Erlent

Minnst einn látinn vegna Saola

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar virða skemmdan leigubíl fyrir sér í Hong Kong.
Íbúar virða skemmdan leigubíl fyrir sér í Hong Kong. AP/Billy H.C. Kwok

Fellibylurinn Saola olli töluverðum skemmdum á Hong Kong en þó minni en óttast var, þar sem hann veiktist á leið að eyjunum. Tré rifnuðu upp og brotnuðu víða og minnst einn hefur látið lífið eftir að fellibylurinn fór nærri Hong Kong og Macau í Kína.

Í frétt Reuters segir að mörg skilti utan á byggingum á Hong Kong hafi fokið og að stór gluggi á skrifstofubyggingu hafi sprungið. Þá hafi sjór víða flætt á land, þar sem sjávarstaða var nokkrum metrum hærri en eðlilegt telst.

Sá sem lést var í Shenzhen í Kína en tré féll á bíl viðkomandi.

Skömmu áður en fellibylurinn náði landi í Hong Kong var viðvörunarstigið þar hækkað í T10, sem er það hæsta í boði. Saola missti þó töluverðan kraft í kjölfarið, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Yfirvöld á Hong Kong segja 63 hafa slasast vegna fellibyljarins og þá flestir vegna trjáa sem féllu á hliðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×