Golf

Mickelson hafi veðjað yfir 130 milljörðum á seinustu þrem áratugum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atvinnufjárhættuspilarinn Billy Walters segir að Phil Mickelson hafi tapað um 100 milljónum dollara í veðmálum sínum.
Atvinnufjárhættuspilarinn Billy Walters segir að Phil Mickelson hafi tapað um 100 milljónum dollara í veðmálum sínum. Charlie Crowhurst/R&A/R&A via Getty Images

Atvinnufjárhættuspilarinn Billy Walters greinir frá því í væntanlegri bók sinni að kylfingurinn Phil Mickelson hafi veðjað meira en einum milljarði bandaríkjadollara á hinar ýmsu íþróttir síðustu þrjá áratugi, en það samsvarar rúmlega 130 milljörðum íslenskra króna.

Í bók sinni, sem ber heitið Gambler: Secrets from a Life of Risk, fer Walters ítarlega yfir veðmálahegðun Mickelson á síðustu áratugum og samband þeirra, en Walters er talinn farsælasti fjárhættuspilari Bandaríkjanna.

Í bókinni segir Walters frá því að á síðustu þremur áratugum hafi Mickelson líklega veðjað meira en einum milljarði dollara á hinar ýmsu íþróttir og þar á meðal hafi hann árið 2012 reynt að veðja 400 þúsund dollurum (52,6 milljónum íslenskra króna) á sig og liðsfélaga sína í bandaríska liðinu í Ryder-bikarnum.

Þá segir Walters einnig frá því að samkvæmt hans heimildum hafi Mickelson á árunum 2010 til 2014 hafi Mickelson 858 sinnum veðjað 220 þúsund dollurum og í 1.115 skipti hafi hann veðjað 110 þúsund dollurum. 

Samkvæmt grófum útreikningum Walters hefur kylfingurinn tapað yfr 100 milljónum dollara á seinustu þremur áratugum, en það samsvarar um 13 milljörðum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×