Fótbolti

Onana snýr aftur í lands­liðið eftir að hafa lagt hanskana á hilluna í fyrra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andre Onana, markvörður Manchester United, er mættur aftur í kamerúnska landsliðið.
Andre Onana, markvörður Manchester United, er mættur aftur í kamerúnska landsliðið. James Gill - Danehouse/Getty Images

Andre Onana, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, er mættur aftur í kamerúnska landsliðið þrátt fyrir að hafa lagt landsliðshanskana á hilluna á síðasta ári.

Hinn 27 ára Onana var í kamerúnska landsliðinu sem vann sér inn þátttökurétt á HM í Katar á síðasta ári. Hann lék fyrsta leikinn á mótinu, en var settur í agabann stuttu síðar og kom ekki meira við sögu á HM.

Onana hafði lent í deilum við landsliðsþjálfarann Rigobert Song og eftir mótið greindi hann frá því að hann væri búinn að leggja landsliðshanskana á hilluna, þá aðeins 26 ára gamall.

Markvörðurinn er þó mættur aftur í landsliðið og verður í hópnum þegar Kamerún mætir Búrúndí í hreinum úrslitaleik um sæti á Afríkumótinu næstkomandi þriðjudag. Onana birti færslu á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann segir að endurkoman í landsliðið sé meðal annars til að heiðra draum sinn.

„Í fótboltaheiminum, rétt eins og í lífinu sjálfu, koma augnablik sem ákvarða framtíðina og þarfnast mikilvægra ákvarðana,“ ritaði Onana. „Seinustu mánuði hef ég þurft að glíma við aðstæður sem einkennast af óréttlæti og ráðsemi.“

„Ég svara þó kalli þjóðar minnar af algjörri vissu og veit að endurkoman er ekki bara til að heiðra persónulegan draum, heldur einnig til að koma til móts við væntingar og stuðning kamerúnsku þjóðarinnar sem á skilið að fylgjast með landsliði sem er staðráðið í að skína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×