sem bað þáttastjórnandann að biðja starfsmanninn afsökunar. Atvikið á að hafa verið afar óþægilegt og niðurlægjandi.

Eftir að grein Rolling Stone birtist í dag ræddi Fallon við samtals sextán starfsmenn á Zoom-fundi. Þar baðst hann innilegrar afsökunar: „Þetta er vandræðalegt og mér líður mjög illa. Fyrirgefið ef ég gerði lítið úr ykkur fyrir framan vini og fjölskyldu. Mér líður svo illa að ég get ekki einu sinni lýst því.“ Samkvæmt nýrri grein Rolling Stone telja starfsmenn að afsökunarbeiðnin hafi verið einlæg en erfitt hefur reynst að fá starfsfólk þáttarins í viðtal vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×