Skoðun

Inn­sýn inn líf flótta­manns

Jasmina Vajzović Crnac skrifar

Árið er 1994. Þrettán ára gömul lítil stelpa stendur fyrir framan Rauða krossinn með litla bróður sínum sem er ári yngri en hún og foreldrum þeirra. Þau setjast í rútu með eina ferðatösku á mann sem farangur. Þarna er fullt af fólki og tvær fullar rútur voru klárar að leggja af stað. Þessi stelpa situr og hugsar sér að líf fjölskyldunar hafi komist fyrir í fjórar litlar ferðatöskur. Hún var yfirgefa ömmur, frændur, æsku vinkonur og vini, skólann, umhverfið, íbúðina, húsið, bílinn og allt sem hún í raun þekkti og átti. Hun var yfirgefa alla sem hun elskaði og þótti vænt um tilbúin að fara í óvissuna á stað sem hun þekkti enga og án enga stuðnings net né tengslanets. Hún hugsaði sér hvað þetta var sárt en þetta var það skársta í stöðunni vegna ástandsins sem ríkti í hennar heimabæ sem og heimalandi. Þetta þurfti svo þau lifa af. 

Margar bosnískar fjölskyldur á öllum aldri voru á þessari stundu að yfirgefa heimilin sín, heimabæi og heimalandið. Það var ekki við öðru að búast þar sem stríð hafði geysað þar í um tvö ár. Allir af bosnískum uppruna (hér eftir nefnd bosníaks) voru atvinnulausir því yfirvöld hrektu þau í burtu með því að reka alla úr vinnu. Ekki nóg með það heldur þvinguðu þau fólkið á kerfisbundinn hátt út af heimilunum sínum, heimilunum sem þau byggðu sjálf og keyptu fyrir peningana sína. Peningana sem þau sjálf höfðu unnið fyrir. Ásamt því að þvinga fólk út af heimilum sínum hirtu þau allt innbúið þeirra. 

Litla stelpan hugsaði sér hvað þau væru heppin að hafa fengið að taka allt innbúið út úr íbúðinni sinni sem staðsett var í miðbænum. Þetta var íbúð sem foreldrar hennar keyptu eftir að hafa sparað fyrir henni í 5 ár. Á meðan þau spöruðu fyrir þessari íbúð bjuggu þau í leiguíbúð sem var ekki með rennandi vatni né rafmagni, bara til þess að spara sér fyrir nýrri íbúð. En árið 1993 báru yfirvöldin fjölskylduna út á götu, bara fyrir það að vera af bosnískum uppruna, þ.e. bosníaks. Til þess að framfleyta sér seldi fjölskyldan „óvinum“ og vinum (þeim sem þorðu að kaupa af þeim í felum) innbúið sitt. Eitthvað af þessu innbúi var selt til að gefa Rauða krossinum pening til að koma fjölskyldunni yfir landamæri. Það voru nefnilega hermenn á landamærunum sem þáðu pening gegn því að hleypa rútum fullum af flóttafólki yfir í öruggt skjól. 

Í heimabæ litlu stelpunnar töldust bosníaks ekki vera af „æskilegu“ þjóðerni á þessum stríðsárum. Fólkið var álitið sem úrhrak og mátti því koma fram við það eins og hverjum og einum hugnaðist. Sem dæmi vann pabbi stúlkunar í nauðungarbúðum við fiskeldi alla daga, í kulda og rigningu, ofan í vatni rennandi blautur með veik lungu. Í þokkabót vann hann endurgjaldslaust með hermenn yfir sér sem handléku skotvopn. Á nóttunni svaf pabbi hennar á kartöflu eða maís ökrum því hermenn sóttu bosníak karmlenn í yfirheyrslur og misþyrmingar á lögreglustöðina. Þannig enduðu nokkrir nágrannar, kunningjar, vinir og fjölskyldumeðlimir stelpunnar. Þau voru sótt af hermönnunum og illa misþyrmt, sumir enduðu í hjólastól og höfðu lífs af ef þau voru heppin en margir hurfu og komu aldrei til baka. Ennþá í dag er ekki vitað um örlög þeirra sem hurfu. Þar að auki enduðu einhverjir í útrýmingarbúðum. 

Í þann mund rifjar stelpan upp þegar þau enduðu á götunni og amma hennar átti laust herbergi. Einhverja nóttina fór hún fram þar sem mikil læti voru í garðinum hjá ömmu hennar. Fólk var á hlaupum og öskraði hátt: „Taktu hann, náðu hinum!“, „Hann stökk út um gluggann!“, „Eltu hann! Hann fór upp hér“, „Skjóttu!“, „Við drepum þig um leið og við náum þér!“. Ásamt því voru blótsyrði sem fylgdu þessum upphrópunum. Daginn eftir heyrði stelpan að hermennirnir voru að sækja mann sem bjó við hliðina á ömmu hennar, maður sem var bosníak. 

Hermennirnir sóttu ekki bara karlmenn, heldur líka konur og ungar stelpur og þá helst til að nauðga þeim og koma þeim fyrir í nauðgunarbúðum. Það voru nefnilega nauðgunarbúðir víða um landið þar sem kerfisbundnar misþyrmingar áttu sér stað. En nú hlaut þessari hræðslu að ljúka hugsaði stelpan með sér, því fjölskyldan var á leiðinni með rútunni til Ungverjalands. Þar ætlaði fjölskyldan að sækja um hæli og pabbi hennar og þau hin þurftu ekki lengur að óttast neins. Þau þurftu nefnilega ekki að óttast um líf sitt og hvað þá um að vera ofsótt í Ungverjalandi. Þar munu þau hafa rennandi vatn, rafmagn, upphitað húsnæði og mat á boðstólnum. Eitthvað sem fjölskyldan hafði ekki haft nóg af síðan stríðið hófst. 

Ferðin að landamærunum var afar erfið þar sem hermenn stoppuðu rúturnar oft og báðu fólkið um að yfirgefa rúturnar svo hægt væri skoða hvað þau væru með meðferðis. Hermennirnir tóku öll verðmæti af fólkinu. Allt sem var peninga virði var hirt af fólki. Stelpan hafði miklar áhyggjur af því að vera numin á brott af hermönnunum því það var algengt að unglingsstúlkur voru teknar. En sem betur fer lifði stelpan og fjölskylda hennar þetta af. Þegar farið var að nálgast landamæri Ungverjalands fylltist stelpan full tilhlökkunar. Loksins hugsaði hún, það er stutt í frelsið. Við tilhugsun um frelsi leyfði hún sér að dreyma stórt. En þetta endist ekki lengi. Þegar rútan stoppaði við landamærin þá skipaði landamæralögreglan öllum að afhenda skilríkin sín. 

Eftir margra klukkustunda viðræður milli fulltrúa Rauða krossins og lögreglunnar var rútunni snúið við tilbaka í óvissuna, því henni var ekki heimilt af fara yfir landamærin. Kvíði, ótti og ringulreið heltök alla í rútunni og stelpan sá á foreldrum sínum að þetta boðaði ekkert gott. Þeim leið hræðilega illa, þó eins og oft áður, reyndu þau að virðast róleg til að róa börnin sín niður og fullvissa þau um að þetta yrði allt í lagi. Stelpan hafði nefnilega sé þennan svip hjá mömmu sinni oft áður, þá helst þegar hún kvaddi pabba hennar á morgnana og þegar hann kom heim seint heim á kvöldin úr nauðungar-og þrælabúðunum. Mamma hennar var mjög áhyggjufull. Rútan sneri aftur til Bosníu og Hersegóvínu, heimalandið þeirra, þar sem geisaði eitt hræðilegast stríð sem hafði sést síðan seinni heimstyrjöldin átti sér stað. Þar sem fólki var misþyrmt, nauðgað og drepið á kerfisbundin hátt. Land sem enginn var öruggur í og hvað þá bosníaks. 

Í stað þess að fá að komast til lífs af í Ungverjalandi þá var rútunni snúið aftur í hreint lifandi helvíti. Rútan stoppaði á torgi í litlum bæ að nafni Turbe sem tilheyrði bosníska hernum. Stelpan hugsaði sér að þetta yrði allt í lagi því hér var „okkar“ fólk. Fjölskyldan verður þá nokkuð örugg innan um aðra bosníaks. Því miður reyndist það rangt. Stelpan fékk þá að upplifa aftur sárafátækt, útskúfun og hryllilega framkomu frá samlöndum sínum þar sem hún og fjölskyldan hennar flokkuðust sem flóttafólk og afætur. 

Fjölskyldan hennar og annað flóttafólk voru byrði, þau tóku heimilin í burtu frá heimamönnum, voru þurfandi og algjörir aumingjar upp til hópa. Þarna upplifði hún og fjölskyldan hennar ótta, einelti, ofbeldi, heimilisleysi, sprengjuárasir, að sjá látið fólk og börn út á götu, sjá börn missa foreldra sína og fjölskyldur að glata ástvinum, að búa í flóttamannabúðum án rafmags, hita og vatns þar sem fleiri hundruð manns bjó saman í einum sal og sváfu eins uppraðaðar sardínur a dýnu. Það var svo margt annað hryllilegt sem þau upplifðu að það væri efni í heila bók. 

Í stuttu máli þá var þessi stelpa ekki orðin fimmtán ára gömul þegar hún upplifði verstu martröð margra ef ekki flestra rétthugsandi einstaklinga í heiminum. Þetta er allt eitthvað sem sem flestir (sem betur fer) hafa aldrei séð eða hafa þurft að upplifa og margt sem er ekki einu sinni hægt að lýsa með orðum. Þessi stelpa í þessari frásögn er ég! Nú veltið þið fyrir ykkur hvers vegna ég er að segja þessa sögu enn eina ferðina. 

Það er vegna þess að ég vona að hún fái fólk og stjórnvöld til að rýna betur í aðstæður þeirra sem flýja og hvers vegna þau sækja um vernd. Fólk sem er í neyð eins og við fjölskyldan mín vorum sækir um vernd. Við vorum að flýja ofsóknir og ofbeldi í okkar heimalandi. Aðrir flýja annarskonar ofbeldi eins og mansal svo eitthvað sé nefnd. Það er út af þessu ofbeldi og ofsóknum sem við reyndum að komast til Ungverjalands. Við reyndum að fara yfir landamæri til að sækja um vernd. En Ungverjaland virtist ekki vilja af flóttafólki vita. Um þessar mundir vilja íslensk stjórnvöld heldur ekki vita af flóttafólki og eru nú þessa dagana að reka þau út á götu með það markmið að koma þeim af landi brott. 

Þegar ég horfi til baka þá hugsa ég með mér að Ungverjaland hafi misst af því tækifæri að fá mig en ekki öfugt. Ísland var heppnari að því leyti að þau veittu mér tækifæri því þau vildu fjárfesta í mér og minni fjölskyldu. Enda er það eina sem flóttafólk biður um er tækifæri. Ég fékk tækifæri. Fjölskylda mín fékk atvinnu- og dvalarleyfi hér árið 1996 og við höfum síðan þá skilað þakklæti okkar margfalt tilbaka til lands og þjóð. Bæði sem fyrirmyndaborgarar og sem skattgreiðendur. Þetta er lausn við málum þessa einstaklinga sem verið er henda út á götu síðustu daga, atvinnu- og dvalarleyfi. 

Ég er með tvær háskólagráður, eignaðist fjögur börn og ásamt því rekum við lítið fjölskyldufyrirtæki. Bróðir minn rekur sitt eigið fyrirtæki í dag og eignaðist sína eigin fjölskyldu. Pabbi heitinn var með háskólagráðu en vann í fiski alla sína ævi á meðan hann var á lífi. Mamma er skósmiður en vann samhliða pabba í fiski í rúmlega 20 ár. Við eigum öll hús, bíla og leggjum okkar að mörkum við að reka hagkerfi Íslands, t.d. greiðum skatta. Þar að auki höfum við aldrei átt neitt saknæmt við einn né neinn. Af hverju má flóttafólk, eins og við vorum einu sinni og fólkið núna sem verið er að vísa út á götuna, ekki fá sömu tækifæri og við fengum? 

Mér er fyrirmunað að skilja svona háttsemi og ég hreinlega neita að skilja. Þetta er svo mikil grimmd og mannvonska að senda fólk út í óvissuna með það markmið að þau yfirgefi landið. Í ljósi reynslu minnar er þetta algjörlega óskiljanlegt. Ég hugsa oft hversu mörgum Jasminum ætlum við henda út á götu og vísa úr landi? Ég kem fram við fólk eins og ég vil að komið sé fram við mig og því byrja ég alltaf á því að hugsa um hlutina út frá sjálfri mér. Það er átakanlegt að sitja og horfa á þetta. Öllum ber skilda að hugsa þannig. 

Það sem ég ætla biðja ykkur, kæru lesendur, er að lesa vel og reyna tengja við það sem ég skrifaði hér að ofan. Ég vil að þið spyrjið ykkur hvort þið mynduð vilja að vera í þessum sporum og hvað þið hefðuð gert? Mynduð þið vilja henda eða vísa mér og minni fjölskyldu úr landi? Flestir eru nefnilega Jasmina og eiga fjölskyldu eins og Jasmina. Harðduglegt og heiðarlegt fólk. Við getum og megum ekki dæma flesta út frá einu eða tveimur skemmdum eplum. Ekki láta plata ykkur með ofsafenginni orðræðu um glæpamenn, letingja, aumingja, afætur og þess háttar. Ég var kölluð allt þetta oftar en einu sinni en ég hef margoft sýnt fram á að ég er allt hið gagnstæða. Flóttafólk eru fyrst og fremst mennsk eins ég og þú og það er það eina sem skiptir máli í stóra samhenginu. Sýnum mannúð í orði og á borði. Kvet stjórnvöld eindregið og fólk í landinu að standa með mannauði og flóttafólki. 

Höfundur er Jasmina Vajzović Crnac innflytjandi, flóttakona, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í málefnum flóttafólks og innflytjenda en fyrst og fremst Íslendingur og mennsk.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×