Fótbolti

Orri nýliði í landsliðinu en Aron Einar ekki með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson hefur fengið æ fleiri tækifæri með aðalliði FC Kaupmannahafnar að undanförnu.
Orri Steinn Óskarsson hefur fengið æ fleiri tækifæri með aðalliði FC Kaupmannahafnar að undanförnu. vísir/hulda margrét

Åge Hareide hefur tilkynnt landsliðshóp Íslands í fótbolta karla fyrir leikina gegn Lúxemborg og Bosníu í undankeppni EM 2024 í næsta mánuði.

Einn nýliði er í hópnum, Orri Steinn Óskarsson, framherji FC Kaupmannahafnar. Orri, sem varð nítján ára í gær, hefur skorað 21 mark í 33 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er ekki í hópnum. Hann hefur ekkert spilað með Al Arabi undanfarnar vikur.

Albert Guðmundsson er ekki í landsliðshópnum en hann hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot og rannsókn á máli hans stendur yfir. Samkvæmt reglum KSÍ er landsliðsþjálfara ekki heimilt að velja leikmann meðan rannsókn á máli hans stendur yfir.

Birkir Bjarnason, Arnór Sigurðsson, Þórir Jóhann Helgason og Daníel Leó Grétarsson detta einnig út frá síðasta landsliðshópi.

Kristian Nökkvi Hlynsson, nítján ára leikmaður Ajax, er í hópnum eins og síðast. Hann á enn eftir að leika A-landsleik. Kolbeinn Birgir Finnsson, leikmaður Lyngby, er einnig í hópnum. Hann hefur ekki leikið með landsliðinu síðan í janúar 2019.

Júlíus Magnússon, leikmaður Fredrikstad í norsku B-deildinni, er í hópnum en hann hefur ekki leikið keppnisleik fyrir landsliðið.

Ísland mætir Lúxemborg í Lúxemborg 8. september og Bosníu á Laugardalsvelli þremur dögum seinna. Íslendingar eru með þrjú stig í J-riðli undankeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×