Enski boltinn

Klopp pirraður út í stuðningsmann: „Þú verður að halda helvítis treyjunni almennilega“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp hefur stýrt Liverpool síðan 2015.
Jürgen Klopp hefur stýrt Liverpool síðan 2015. getty/Apinya Rittipo

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eitthvað illa fyrirkallaður þegar stuðningsmaður félagsins nálgaðist hann eftir tap fyrir Bayern München í æfingaleik.

Í fyrradag tapaði Liverpool fyrir Bayern í æfingaleik í Singapúr, 4-3. Liverpool komst í 2-0 og 3-2 í leiknum en Bæjarar jöfnuðu fyrst fyrir hálfleik og tryggðu sér síðan sigurinn með marki í uppbótatíma.

Eftir leikinn biðu nokkrir stuðningsmenn Liverpool eftir liðinu fyrir utan hótel liðsins. Klopp gekk til þeirra og bað þá um að flýta sér þar sem hann hefði ekki mikinn tíma.

Einn stuðningsmaðurinn bað Klopp um að skrifa á Liverpool-treyju. Hann var þó eitthvað stressaður í návist Þjóðverjans og missti treyjuna.

„Þú verður að halda helvítis treyjunni almennilega,“ sagði Klopp við stuðningsmanninn sem baðst afsökunar.

Liverpool mætir Darmstadt 98 í Preston á mánudaginn í síðasta æfingaleik sínum í sumar. Á sunnudaginn mætir Rauði herinn svo Chelsea á útivelli í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool endaði í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og komst ekki í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×