Innlent

Sex­tán ára kosninga­aldur og færan­legir kjör­staðir í nýrri reglu­gerð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sveitarfélögin verða nokkuð sjálfráða um framkvæmd kosninga ef ný reglugerð nær fram að ganga.
Sveitarfélögin verða nokkuð sjálfráða um framkvæmd kosninga ef ný reglugerð nær fram að ganga. Getty

Ef ný reglugerð innviðaráðherra nær fram að ganga munu íbúakosningar í sveitarfélögum fara fram á tveggja til fjögurra vikna tímabili, með möguleika á hreyfanlegum kjörstöðum, til að mynda kosningabifreiðum.

Þá verður einnig heimilt að greiða atkvæði með pósti.

Drögin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Sveitarstjórnum verður heimilt að miða kosningaaldur í íbúakosningum við 16 ár og þá eiga allir íslenskir, danskir, norskir, sænskir og finnskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri og eiga lögheimili í sveitarfélaginu kosningarétt. 

Einnig aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt skráð lögheimili á landinu í þrjú ár samfellt.

Reglugerðinni er ætlað að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og veita sveitarfélögunum meira vald hvað kosningarétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum. Þá er henni einnig ætlað að efla sveitastjórnarstigið með því að auka lýðræðisþátttöku og sjálfbærni sveitarfélaganna.

„Í ljósi þess trausts sem ríkja verður um kosningar sem fram fara á vegum sveitarfélaga og mikilvægi þess að allir íbúar hafi möguleika á að njóta kosningaréttar síns, er í reglugerðardrögunum að finna sambærilegar reglur um kjörgögn og varðveislu þeirra, aðstoðarmenn og framkvæmd talningar og finna má í kosningalögum,“ segir í fylgigögnum með reglugerðardrögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×