Erlent

Sagði lögregluþjónum að hunskast út degi áður en hún lést

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot af upptöku úr öryggismyndavél á heimili Eric og Joan Meyer. Eric segir húsleit lögreglu hafa dregið móður sína til dauða.
Skjáskot af upptöku úr öryggismyndavél á heimili Eric og Joan Meyer. Eric segir húsleit lögreglu hafa dregið móður sína til dauða. AP/Eric Meyer

Hin 98 ára gamla Joan Meyer var verulega ósátt við lögregluþjóna sem framkvæmdu húsleit heima hjá henni og syni hennar fyrr í mánuðinum. Myndband úr öryggismyndavél sýnir að Meyer var í uppnámi þegar lögregluþjónarnir réðust til atlögu og krafðist hún þess á einum tímapunkti að lögregluþjónarnir hunskuðu sér út en hún lést degi síðar.

Hún var eigandi héraðsmiðilsins Record í Marionbæ í Kansas en útgefandinn er sonur hennar og deildu þau sömuleiðis heimili. Húsleit var einnig gerð á skrifstofu miðilsins eftir að starfsmenn dagblaðsins voru sakaðir um að hafa nálgast upplýsingar um eiganda veitingastaðar með ólöglegum hætti.

Sonur Joan, sem heitir Eric, segir að hún hafi dáið vegna áfalls eftir húsleitina.

Einnig var gerð húsleit á heimili konu í bæjarstjórn Marion, Ruth Herbel, sem eigandi veitingastaðarins hafði einnig sakað um að brjóta lög. Eric Meyer og Ruth Herbel segja að þau hafi fengið afrit af skjölum sem sneru að vínveitingaleyfi umrædds veitingamanns.

Í þessum skjölum voru upplýsingar sem gerðu Herbel og Meyer kleift að skoða frekari upplýsingar um veitingamanninn og stöðu ökuskírteinis hennar. Lögreglan segir að þau hafi brotið lög með því að skoða þær upplýsingar en lögmenn Herbel og Meyer segja það rangt.

Sjá einnig: Eigandi fjölmiðils lést eftir „ólögmæta“ húsleit

Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs og Saksóknari hefur sagt að húsleitirnar hafi verið ólögmætar og hefur lögreglunni verið skipað að skila tölvum og símum sem hald var lagt á. Á meðal þess sem lögreglan lagði hald á voru tölva og sími blaðamanns sem kom ekkert að málinu sem sneri að veitingamanninn, heldur var að rannsaka nýjan lögreglustjóra Marion og af hverju hann flutti frá Kansasborg í Missouri í apríl.

Ríkislöggæslustofnunin Kansas Bureau of Investigation hefur málið til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×