Erlent

Maður sakaður um hótanir gegn Biden skotinn til bana af FBI-lög­reglunni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
„Það er tími til kominn fyrir eitt eða tvö forsetamorð. Fyrst Joe, síðan Kamala,“ segir í einni af færslum mannsins. 
„Það er tími til kominn fyrir eitt eða tvö forsetamorð. Fyrst Joe, síðan Kamala,“ segir í einni af færslum mannsins.  AP

Karlmaður frá Utah-ríki í Bandaríkjunum sem sakaður er um hótanir gegn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, var skotinn til bana af bandarísku Alríkislögreglunni (FBI) á heimili sínu í dag, nokkrum klukkustundum áður en Biden lenti í ríkinu. 

Craig Deleeuw Robertson var skotinn til bana þegar útsendarar FBI reyndu að birta honum leitarheimild á heimili hans í bænum Provo suður af Saltsvatnsborg í Utah um klukkan 6:15 að staðartíma, að því er segir í yfirlýsingu FBI. Robertson var á áttræðisaldri ef marka má samfélagsmiðlareikninga hans.

Frekari upplýsingar hafa ekki verið gefnar um atburðinn en hann er til skoðunar innan FBI. Heimildir AP-fréttastofunnar innan lögreglunnar herma að Robertson hafi verið vopnaður þegar hann var skotinn.

Robertson hafði birt ógrynni af færslum á samfélagsmiðlum þar sem hann gaf sterklega í skyn að hann ætlaði sér að myrða Biden. Á mánudaginn birti hann færslu þess efnis að hann hefði heyrt að Biden væri á leið til Utah og að því tilefni ætlaði hann að klæða sig í feluliti og dusta rykið af m24 rifflinum sínum.

„Í draumum mínum sé ég fyrir mér lík Joe Bidens í dimmu horni bílastæðahúss í Washington DC, liggjandi í blóðpolli með höfuðið afskorið,“ segir í einni færslu. „Það er tími til kominn fyrir eitt eða tvö forsetamorð. Fyrst Joe, síðan Kamala,“ segir í annarri.

Færslur Robertson voru ófáar.AP

Á þriðjudag var Robertson ákærður fyrir þrjár sakargiftir, þar á meðal fyrir að hafa hótað forsetanum. 

Þá segir að hann hafi að auki hótað Alvin Gregg héraðssaksóknara í Manhattan, Merrick Garland dómsmálaráðherra og Letitia James, dómsmálaráðherra New York-ríkis, í færslum sínum. „Merrick Garland, heilabilaði væskill, ég er hundrað prósent á móti þungunarrofi. Hvers vegna banka FBI-hugleysingjarnir þínir ekki upp á hjá mér? Veistu, þeir munu deyja,“ sagði í einni þeirra.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×